Eins og blaut tuska framan í alla eldri borgara

Um 70% eftirlaunafólks á Íslandi er með tekjur undir 300.000 krónum á mánuði. Kjararáð hefur úrskurðað æðstu embættismönnum launahækkanir sem gilda marga mánuði aftur í tímann, en ekki hefur verið unnt að verða við óskum Landssambands eldri borgara og Félags eldri borgara í Reykjavík um að þeir fái sínar kjarabætur um leið og aðrir.

Haukur Ingibergsson

Haukur Ingibergsson

Sýnir hve brýnt er að hækka laun eldri borgara

Haukur Ingibergsson formaður Landssambands eldri borgara segir það draga glögglega fram bága tekjustöðu eldri borgara, að um 70% hópsins hafi haft tekjur undir 300.000 krónum á mánuði á síðasta ári. „ Þetta sýnir einnig hve krafa landsfundar Landssambands eldri borgara fyrr á þessu ári um að bætur almannatrygginga hækki á sama hátt og lægstu laun í 300.000 krónur á mánuði er sanngjörn og brýn fyrir afkomu þessa hóps“ segir Haukur.

Bent á að borða grjónagraut

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður FEB í Reykjavík rifjar upp að í tíð Steingríms Hermannssonar fyrrum forsætisráðherra var fólki í einni niðursveiflunni í efnahagslífinu bent á að borða grjónagraut ef endar næðu ekki saman. „Nú rifjast þetta upp þegar kjararáð tekur sig til og hækkar Alþingismenn og fleiri embættismenn með afturvirkum hætti frá 1 mars um 9,3% „, segir hún .

Eins og blaut tuska framan í alla eldri borgara

Þórunn segir að þarna sé í gangi fullkomin blinda á samfélagið í heild og það ekki í fyrsta sinn.“ Hvaða laun eru það sem setja samfélagið á hliðna? Hvaða laun valda verðbólgu? Ekki lægstu laun það er ljóst. Þetta er eins og blaut tuska framan í alla eldri borgara þessa lands sem hafa ítrekað farið fram á að fá sínar kjarabætur frá sama tíma og almennir kjarasamningar gilda. En svarið er Nei það er ekki hægt fyrr en fjárlög hafa verið samþykkt“.

Höfum við ekkert lært um jafnræði og jafnrétti?

Þórunn segir að það verði mun auðveldara fyrir þá sem hafa fengið hærri kjarabætur að halda jól, en þá sem eftir sitja. „Kannski verður fólk að fara í grjónagrautinn hans Steingríms um jólin til að ná endum saman. Höfum við ekkert lært um jafnræði og jafnrétti milli fólks?“

 

Ritstjórn nóvember 23, 2015 15:03