Tengdar greinar

„Land þar sem gul sítrónan grær“

Ítalía er heillandi land. Þar sameinast gömul menning, frjósöm og fögur náttúra og áhugavert mannlíf. Ef einhver hefði verið beðinn að hanna hið fullkomna túristaland er ekki nokkur vafi á að útkoman hefði orðið ansi lík landinu fagra en það einmitt gælunafn Ítalíu, bel paese. Landið skiptist í tuttugu héröð og hverju þeirra er skipt í nokkrar sýslur. Hver landshluti hefur sín sérkenni þótt ýmislegt sé sameiginlegt. Mílanó er höfuðborg Lombardía-héraðs og þar er hægt að upplifa ótrúlega margt.

Fyrst af öllu er að panta á netinu annað hvort gönguferð með leiðsögumanni sem felur í sér heimsókn í matsal munkaklaustursins við Santa Maria della Grazie-kirkjuna til að fá að skoða Síðustu kvöldmáltíðina eftir Leonardo da Vinci. Þetta er ótrúlega magnað verk og frammi fyrir því fyllist áhorfandinn andakt. Listfengi málarans er slíkt. Leonardo var hér að prófa sig áfram með aðferð sem heitir „chiaroscuro“. Orðið þýðir ljós og skuggar en hér er unnið með sterkari andstæður í litatónum sem verður til þess að dýptin verður meiri. Verkið var málað á árunum 1495-1498 og menn höfðu þá uppgötvað þrívídd í málverki en hinum megin í salnum er annað verk eftir Giovanni Donato af krossfestingunni og þar sem hann notar hefðbundnar aðferðir þess tíma verður enn skýrara hið ótrúlega líf í verki Leonardos.

Í raun er eiginlega kraftaverk að við getum enn barið þetta verk augum. Það byrjaði að flagna af veggnum nánast um leið og Leonardo gekk út úr salnum að fullunnu verki. Óhreinindi hlóðustu utan á það og á einhverjum tímapunkti máluðu munkarnir yfir það. Í seinna stríði gerðu bandamenn viðamiklar loftárásir á Mílanó, enda voru þar þýskar herbækistöðvar og stór hluti borgarinnar var lagður í rúst. Þar á  meðal þak matsalarins í klaustrinu við Santa Maria della Grazie en fyrir einhverja ótrúlega heppni stóðu útveggirnir tveir með málverkunum uppi. Þakið var endurbyggt en ákveðið að reyna ekki að mála aftur skreytingarnar í loftinu. Þær hafði Leonardo gert jafnframt Síðustu kvöldmáltíðinni. Þakið er því hvítt í dag.

Aðeins þrjátíu og fimm fá að fara inn í salinn í einu og dvelja í korter. Það gefur færi á að virkilega njóta áhrifanna. Hálfrokkið er í salnum og ljósinu beint þannig að málverkinu að birtan í því skili sér sem best. Og það gerir hún. Ég var hugfangin af henni og af því hve úthugsað hvert smáatriði í þessu áhrifamikla verki er.

Konan sem bjargaði málverkinu

Sex sinnum hafði verið reynt að gera við og endurheimta málverkið en það er ekki freska heldur málað beint á vegginn. Sumar tilraunir í þá átt gerðu meira ógagn en gagn. Það var svo árið 1977 að Pinin Brambilla Barcilon hóf vinnu við það. Hún ákvað að bæta engu við, gera ekki einu sinni tilraun til að blanda liti, eins Leonardo hafði gert og bæta í eyðurnar, þess í stað fór hún yfir vegginn millimetra fyrir millimetra og hreinsaði burtu allt sem ekki var upprunalegt. Menn geta rétt ímyndað sér hvílík vinna þetta var því Síðasta kvöldmáltíðin er 460 cm á hæð og 181 cm á breidd. En það er henni að þakka að við getum notið þessa áhrifamikla verks, eins og því var ætlað að skína þótt það sé mikið skemmt. Í þrjátíu ár vann hún sleitulaust með teyminu sínu en Pinin lést árið 2020 og er þjóðhetja á Ítalíu.

Næsta stopp ferðalanga gæti verið Castello Sforzesco. Þetta heimili Sforza-fjölskyldunnar er falleg og merkileg bygging fyrir margar sakir. Fransesco Sforza hóf byggingu hans á fimmtándu öld og byggði á grunni virkis Visconti-fjölskyldunnar en hún réði hertogadæmi Mílanó-borgar á undan honum. Næstu kynslóðir héldu áfram að bæta við en Ludovico Il Moro Sforza er án efa athyglisverðastur Sforza-karla. Sagan segir að hann hafi verið svo dökkur yfirlitum og ljótur þegar hann fæddist að móðir hans hafi gefið honum viðurnefnið Il Moro eða sá svarti. Það festist við hann en Ludovico var ekki svartur á sálina því hann gerði ótalmargt fyrir Lombardia-hérað sem fólk þar býr að enn í dag.

Hann var framsýnn og fær kaupsýslumaður, efldi mjög allan iðnað í hertogadæmi sínu, meðal annars flutti hann inn mórberjatré og hóf silkirækt. Enn vex upp úr því sem áður var kastaladíkið blómlegt og stórt mórberjatré sem sagt er síðan á dögum Ludovico. Hann var einnig mikill stuðningsamaður lista og menningar og sá sem fékk Leonardo da Vinci það verkefni að mála síðustu kvöldmáltíðina. Í kastalanum eru níu listasöfn. Eitt þeirra, Sala del Asse er herbergi ríkulega skreytt af Leonardo en þar notar hann laufskála úr kastalagarðinum sem uppstöðu í glæsilegar lauffléttur í loftið. Þar gefur einnig að líta einn hnútanna sem Leonardo kom gjarnan fyrir í verkum sínum. Listamenn máttu ekki merkja sér sín eigin verk því þau voru máluð til dýrðar aðalsmanninum sem pantaði þau því varð að finna aðrar leiðir til að koma til skila hver væri höfundurinn. Leonardo notaði gjarnan hnút sem á latínu heitir il vincolo. Hljóðlíkingin við nafn hans er augljós en hnútur þessi er einnig tákn eilífiðarinnar og nokkuð flókið að binda hann, sem höfðaði til vísinda- og stærðfræðiáhuga Leonardos.

Í miðstöð hins ljúfa lífs

Í kastalanum er einnig að finna síðasta verk Michelangelos, Rondanini Pietà. Hann hóf að vinna verkið 87 ára gamall og lést frá því ókláruðu tveimur árum síðar. Árum saman stóð styttan í garði Rondanini-hallarinnar í Róm en borgaryfirvöld í Mílanó keyptu það á sjötta áratugnum og síðan hefur það verið til sýnis í Sforza-kastalanum. Verkið sýnir Maríu guðsmóður með lík sonar síns í fanginu. Þótt enn séu andlitin ókláruð má lesa djúpa sorg úr líkamstöðunni og verkið er ótrúlega sterkt. Hugsanlega eykur það einfaldlega á áhrifin að aðeins hlutar þess eru fínpússaðir og tilbúnir. Greinlegt er að Michelangelo hefur byrjað með aðra hugmynd því til hliðar við manneskjurnar tvær er fullkominn handleggur sem tengist ekki neinu. Orðið pietà þýðir miskunn en hana er ekki finna í verki Michelangelos. Hér er sorgin allsráðandi og sú tilfinning heltekur mann frammi fyrir þessu ótrúlega verki og verður eiginlega enn sterkari vegna þess að það er óklárað.

Frá Sforza-kastala er aðeins örstutt í miðbæinn. Að dómkirkjunni glæsilegu og yfirbyggðu verslunargötunni, Galleria Vittorio Emanuele en hana má alveg kalla miðstöð hins ljúfa lífs eða la dolce vita. Þar er ævintýralega fallegt mósaíkgólf sem má una sér lengi við að skoða sem og hátískuvörur í búðunum undir hvolfþakinu og njóta frábærra veitinga á mörgum stöðum.

Höfundur Steingerður Steinarsdóttir

Ritstjórn júní 22, 2023 08:46