Dýrir dropar

Færa  má ákveðin rök fyrir því að þefskynið hafi ævinlega verið vanmetið. Lykt getur vakið upp gleymdar minningar, róað taugakerfið, örvað kynlöngun og vakið bæði vellíðan og vanlíðan eftir atvikum. Þess vegna hafa menn frá aldaöðli notað ilmefni, blandað þeim saman og búið til ilmandi vökva. Ilmvatnsframleiðsla gengur út á að höfða til og tendra tilfinningar og vera aflvaki í samskiptum manna á milli.

Orðið „parfume” er myndað úr latnesku orðunum per fumum en bein þýðing þeirra væri „í gegnum reyk”. Líklega kemur það til vegna þess að mannkynið komst fyrst upp á lag með að brenna ilmsterkum jurtum til að skapa notalegri lykt í íverustöðum sínum. Seinna voru þær steyptar saman með kjarnaolíum og þá varð reykelsi til. Þessar ilmstangir voru dýrar og ekki á færi alls almennings að kaupa en þær voru notaðar við trúarlegar athafnir, til að örva einbeitingu við hugleiðslu og til lækninga. Reykelsi er enn hluti af kaþólsku messuhaldi.

Í Egyptalandi til forna voru ilmefni notuð á margvíslegan hátt, meðal annars til þess að hjálpa látnum að komast yfir í annan heim og í lækningaskyni. Þá var ilmurinn af reykelsi, kryddi og jurtum svo fágætur og dýrmætur, að það var nánast eingöngu á færi konunga að njóta þeirra. Fljótlega komust þeir hins vegar upp á lag með að framleiða ilmandi olíur og vökva og þá urðu ilmvötn almenningseign þar í landi og landsmönnum gert skylt að bera á sig ilm að minnsta kosti einu sinni í viku. Líferni Rómverja einkenndist af flestu öðru en hófsemi, en þeir voru ósparir á ilmefnin og notuðu þau líka á gæludýr sín og hesta. Í glæsiveislum var ilmvatn borið á vængi fugla og þeir síðan látnir fljúga um allt hús til að dreifa ilmi.

Ilmurinn faldi sóðaskapinn

Fyrstu heimildir um ilmefnanotkun í Evrópu eru frá árinu 100 eftir Krist en þá tók kirkjan afstöðu gegn ilmefnum og sagði notkun þeirra stríða gegn kristnu líferni. Á miðöldum sneru krossfararnir heim frá miðausturlöndum með margvíslegar nýjungar í farteskinu þar á meðal reykelsi, myrru og ilmvötn. Þá hófst notkun ilmefna fyrir alvöru í Evrópu. Til að byrja með voru þau voru fyrst og fremst notuð af hirð og aðli í þeim tilgangi að breiða yfir eigin líkamsþef, en baðferðir voru fátíðar og yfirleitt ekki góð aðstaða til að sinna hreinlæti í köldum köstulum yfirstéttanna. Í dag er slík ilmvatnsnotkun gjarnan kölluð  „truckerbath” enda stoppa bílstjórar langferðabíla oft ekki lengi milli túra og þótt þeir taki dúra reglulega er býðst ekki aðstaða til að fara í sturtu.

Á átjándu öld náðu ilmvötn fádæma vinsældum og útbreiðslu í Frakklandi. Lúðvík 16. krafðist þess að um híbýli hans væri spreyjað nýjum ilmi á hverjum degi og hirð hans jós yfir sig ilmvötnum. Napóleon Frakkakeisari var ekki eftirbátur Loðvíks í ilmefnanotkun, en hann er sagður hafa notað tvær vænar flöskur af fjóluvatni í viku hverri. Kona hans, Jósefína notaði svo mikið af muskolíu, að sextíu árum eftir dauða hennar mátti enn finna lyktina í svefnherbergi hennar.

Líklega hefur manninum alltaf verið ljós áhrifamáttur ilms þegar kemur að kynhvöt og kynörvun. Nútímavísindi hafa fært sönnur á að karlmenn og konur gefa frá sér fermón sem ráða miklu um hvort annar einstaklingur dregst að þeim eða ekki. Með öðrum orðum, líki þér ekki lyktin muntu aldrei þola við í hjónabandi með viðkomandi. Mörg ilmvötn hafa reynst prýðis stoð þegar verið er að draga einhvern á tálar. Slíku lykilhlutverki gengdu ilmvötn í því að árið 1770 samþykkti enska þingið lög sem kváðu á um að gengi karlmaður í það heilaga með konu sem hafði borið á sig ilmvatn væri honum heimilt að krefjast ógildingar hjónabandsins, því honum hefði ekki verið sjálfrátt sökum ilms.

Mismunandi styrkleikar ilmvatns

Ilmvötn fást í mismunandi styrkleikum. Talað er um Perfume extract, ef hlutfall ilmefnanna er á bilinu 20 – 40%. Eau de parfum inniheldur 10 – 30% af ilmefnum, hlutfall ilmefna í Eau de toilette er 5 – 20% og lestina rekur Eau de cologne, en þar er hlutfall ilmefna 2-5%. Eftir því sem hlutfall ilmefnanna er hærra, þeim mun lengur endist ilmurinn.

Sagt er að ilmvötn sé samansett úr þremur nótum. Þær birtast ein af annarri þegar ilmvatnið byrjar að gufa upp og þegar ilmvatn er búið til er tekið tillit til þessa eiginleika við blöndunina. Fyrst eftir að ilmvatnið er borið á er toppnótan allsráðandi. Þegar við prófum ilmvatn finnum við yfirleitt eingöngu toppnótuna og því er hún afar mikilvæg hvað varðar söluvænleik vörunnar. Þau efni sem búa til toppnótuna eru sterk en þau gufa líka fljótt upp. Þá svífur miðnótan upp í nasir mann en það er töluvert mildari ilmur. Hún kemur í ljós allt frá tveimur mínútum og upp í einni klukkustund eftir að ilmvatnið er borið á. Miðnótan er hið svokallaða hjarta ilmsins. Að lokum birtist grunnnótan sem inniheldur yfirleitt lyktsterk efni. Hún kemur oftast ekki í ljós fyrr en hálftíma eftir að ilmurinn er borinn á.

Tímaritið Forbes tók saman lista yfir heimsins dýrustu ilmvötn. Í efstu sætum þar voru dýrir dropar, en óhætt er að fullyrða að aðeins sé á færi örfárra að festa kaup á þeim.

  1. Clive Christians Imperial Majesty. Eingöngu tíu flöskur voru búnar til af þessu ilmvatni og þær eru ekki af verri endanum; úr fínasta kristal og með 18 karata gullstút. Flöskuna prýðir svo fimm karata hvítur demantur og verðið, um 15,5 milljónir íslenskra króna.
  2. Clive Christians No. 1. Ilmvatnið er meðal annars unnið úr ylang ylang jurtinni, sem er ræktuð sérstaklega á Madagaskar fyrir ilmvatnsframleiðandann. Flaskan er úr handunnum kristal og verðið er tæpar 155,000 íslenskar krónur.
  3. Carons Poivre. Caron er franskt ilmvatnshús sem hefur starfað í 101 ár. Ilmurinn var fyrst markaðssettur árið 1954. Nafnið þýðir pipar á frönsku og þessi ilmur hentar bæði konum og körlum. Verðið er um 145,000 íslenskar krónur.
  4. Chanel No. 5, Perfume. Fyrir rúmlega 133,000 krónur má fá hálfan lítra af þessu frægasta ilmvatni allra tíma í perfume útgáfu. Gengur stundum undir nafninu „Náttfötin hennar Marilyn Monroe”, en að eigin sögn svaf hún nakin í Chanel 5 ilmvatnsskýi.

Stjörnuilmvötn

Af og til koma frá á sjónarsviðið ilmvötn, sem slá svo gjörsamlega í gegn að lyktina af þeim má nánast finna alls staðar. Hér eru nokkur slík og „fæðingarár” þeirra:

1921    Chanel No. 5 frá Chanel

1925    Shalimar frá Guerlain

1948    L´Air du temps frá Nina Ricci

1956    Diorissimo frá Dior

1979    Anaïs Anaïs frá Cacharel

1981    Giorgio frá Giorgio Beverly Hills

1985    Poison frá Christian Dior

1988    Eternity frá Calvin Klein

1993    Jean-Paul Gaultier frá Jean-Paul Gaultier

1995    CK One frá Calvin Klein

1997    Envy frá Gucci

2001    Coco Mademoiselle frá Chanel

Hvernig er best að geyma ilmvatn?

Helstu óvinir ilmvatns eru hiti, ljós og súrefni. Eftir að ilmvatnsglas hefur verið opnað, varðveitist ilmurinn í allt að eitt ár, svo framarlega sem glasið er fullt eða næstum því fullt. Eftir því sem meira er tekið úr glasinu, hækkar súrefnismagnið í því og það hefur áhrif á ilminn. Best er að geyma ilmvötn í upprunalegum umbúðum, gott er að hafa þau á köldum stað við 3-7 gráður. Ilmvötn geymast best í ilmvatnsglösum með spraystút, því þar safnast minna súrefni fyrir og ilmvatnið blandast ekki saman við ryk eða önnur óhreinindi.

Ritstjórn október 13, 2023 07:00