Tengdar greinar

„Ég yrði mjög ósáttur. ef við næðum ekki árangri“

Sig­urður Ágúst Sig­urðsson er nýkjörinn formaður Fé­lags eldri borg­ara í Reykja­vík og nágrenni á aðal­fundi fé­lags­ins. Hann segist vera að setja sig inn í hlutina á nýjum vinnustað, enda fyrsti vinnudagurinn þegar viðtalið er tekið. Hann kvíðir þó engu, enda með víðtæka reynslu af félagsmálastörfum og úr atvinnulífinu en honum eru kjaramálin ofarlega í huga.

Sigurður er fyrr­ver­andi for­stjóri Happdrættis DAS og lét af störfum þar í júní í sumar. Hvað varð til að kveikja áhuga hans á að setjst í formannsstól í Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni?

„Ég hafði verið að spá í að ganga í þetta félag,“ segir hann. „Ég varð sjötugur í lok október á síðasta ári og nýkominn á eftirlaun. Þegar tveir aðilar komu að tali við mig og spurðu hvort ég væri til í að bjóða mig fram í formannsembætti í Félagi eldri borgara fór ég undan í flæmingi til að byrja með. Niðurstaðan var hins vegar sú að ég ákvað að slá til eftir að hafa kynnt mér starfið sem hér fer fram. Ég fór inn á heimasíðuna en þar er að finna mikinn fróðleik um félagið og starfsemina og ég sá fljótlega að ég gæti í ljósi reynslu minnar og fyrri starfa nýst félaginu.

Hér er ekki bara félagsstarf í gangi þótt það sé mjög öflugt heldur líka leigufélag og ferðaskrifstofa. Félagið hefur verið að hasla sér völl á leigumarkaði og í byggingu íbúða fyrir aldraða sem boðnar eru á eins lágum verðum og mögulegt er. Eftir að ég hafði kynnt mér ýmislegt varðandi þetta allt sá ég að ég gæti nýst félaginu.“

Þakklátur fyrir stuðninginn

Þú ert enginn nýgræðingur í félagsstörfum, er það nokkuð?

„Nei, nei, ég er búinn að koma víða við. Ég hef verið formaður handknattleiksdeildar ÍR, ég er í Oddfellow-reglunni og hef sinnt þar mörgum nefndarstörfum og meðal annars rekið húsfélag. Ég sat líka stjórn­ar­fundi Sjó­mannadags­ráðs höfuðborg­ar­svæðis­ins. Svo hef ég starfað á ýmsum stöðum, verið aðal­bók­ari Hrafn­istu­heim­il­anna og unnið sem slökkviliðs- og sjúkra­flutn­ingamaður hjá Slökkviliði Reykja­vík­ur.“

Auk alls þessa má geta þess að Sigurður Ágúst hefur setið í fjölda nefnda á vegum Dómsmálaráðuneytisins vegna starfa sinna hjá DAS. Fjór­ir sótt­ust eft­ir for­manns­stóln­um en Sig­urður Ágúst hlaut rúmlega 60% at­kvæða. Hann segist þakklátur fyrir þann mikla stuðning sem hann hlaut. En má búast við einhverjum breytingum á starfsemi félagsins undir nýjum formanni?

„Það er nú alltaf þannig að þegar kemur nýr kústur þarf að sópa en ég er með stjórn á bak við mig og geri ekkert einn og sjálfur. Ég vona að það verði þannig að þótt við komum úr ólíkum flokkum verði það ekki til að spilla fyrir heldur að við náum að vinna félaginu til heilla. Það er auðvitað markmið númer eitt, tvö og þrjú. Fyrir utan annan rekstur eru kjaramálin í brennidepli og þar erum við í samstarfi við Landssamband eldri borgara. Við höfum þar fulltrúa innanbúðar. Miðað við það sem ég hef séð hingað til eru þau baráttumál á svipuðu róli og ég sé fyrir mér nema við þurfum að stíga fastar til jarðar.

Við eigum að krefjast þess að sjá árangur af öllu því sem við höfum lagt til málanna öldruðum til velsældar. Þá á ég við að þessi mörk sem tengjast bæði Tryggingastofnun og launamálum. Ég yrði mjög ósáttur ef við náum ekki árangri þar. Ég krefst þess að stjórnvöld fari nú að hífa upp um sig brækurnar og sinna okkur. Auðvitað hafa þau gert ýmislegt en það að fólk geti ekki unnið eftir að það er komið á eftirlaun nema fyrir einhverja lága upphæð er óþolandi. Við skulum ekki gleyma því að stjórnvöld njóta góðs af lífeyriskerfinu, sem ég og þú, erum þátttakendur í. Þau hafa notað það sér til framdráttar. Það er næstum því eins og að fara ofan í vasa okkar.“

Var orðinn hundleiður á aðgerðarleysinu

Þú varðst sjötugur í fyrra og ert nýhættur að vinna. Þú hefur ekki séð fyrir þér náðuga daga og notalegt frelsi til að gera einmitt það sem þig langar til?

„Ég gerði starfslokasamning í júní og þá fór ég að vinna að þeim verkefnum sem ég hafði ýtt á undan mér,“ segir Sigurður Ágúst. „Þurfti að sinna viðhaldi á húsinu og fleira. Þegar ég var búinn að því í október fór ég að lifa eins og eftirlaunaþegi og í mínu fyrra starfi hafði ég ferðast víða. Ég var þess vegna ekki tilbúinn að rjúka í einhver ferðalög eins og margir gera svo ég gerði eiginlega ekki neitt. Þegar það hafði gengið svo í þrjá mánuði var ég orðinn hundleiður.“

Sigurður er kvæntur Guðrúnu B. Björnsdóttur læknaritara og á þrjár dætur og fjögur barnabön. Hvernig líst þér á þig hér á nýjum vinnustað?

„Bara mjög vel og ég hlakka til að takast á við krefjandi verkefni hjá félaginu,“ segir hann að lokum.

Í Félagi eldra borgara í Reykjavík og nágrenni eru sextán þúsund fé­lags­menn svo þeir eru margir sem treysta á að Sigurður Ágúst sé vökull og áræðinn í starfi. Hann minnir á að þótt það hafi þótt sjálfsagt þegar Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni var stofnað að þeir, sem fyrir aldurs sakir, væru að ljúka löngu ævistarfi, settust í helgan stein og létu aðra, sér yngri, skammta sér áhrif og lífsgæði væri þetta liðin tíð. Þegar slíkur fjöldi félagsmanna væri samankominn væri samtakamátturinn sterkur og honum megi beita í baráttu fyrir bættum kjörum og lífsgæðum eldra fólks.

Auk Sigurðar Ágúst var kjörin ný stjórn FEB. Þau eru eftirfarandi:

Til tveggja ára í aðalstjórn voru kjörin: Guðrún Ósk Jakobsdóttir, Elinóra Inga Sigurðardóttir og Kristinn Eiríksson. Þrír voru kosnir í varastjórn til eins árs en þau eru: Ragnar Árnason, Bessí Jóhannsdóttir og Jón Magnússon.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 5, 2024 07:00