Ein fegursta höll heims

Villa del Balbianello er án efa ein fegursta bygging veraldar. Staðsetningin hjálpar auðvitað því húsið stendur í brekku á lítilli eyju í Como-vatni á Ítalíu. Heiður himininn speglast í ótrúlega tæra vatninu sem skógivaxnar hæðir umlykja á alla vegu. Upp yfir öllu gnæfa ítölsku alparnir. En það er ekki síður arkitektúr og ótrúlega listilega gerðar innréttingar sem heilla þann mikla fjölda ferðamanna sem heimsækja höllina á hverju ári.

Varla er hægt annað en að kalla Villa Balbianello höll, þótt byggingin virðist alls ekki stór séð frá vatninu er það blekkjandi sjónarhorn. Hún er byggð á þremur pöllum og þar er að finna bæði stóra og litla sali. Það er vinsælt að halda þar brúðkaup og aðrar veislur. Höllin stendur á litlu nesi, Lavedo, við Lake Como, þriðja stærsta vatn Ítalíu. Vatnið er klofið af öðru stærra nesi þannig að það myndar nokkurs konar Y og þeim tanga stendur bærinn Bellagio en þaðan er útsýni yfir norðurhluta vatnsins líka. Norðlægasti hluti vatnsins tilheyri Sviss og þar stendur svissneski bærinn Lugano.

Vegna þess hve heillandi Villa del Balbianello er hafa margir kvikmyndaleikstjórar kosið að nota hana sem leikmynd. Þar á meðal má nefna, A Month at the Lake eftir John Irvin, frá árinu 1995, Star Wars: Episode II – Attack of the Clones eftir George Lucas frá árinu 2002 og   Casino Royale eftir Martin Campbell frá árinu 2006.

Var í mikilli niðurníðslu

Villa del Balbianello var byggð árið 1787 á rústum klaustur Fransiskusarmunka, fyrir Angelo Maria Durini kardínála. Það var svo við andlát hans árið 1796 bróðursonur hans, Luigi Porro Lambertenghi, erfði höllina en hann seldi hana síðar Giuseppe Arconati Visconti. Hann safnaði í kringum sig hirð margra helstu fræðimanna og hugsuða Ítalíu á sínum tíma og nefna má að meðal gesta hans í höllinni voru Giovanni Berchet, Giuseppe Giusti og Alessandro Manzoni. Sonur Giuseppes, Gianmartino Arconati Visconti, endurbætti margt í höllinni og garðinum en eftir hans daga var hún að mestu yfirgefin og varð smátt og smátt ansi illa farin.

Amerískur yfirmaður í hernum, Butler Ames, kom þangað og sá strax hvílíkum möguleikum þessi bygging bjó yfir. Hann keypti hana og gerði hana upp. Hann reyndi eftir fremsta megni að halda í allt upprunalegt sem hægt var en lagði rafmagn og kom á öllum nútíma þægindum.  Árið 1974 keypti landkönnuðurinn Guido Monzino höllina og skreytti hana með mörgum minjagripum frá ferðum sínum. Hann dó án þess að eiga lögerfingja árið 1988 en arfleiddi Ítalska umhverfissjóðinn af húsinu.

Útsýnið af svölunum ótrúlegt

Í dag er Villa del Balbianello opið almenningi og ótal ferðamenn koma þangað dag hvern. Helsta aðdráttaraflið eru svalirnar eða veröndin þar sem atriðið úr Star Wars II var tekið upp. Þaðan er ótrúlegt útsýni yfir vatnið og betri bakgrunnur fyrir myndatökur hvergi að finna í heiminum þótt nokkra sambærilega megi benda á. Marmaragólfið með fallegu kompásrósinni er sömuleiðis heillandi en hún er verk Guido Monzino sem vildi minna sig á ferðalög meðan hann dvaldi heima hjá sér. Í næsta nágrenni eru svo hús George og Amal Clooney, Villa Oleandra og Villa Margherita. Hann keypti þá fyrri árið 2002 en hina 2019. Talið er að hallirnar tvær hafi ferfaldast í verði vegna þess að nú er bannað að byggja alveg niður við vatnsborðið svo þessar fjárfestingar hafa sannarlega borgað sig. Hins vegar væri sennilega ekki einu sinni á færi Geoge Clooney að kaupa Villa del Balbianello því hún þykir ekki metin til fjár.

Steingerður Steinarsdóttir blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 5, 2023 07:00