Ellilífeyrisþegar í ævintýraleit

Í fyrra kom út skáldsagan, Sólrún, eftir Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur. Þetta er falleg skáldsaga um aldraða konu sem ákveður að láta sig hverfa og halda í leit að ævintýrum. Þetta er alls ekki fyrsta skáldsagan þar sem aðalpersónan er komin af léttasta skeiði og margir bókaunnendur geta áreiðanlega talið upp margar slíkar. Þær eru hluti af nýrri tegund bóka þar sem eldra fólk er viðfangsefnið og engu líkara en að skáldsagnahöfundar séu í auknum mæli að kveikja á því að það leynist víða fjörugur og skapandi hugur bak við hrukkótt andlit.

Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf og Hin ótrúlega pílagrímssaga Harolds Fry  nutu mikilla vinsælda þegar þær komu út. Hið sama má segja um hina fallegu sögu Kristínar Steinsdóttur, Á eigin vegum, sem frábær leikgerð var gerð eftir og sýnd í Borgarleikhúsinu. Eftir sama höfund er svo einnig, Ekki vera sár, um Imbu sem er komin á eftirlaun og þarf að ákveða hvað hún vill gera við árin sem hún á eftir. Þessar bækur eigia sameiginlegt með Sólrúnu, að í þeim er þema sem snertir á tilbreytingar- og tilgangsleysi sem eldra fólk finnur fyrir. Ýmist er því er komið fyrir á stofnunum þar sem tíminn líður hægt eða það býr eitt og á sér fá áhugamál. Þegar það tekur málin í sínar hendur og gerir eitthvað til að skapa sér áhugaverðara og skemmtilegra líf verður úr ævintýri og uppgjör sem skilar aðalsöguhetjunni aukinni lífsfyllingu. Í þessu sambandi verður líka að minna á, Maður að nafni Ove og Britt Marie var hér en þær eru báðar eftir Fredrik Backman.

Auðvitað eru svo til ótal bækur um gamalt fólk sem lítur til baka yfir farinn veg en meginpartur sögunnar gerist á meðan það var ungt. Þar eru bækur eins og Fried Green Tomatoes at the Whistle Stop Café, eftir Fanny Flagg, The Remains of the Day, eftir Kazuo Ishiguru, Memoiries of a Geisha, eftir Arthur Golding og Water for Elephants eftir Söruh Gruen. Ótal fleiri má ábyggilega telja upp. En svo eru gamlingjarnir sem neita að gefast upp fyrir ellinni og í þeirra hópi er gamli fiskimaðurinn í, Gamli maðurinn og hafið, eftir Ernst Hemingway og Martha Anderson í Kaffe med rån en sú bók fékk í enskri þýðingu titilinn, The Little Old Lady who Broke all the Rules, eftir Catharina Ingelman-Sundberg. Svo vinsæl varð bókin að höfundur hefur skrifað tvær aðrar um sömu persónur.

Hópurinn á sænska elliheimilinu kallast svo ágætlega á við Fimmtudagsmorðklúbb, Richards Osmans. En þar segir af breskum ellilífeyrisþegum sem búa í þorpi fyrir eldri borgara og skemmta sér við að leysa sakamál. Á íslensku hafa komið út þrjár bækur um hópinn, Fimmtudagsmorðklúbburinn, Maðurinn sem dó tvisvar og Skotið sem geigaði. Og þegar þau hafa verið nefnd verður auðvitað að minna á að við Íslendingar eigum okkar eigin spæjara sem komnir eru af léttasta skeiði. Þær Jónína Leósdóttir og Anna Ólafsdóttir Björnsson eiga heiðurinn af þeim en Edda á Birkimelnum og Linda Lilja og Gabríel hafa öll til að bera óvenjulega skarpa athyglisgáfu og ályktunarhæfni. Jónína hefur skrifað fimm bækur um Eddu en Anna tvær um sitt par.

 

Ritstjórn júlí 12, 2023 11:45