Í leit að samviskulausum kúgara

Þvingun eftir Jónínu Leósdóttir er skemmtilega fléttuð sakamálasaga. Styrkur Jónínu sem höfundar liggur ekki hvað síst í frumlegri og trúverðugri persónusköpun og hér er heilt gallerí af áhugaverðum karakterum. Hún er einnig lipur stílisti og kímnin kraumar ávallt undir niðri.

Sálfræðingurinn Adam og Soffía rannsóknarlögreglukona bregðast við hvort á sinn hátt þegar Magga dóttir þeirra finnur látinn mann í sumarbústað á Þingvöllum. Fljótlega kemur í ljós að þræðir málsins teygja sig inn í lúxusskrifstofurými á besta stað í Reykjavík en þar leigja saman og nýta sér hæfileika hvers annars fjölhæfir einyrkjar. Soffía, hvatvís að vanda, má ekki vera að því að bíða eftir að sönnunargögnin hrannist upp svo hún fær Adam með sér til lesa í viðbrögð allra er þar vinna. Allir skammast sín fyrir eitthvað og það geta óprúttnir aðilar nýtt sér til að kúga aðra. Adam og Soffía sannfærast fljótt um að þau eiga í höggi við samviskulausan og mjög kænan einstakling.

Jónína leiðir lesandann áfram og rekur þræðina einn af öðrum þar til þeir vindast saman. Hún reiðir sig ekki endilega á að halda fólki svo spenntu að það geti vart setið kyrrt heldur mun fremur á forvitni lesandans og vakandi áhuga á að skilja og skynja hvað rekur persónurnar áfram og til að gera það sem þær gera. Í einu orði sagt stórfín bók og mjög ánægjulegt að verja tíma í að lesa hana. Að lokum er svo ekki úr vegi að hvísla því að öðrum aðdáendum Jónínu að gömul vinkona okkar stingur upp kollinum í þessari bók og setur sinn óviðjafnanlega svip á hluta sögunnar.

Ritstjórn október 29, 2023 14:00