Tengdar greinar

Djass, blús og blágras á Seyðisfirði

Sumartónleikaröðin hefur notið mikilla vinsælda. Mynd: Jessica Auer.

Sumartónleikaröðin Bláa kirkjan, sem svo er nefnd, hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn af helstu menningarviðburðum í tónlistarlífi Austfirðinga. Þar er boðið upp á fjölbreytta dagskrá tónlistar þar sem færi gefst á að hlýða á marga af áhugaverðustu tónlistarmönnum landsins í frábærum tónleikasal Seyðisfjarðarkirkju. Erlendir listamenn koma einnig nokkuð við sögu á tónleikunum.

Sumartónleikaröðin var sett á laggirnar árið 1998 fyrir atbeina bandarísku söngkonunnar og tónlistarkennarans Muff Worden, en hún fluttist frá Bandaríkjunum 1997 til að kenna við Tónlistarskólann á Seyðisfirði. Muff lést hins vegar langt fyrir aldur fram og er minningu hennar haldið á lofti með því að viðhalda tónleikaröðinni.

Í sumar verða fimm tónleikar í júlí og ágúst. Miðvikudagskvöld hafa jafnan orðið fyrir valinu fyrir tónleikaröð Bláu kirkjunnar vegna þess að þá er farþegaferjan Norræna í höfn á Seyðisfirði. Einnig töldu stofnendur tónleikaraðarinnar tímasetninguna heppilega fyrir heimamenn.

Fjölbreytt efnisskrá

Á efnisskránni ber hæst djass, blús, blágras og a-capello í flutningi íslenskra og erlendra tónlistarmanna. Vigdís Klara Aradóttir og Guido Baeumer leika á saxófóna, hljómsveitin Dirty Cello frá vesturströnd Bandaríkjanna flytur tónlist undir stjórn sellóleikarans Rebeccu Roudman, Kristjana Stefáns heldur tónleika með gítarleikaranum Ómari Guðjónssyni og kontrabassaleikaranum Þorgrími Jónssyni. Þau síðastnefndu ætla að flytja lög í léttdjössuðum búningi frá Bubba Morthens, Björgvini Halldórs, KK, Hauki Morthens, Ragga Bjarna, Vilhjálmi Vilhjálms, Valgeiri Guðjóns, Gunnari Þórðar og fleirum. Olga Vocal Ensemble er heiti á acappella-sönghópi sem hefur verið starfræktur síðan árið 2012, en norðurljósin eru aðalþemað á tónleikum þeirra. Að lokum mun „indí-bandið“ Coney Island Babies frá Neskaupstað flytja tónlist sem er innblásin af þéttum takti austfirsku sjávaröldunnar.

Hver var Muff Worden?

Leirstytta af Muff Worden sem ungri stúlku, varðveitt á Bókasafni Seyðisfjarðar. Mynd: Sólveig Sigurðardóttir.

Í glugga Seyðisfjarðarkirkju hékk um árabil þessi texti: „Ef þig langur að skoða á kirkju og kirkjan er lokað, klappaðu á hurðina á Ránargötu 3 – húsið rétt hjá Shell, ljósbrúnt með græna þakkina. Ef gráa jeppa er ekki við húsið, bara komdu tilbaka seinna, eða spyrja á Pósturinn.“

Þessi orð skrifaði Ethelwyn Worden frá Delawere í Bandaríkjunum, kölluð Muff, á sinni skemmtilegu íslensku – sem vinir hennar kölluðu „muffísku“. Hún kom eins og ferskur andblær inn í bæjarlífið á Seyðisfirði árið 1997 þegar hún kom til að leysa af organistann sem þá var að fara í barneignarleyfi. Hún ílentist hins vegar á Seyðisfirði og bjó þar og starfaði í níu ár áður en hún lést skyndilega.

Fljótlega eftir að Muff fluttist til Íslands kviknaði sú hugmynd að koma af stað sumartónleikaröðinni Bláu kirkjunni í Seyðisfjarðarkirkju. Muff fannst kirkjan sérlega falleg og taldi tilvalið að halda tónleika í henni fyrir ferðamenn á sumrin, sem sóttu mikið í að skoða hana.

Muff var 63 ára þegar hún lést og var jarðsungin frá Seyðisfjarðarkirkju.

Tónleikarnir hefjast allir kl. 20.30 á miðvikudögum og er miðasala við inngang kirkjunnar. Aðgangseyrir er 3.000 kr. en 2.000 kr. fyrir námsmenn, eldri borgara og öryrkja.

Ritstjórn maí 20, 2021 09:54