Ef ég dey

Elín Sigrún Jónsdóttir lögmaður og eigandi fyrirtækisins BÚUM VEL skrifar.

Ég starfa sem ráðgjafi á sviði erfða- og fasteignaviðskipta og hitti því marga sem vilja koma erfða- og fjármálum sínum í góðan farveg. Samtölin hefjast oft með því að fólk segir að það vilji gjarnan fá upplýsingar um erfðamálin, vilji kanna hvað verður um eignirnar og spyr hvaða ráðstafanir unnt sé að gera „ef ég dey.“ Fyrirvarinn vekur ýmsar hugsanir. Allir vita að allir deyja og hvað merkir þetta ef? Tengist orðnotkunin hræðslu við dauðann og leiðir hræðslan til þess að fólk afli sér ekki fræðslu og þekkingar um erfða- og fjármál sín?

Það er aldrei of snemmt að skoða erfðamál og ráðstöfun eigna. Ungt fólk má gera erfðaskrá. Hið mikilvæga er að aðstæður fólks breytast og viðburðir í fjölskyldum og lífi verða til að afstaða fólks breytist. Reglur og lög um fjármál breytast einnig. Erfðamál ættu því að vera í stöðugri endurskoðun. Það er eðlilegt að erfðaskrá sé lagfærð og breytt með reglulegu millibili.

Mikilvægt er að fólk sé upplýst um fjármál sín og geri þær ráðstafanir sem það vill. Æ fleiri panta tíma til að fara yfir valkosti varðandi erfðamál. Flókin fjölskyldumynstur, möguleikar sem fjármálalöggjöf veitir og ýmis persónuleg mál hafa áhrif á kosti sem fólk vill ræða og fá yfirlit yfir. Hvað gerist ef fólk gerir enga erfðaskrá? Ég legg því áherslu á svara spurningum, fræða um möguleikana og ræða um hvernig fólk vilji að eignum þess verði ráðstafað.

Hvaða þætti vill fólk helst skoða? Hverjir eru möguleikarnir? Þau sem eiga skylduerfingja, þ.e. maka eða börn, mega ráðstafa allt að 1/3 eigna sinna með erfðaskrá. Þau sem ekki eiga skylduerfingja mega ráðstafa öllum sínum eignum með erfðaskrá. Algengustu ástæður að fólk geri erfðaskrá er að það vill tryggja rétt eftirlifandi maka til setu í óskiptu búi. Ef börn hjóna eru ekki öll sameiginleg er nauðsynlegt að fólk geri erfðaskrá. Þá er afar algengt að fólk vilji tryggja að arfur barna verði séreign þeirra í hjúskap. Loks eru margir sem vilja nýta rétt sinn til að arfleiða einstakling eða stofnun að öllum eigum sínum, eða þriðjungi eignanna ef skylduerfingjar eru til staðar. Þau sem þegar hafa gert erfðaskrá geta endurskoðað hana vegna þess hversu margt breyst í tímans rás. Þá er vert að skoða hvort erfðaskrá sé lagalega gild og rétt gerð.

Erfðaskrá á að vera lifandi skjal sem við eigum að vakta og breyta þegar þarf. Fólk ætti að skoða erfðaskrá sína að lágmarki á fimm ára fresti og spyrja sig: Er það svona sem ég vil að þetta sé – ef ég dey á morgun. Tengsl við fólk breytast og eigna- og skuldastaða getur breyst. Svo verða margar breytingar með hækkandi aldri. Ég hvet fólk til að undirrita erfðaskrá hjá lögbókanda því þá er hún vottuð af fulltrúa sýslumanns og varðveitt hjá viðkomandi embætti. Við andlát fá erfingjar tilkynningu og erfðaskrá er kynnt þeim.

Hefur löggjafinn tryggt að eignir þínar renni til þeirra sem þú vilt að erfi þig? Eða þarft þú að gera ráðstafanir og hefur þú möguleika á að gera breytingar til að svo megi verða?

Elín Sigrún Jónsdóttir október 15, 2023 07:00