Eiginmaður á eftirlaunum snýr daglegri rútínu  á hvolf

„Þegar eiginmaður fer á eftirlaun fær konan tvisvar sinnum meira af honum en einungis helminginn af tekjunum“, segir í grein á vefnum sixtyandme, en þar lýsir kona reynslu sinni af því þegar maðurinn hennar fór á eftirlaun.

Fólk hlakkar til að fara á eftirlaun og loksins er dagurinn runninn upp. „ Alveg síðan ég hætti að vinna fyrir 10 árum erum við búin að bíða eftir að eiginmaðurinn fari líka á eftirlaun.  Við erum búin að ímynda okkur allt sem við ætlum að gera saman, öll áhugamálin og allt sem okkur langar til að gera.  Nú er sá dagur kominn.  Við erum búin að koma okkur fyrir í nýja húsinu okkar og eigum nægan tíma saman…kannski of mikinn!

Rólegi morguntíminn minn er bara ekkert rólegur lengur.  Hann er búinn að vera vakandi síðan klukkan 05.  Hann er búinn að bíða eftir að geta átt í samskiptum við einhvern og röflar út í eitt um hvað hann er búinn að gera síðan hann vaknaði.  Ég er búin að stinga upp á að hann hringi í vin sem býr á austurströndinni en það lítur út fyrir að hann eigi enga vini á austurströndinni.

Rútínan út um gluggann

Af því að honum leiðist hefur hann ákveðið að það þurfi að endurmeta verkefnastöðu heimilisins.  Hann hefur yfirtekið allt sem ég hef ævinlega séð um og er ekkert að tvínóna við hlutina.  Honum finnst dagurinn minn ekki vera vel skipulagður svo hann er kominn með hvíta töflu þar sem hann er búinn að skipta verkunum á milli okkar; hans og hennar.  Hann tikkar í boxin sín á meðan mér finnst fínt að stroka mín verkefni bara út af töflunni.

Þriðjudagar eru uppáhaldsdagarnir hans, þá er ruslið sótt.  Hann fer yfir að allt sé rétt flokkað og skipar mér fyrir eins og herforingi.  Þegar þessu er lokið sest hann í hægindastólinn til að æfa sig að slaka á…í heilar 20 mínútur.

Ég reikna með því að flestar eiginkonur yrðu ánægðar með svona hjálpsamann eiginmann, auðvitað er ég mjög þakklát fyrir allt sem hann gerir.  Hann er hins vegar búinn að snúa minni rútínu á hvolf.  Við þurfum að reyna að aðlagast rútínu hvors annars.  Og við erum alls ekki þau einu.

Samkvæmt könnun hjá fólki á aldrinum 60-73ja ára sem er komið á eftirlaun, eru tveir þriðju í vandræðum með að aðlagast lífinu á þessu æviskeiði.  Erfiðast er að eiga ekki lengur í daglegum samskiptum við vinnufélaga, breytt rútína og ákveðið tilgangsleysi.

Þó það séu engin töframeðöl þá eru hérna nokkrar ábendingar:

Áhugamál

Hvort sem það er námskeið, ný íþrótt eða eitthvað sem  þig hefur alltaf langað til að gera en ekki haft tíma til.  Einbeittu þér að því hvað þú getur gert,  í stað þess sem þú getur ekki gert.

Til dæmis getur þú reynt að læra á nýtt hljóðfæri.  Samkvæmt rannsóknum æfir það allar hliðar heilans og bætir minnið.

Aðalmálið er að finna eitthvað sem þú hefur gaman af og gera það.

Gerið hluti saman sem par

Gerið eitthvað sem þið hafið bæði gaman af.  Ferðalög eru númer eitt á lista yfir það sem pör hafa gaman af að gera saman, þó Covid hafi sett strik í reikninginn hvað það varðar.  Ný áhugamál geta líka verið skemmtileg, til dæmis matreiðsla, fjallgöngur, fuglaskoðun eða garðyrkja.

Sjálfboðastörf

Þú gefur til baka til samfélagsins og skapar ný sambönd.  Rannsóknir sína að þeim sem vinna sjálfboðaliðastörf 3-4 tíma á viku líður betur en þeim sem gera það ekki.

Vertu þolinmóð

Gefðu þér aðlögunartíma. Að hætta að vinna er ekki það sama og að hoppa út í djúpu laugina, þetta er ferli og það tekur tíma.

Ég hef lært að það er gott að stefna að einhverju, hafa markið, frekar en að eyða deginum bara í eitthvað til að fylla upp í stundirnar.

Það er heill heimur þarna úti til að uppgötva, hvort sem það er heima eða í annari heimsálfu.  Njóttu frelsisins.

Spurningarnar eru:  Hvað hefur þig alltaf langað til að gera en ekki haft tíma til?  Hvert langar þig til að ferðast þegar það verður mögulegt?  Hvernig getur þú gefið tilbaka til samfélagsins?

Ögraðu sjálfum þér og skemmtu þér.

Maðurinn minn og ég erum að komast í góða rútínu.  Við eyðum tíma saman og í sitt hvoru lagi.  Það er skemmtilegra að uppgötva nýja hluti saman.  Ef ég gæti bara losnað við hvítu töfluna….

 

Ritstjórn mars 15, 2021 12:50