Edda á Birkimelnum er komin aftur á stjá og er jafn hvatvís, afskiptasöm, stjórnsöm, forvitin og bráðskemmtileg og áður. Það er hreinlega eins og að bjóða gamla vinkonu velkomna í kaffi að opna Voðaverk í Vesturbænum. Edda á sér marga aðdáendur og þessi skemmtilega persóna mótast betur og betur í hverri bók Jónínu Leósdóttur um hana. Að þessu sinni rannsakar Edda árás á ungan dreng á Tómasarhaganum og forvitnast um hvers vegna þekktur fjölmiðlamaður er að lauma umslögum inn um bréfalúguna hjá ungri konu.
Já, Edda sleppir engu tækifæri til að stinga nefinu ofan í annarra manna koppa en hún er líka umhyggjusöm og hefur raunverulega þörf fyrir að hjálpa. Það kemur vel í ljós þegar bæði Iðunn og Viktor þurfa sárlega á henni að halda. Jónína skrifar þessar bækur af dásamlegri kímni og léttleika. En þær eru líka trúverðugar, fjalla iðulega um mikilvæg málefni á borð við jafnrétti, mismunun, fordóma og ofbeldi. Edda gæti verið konan í næsta húsi og hún minnir okkur á að allt sem gerist í næsta nágrenni við okkur kemur okkur við. Samfélagið á að láta sig varða um aðra. Hún Edda okkar gengur auðvitað iðulega of langt og hreinskiptni hennar er ekki öllum að skapi en ef fleiri Eddur gengju um ekki bara á Melunum heldur líka í Vogunum, Hlíðunum og Bökkunum er alveg hugsanlegt að sumum fyndust þeir ekki alveg einir.
Það er líka áhugavert að velta fyrir sér hvers vegna bækur um útsjónarsama og gáfaða eldri borgara að leysa sakamál séu svona vinsælar? Mrs. Marple Agöthu Christie er án efa sú þekktasta í þessum flokki en margar hennar líkar hafa komið fram áður en Edda á Birkimelnum fór að líta í kringum sig í Vesturbænum. Kannski finnst okkur þetta gefa fyrirheit um að ekki séu öll ævintýri á enda þótt aldur færist yfir og auðvitað er mjög rökrétt að gefa sér að fólk missi ekki athyglisgáfuna og ályktunarhæfnina með aldrinum en hins vegar aukast líkur á að aðrir vanmeti hina gráhærðu. Að lokum er vert að nefna þeim til gleði sem deila áhuga og aðdáun undirritaðrar á rosknum, snjöllum spæjurum í sakamálasögum að væntanleg í ár er kvikmynd gerð eftir fyrstu sögu Richards Osmans um Fimmtudagsmorðklúbbinn. Leiðtogi þeirra er Elizabeth Best fyrrum leynþjónustukona bæði hugvitsöm og klók en hin sem hún hefur valið með sér hafa öll einstaka eiginleika til að bera sem hjálpa sannarlega þegar kemur að því að leiða allt til farsælla lykta. Aðalleikarar myndarinnar eru ekki af verri endanum eða Helen Mirren, Ben Kingsley, Celie Imrie, Pierce Brosnan og Jonathan Price.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.