Ekkert sem heitir að klæða sig miðað við aldur

Cindy Weber Cleary

Það er ekkert til sem heitir að klæða sig „miðað við aldur“ þegar konur eru komnar yfir fimmtugt segir tískuskribentinn Cindy Weber Cleary í grein á vefnum considerable.com og segir að konur eigi einfaldlega að klæðast þeim fatnaði sem þeim finnist fara sér vel.

Undir það tekur Lilja Hrönn Hauksdóttir heilshugar en hún hefur rekið tískuverslunina Cosmo í Kringlunni í rúm 30 ár. „Konur sem eru komnar yfir miðjan aldur líta oft alveg frábærlega út.  Margar þeirra lifa  heilbrigðu lífi og útlitið endurspeglar það. Þær geta því klætt sig í þau föt sem þær langar og líður vel í,“ segir Lilja Hrönn og bætir við að ef að konur klæðist fatnaði sem þeim líður vel í  og þeim finnist að klæði þær vel þá geisli þær. Cleary segir að þegar konur velja sér ný föt segir hún að þær eigi að taka gæði fram yfir magn. Kaupa fáar velsniðnar klassískar flíkur úr góðum efnum. Í öðru lagi eigi konur að taka til í skápnum hjá sér. Konur sem komnar eru á miðjan aldur eigi oftar en ekki yfirfulla fataskápa. Þetta séu föt sem þær hafi eignast gegnum árin. Mikið af þeim passi þeim ekki lengur eða lífsstíl þeirra. Sum séu orðin of lítil önnur séu orðin gamaldags og svo framvegis. Takið allar flíkurnar fram skoðið þær og setjið til hliðar þær sem passa ekki lengur, segir hún.

Lilja Hrönn Hauksdóttir

Lilja Hrönn segir til dæmis að allar konur séu fínar í góðum gallabuxum, blazer, hvítri skyrtu eða fallegum topp það sé tímalaus fatnaður. Sjálf segist hún hafa það sem reglu að taka reglulega til í fataskápunum hjá sér og losa sig við fatnað sem hún hafi ekki notað í tvö ár. „Ég losa mig við allt það sem ég nota ekki nema það sem er tímalaust og ég get notað aftur og aftur. Flestar konur hafa gaman að því að kaup sér eitthvað sem er í tísku á ákveðnum tímabilum, einhverja ákveðna liti og svo framvegis svo fáum við leið á þessum flíkum og þá eigum við að losa okkur við þær í staðinn fyrir að láta þær rykfalla inn í skáp. Við eigum hins vegar að halda í klassíksu fötin okkar.“

Ritstjórn nóvember 15, 2018 09:18