Ekki til góðs að afskrifa fólk eftir fæðingarári 

Steinunn Sigurðardóttir skáld hefur um meira en tveggja áratuga skeið búið í tveimur löndum, Íslandi og Frakklandi. Þetta eru ekki einu löndin sem hún hefur kynnst í gegnum búsetu því hún lærði í Dublin á Írlandi og bjó einnig í Berlín um tíma. Steinunn er þess vegna sannkallaður heimsborgari en nýjasta bókin hennar, BÓL, fjallar öðrum þræði um hvernig fólk tengist stöðum, fær ást á landslaginu, hrauni, þúfum og gróðri.

Þessu lýsir Alexander McCall Smith mjög vel í fyrstu bók sinni um Mma Ramotswe. Þar segir: „…hver maður varðveitir í hjarta sínu kort af eigin landi og hjartað leyfir honum aldrei að gleyma því korti.“ Stephan G. Stephansson orðaði svo auðvitað alveg sömu hugsun í „Þótt þú langförull legðir sérhvert land undir fót, bera hugur og hjarta samt þíns heimalands mót.“ Söguhetja þín í BÓL, LínLín fer í sumarbústað fjölskyldu sinnar til að næra andann. Um hvað ertu að fjalla í þessari nýju bók og hvaða hlutverk leikur landslag eða landið í henni?

„Ofurástir, leyndarmál og missir eru meðal viðfangsefna. Í upphafi stendur söguhetjan LínLín frammi fyrir enn einum missi. Af nýrri og algjörlega óvæntri sort. Hún bregst við með því að taka ákvörðun sem á ekki sinn líka,“ segir Steinunn. „Einn rauður þráður í BÓL eru tengslin við foreldra. LínLín átti dásamlega foreldra, mikla persónuleika, sem voru algjörlega hvort með sínu móti. Sveitafólk, mamman úr Aðaldal, pabbinn að sunnan. Sagan er að hluta rannsókn á þessum sterku tengslum, mótandi áhrifunum, en LínLín er einbirni, sem gerir þessi tengsl enn nánari, meira yfirþyrmandi.

Og leyndarmál foreldris hefur mikil áhrif á líf LínLín, ekki að öllu leyti útskýranleg. LínLín er hafnað í ástum af Hansa, menntaskóla-ástinni sinni og það er sama hvað hún er sterk og grjótmögnuð, spurningin blífur, hvernig þoldi hún þetta, að hvað miklu leyti stóð þessi höfnum henni fyrir þrifum í lífinu.

Foreldrar LínLín voru náttúrubörn, hún tekur það í arf, eins og sælureitinn sem þau byggðu upp og ræktuðu, Sæluból. Kallað gælunafninu BÓL. Landið og náttúran leikur stórt hlutverk í sögunni, og margbreytilegt, rómantískt, háskalegt, ófyrirsjáanlegt, óprúttið. Eins og Ísland er í verunni.“

Þessa mynd kallar Steinunn, Vegavinnukonan. Hún er tekin þegar handritið að BÓL var sent á Forlagið af þjóðveginum í Suður-Frakklandi.

Skrifar á hverjum degi 

Nú er mjög mismunandi hvernig höfundar skrifa. Sumir skrifa í einni lotu meðan aðrir eru með mörg verkefni í gangi í einu og grípa í þau eftir aðstæðum. Hver er þín aðferð?

„Ég er í fyrsta lagi meðal þeirra tiltölulega fáu höfunda sem skrifa á hverjum einasta degi. Þannig kría ég mér út alveg samfelldan tíma, sem er sérstaklega mikilvægur þegar að skáldsögu kemur. Það er að segja nauðsyn, frá mínum bæjardyrum. Ég er alltaf með mallandi langtímaverk. Til dæmis eru ræturnar á BÓL fimm ára djúpar. Grunnhugmynd komin og þó nokkuð af efninu. Þá skildist ég við söguna, mig vantaði meiri fjarlægð, enn meiri lífsreynslu og þroska, til að ljúka verkinu. Þannig finnst mér ég alltaf vinna á mörkum míns þroska sem manneskju, sem höfundar. Að ég gæti þá eftir þrjú ár skilað verki, sem ég dygði ekki til að gera í dag.

Ég er semsagt alls ekki skorpumanneskja, heldur vinn jafnt og þétt.  Skorpan gæti aldrei dugað mér, þar sem ég vinn hægt. En meðfram öllu sem ég geri þá yrki ég ljóð. Ég byrjaði sem ljóðskáld, skrifaði fátt annað fyrstu tíu árin. Ég er hamingjusamt ljóðskáld. En þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur, og ég nýt þess að kveljast yfir skáldsögu, semja hana með aðferðum ljóðskálds, sem er kleppsvinna.  Og sérstaklega nýt ég þess að læsa að mér í sjaldgæfu íslensku góðviðri og fara ekki út fyrir hússins dyr þegar skáldsagan á leikinn.“

Auðgandi lífsreynsla að umgangast kvenhetjur

Steinunn var aðeins nítján ára þegar hún sendi frá sér fyrstu ljóðabókina. Þá var hún í námi við háskólann í Dublin en þaðan lauk hún BA-prófi í sálfræði og heimspeki. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun fyrir verk sín meðal annarS Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1995 fyrir Hjartastað og verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, einnig hlaut hún þá sjaldgæfu upphefð að verða heiðursdoktor við Háskóla Íslands árið 2022. Þú ert ákaflega afkastamikill höfundur og hefur fengist við fjölbreytt verkefni, ljóðagerð, skáldsagnaskrif, þýðingar, smásagnagerð, barnabækur og sannsögur, það fallega orð sem þú hefur valið yfir sögur lifandi persóna. Finnst þér jafnskemmtilegt að fást við þetta allt eða er eitthvað erfiðara en annað?

„Skáldsagan er spursmálslaust erfiðust, út af orðafjöldanum og háu flækjustigi, sérstaklega eins og ég geri hlutina. Safna gjarnan efni og ritstýri því svo. Það er af og frá að ég skrifi frá blaðsíðu eitt til loka í réttri röð. Það sem mér finnst á sinn hátt skemmtilegast er að yrkja ljóð, og svo að skrifa samtöl. Ég neitaði mér lengi vel um að hafa samtöl í skáldsögunum, af því mér fannst þetta of auðvelt, og þá nánast varhugavert,“ segir hún. „Ég vildi gjarnan stunda þýðingar í meira mæli, en ég hef svo lítið pláss meðfram. En ég tók það fyrir að þýða ljóð þegar heilsan var á tímabili farin að stríða mér svo alvarlega að ég hafði ekki skrifþrek frá eigin brjósti.

Sannsögurnar tvær sem ég hef samið, um Vigdísi Finnbogadóttur meðan hún var í embætti, og svo um Heiðu bónda á Ljótarstöðum, eru alveg sér á parti. Í báðum tilvikum var það mjög auðgandi lífsreynsla að umgangast þessar kvenhetjur og kynnast þeim betur, og fyrir það verð ég ævinlega þakklát. Hugmyndin að báðum bókum kemur frá hjartanu, eins og allar mínar hugmyndir. Aldrei neitt sem agenda heitir. Ég get samið svona bækur af því að ég vann lengi á fréttastofu útvarps og hef tekið ótal viðtöl gegnum tíðina, fyrir prentmiðla, en sérstaklega fyrir útvarp og sjónvarp.

Það hins vegar að vera með lifandi söguhetju milli handanna er óheyrilega stressandi þegar að úrvinnslu kemur.  Ég ber ábyrgð á því að misstíga mig ekki þannig að það skaði þær.  Þetta er semsagt allt önnur sort af ábyrgð en að vera með söguhetju sem er tilbúningur, og í mínu tilfelli alltaf algjör tilbúningur. Ég nota ekki fyrirmyndir eins og mörg starfssystkini mín gera.

Fyrir utan þessa miklu ábyrgð og stress við að semja sannsögu þá er það sérstök sort af grjótvinnu að sortera viðtöl og splæsa þau saman. Ég get ekki logið því að það sé skemmtileg handavinna. “

Hefur búið víða um heim

Þú hefur búið um árabil í tveimur löndum, Frakklandi og á Íslandi. Hvernig líkar þér sá lífsstíll?

„Við bjuggum líka í Berlín í átta ár. Og svo á þremur stöðum í Frakklandi, París, Suður-Frakklandi og nú í Senlis, smábæ fyrir norðan París. Meðfram héldum við alltaf húsinu okkar á Selfossi, og tókst með tilfæringum að stunda þennan tveggja landa lífsstíl. Þetta finnst okkur báðum, Þorsteini Haukssyni tónskáldi vera einstaklega gefandi. Vinnan okkar er þannig að við getum stundað hana hvar sem er. Það var snúnara áður fyrr hjá Þorsteini, en núna þegar tölvurnar hafa skroppið svona saman, þá erum við enn frjálsari. Verkin okkar Þorsteins nærast af því að valsa milli þessara tveggja heima, og sálartetrið líka almennt.

Það er auðvitað smákleppur í því fyrir tvo listamenn að flytja með sitt vinnudót og hafurtask í fleira en eitt og tvö skipti, milli landa og landshluta, en við sjáum ekki eftir neinu og teljum okkur hafa stórgrætt á því í lífsgæðum og vinnugæðum hvernig við höfum hagað þessu. Tilviljanir hafa ráðið miklu um búsetustaði, og núna búum við í bæ sem er hreinn draumur, að fegurð og þægilegheitum.

Svo hefur það reynst nánast alls staðar sem við höfum búið nógu sniðugt, að umhverfi staðarins hefur reynst algjörlega frábær viðbót. Þannig kom það okkur mjög á óvart í Berlín hvað skógar og vatnalandið í kring er lokkandi. Þegar Berlín sjálf er nú svona heldur ruskuleg, þótt heillandi sé á sinn hátt. Ég tekst alveg á loft þegar ég kem aftur til þessarar gömlu heimaborgar, og á þar mörg uppáhaldshorn – en ég vildi ekki endilega deyja þar.

Í Strassborg komumst við að því að það besta við borgina er Svartiskógur í Þýskalandi, klukkutíma keyrsla, eitthvert mesta draumaland fyrir yndisfegurð og gestrisni og matgæði sem hægt er að hugsa sér. Og svo nálægðin við Sviss og Þýskaland með skemmtiborgunum Basel og Freiburg.

Hér erum við í draumabænum Senlis, París í seilingarfjarlægð, og allt í kring er gósen, skógar, sögufrægar byggingar og söfn, svo bara Chantilly höllin sé nefnd.

En ég sæi það ekki vel fyrir mér að eiga ekki samastað á Íslandi. Við eigum dásemdarhús á Selfossi sem okkur hefur tekist að halda í með mikilli vinnu og útsjónarsemi, ferðamannaleigu með meiru. Það er alltaf sérstök tilhlökkun að koma til Íslands, hitta vinina og njóta landsins. Nú erum við tiltölulega nýkomin til Frakklands eftir mjög annasama sumardvöl á Íslandi, þar sem BÓL tók yfir, og svo óvæntar viðgerðir á húsinu okkar. Svo við njótum haustblíðunnar óvenjulegu í Frakklandi, tökum því hálfri gráðu rólegar en við erum vön. Bara nokkuð ánægð með okkur.“

Fíkill í íslenskt lambakjöt

Saknar þú einhvers frá Íslandi þegar þú ert í Frakklandi og öfugt?

„Í Frakklandi sakna ég þess að gamlir góðir vinir eru fjarri, það verður ansi skerandi þegar við erum meira en hálfu árin samfellt í burtu frá Íslandi. Á Íslandi finn ég til dæmis fyrir kulda og roki og dýrtíð og fyrir því að mataræðið er miku fábreyttara en í Frakklandi. Og ég á erfiðara með að finna vel ferskan fisk á Íslandi en í bænum okkar í Frans, hvort sem það er úr fiskbúðinni eða á veitingastað. Þá er lífrænt ræktað grænmeti miklu aðgengilegra en á Íslandi. En þegar ég er á Íslandi kaupi ég aðeins íslenskt grænmeti, sem mér skilst að sé yfirleitt lítið mengað af skordýraeitri. Mér finnst sérlega gott að vera á Íslandi þegar grænmetis- og kartöfluuppskeran fer að koma, og sætti mig í rauninni ágætlega við að lifa á fiski og kartöflum.

En hér er svo ein játning, ég er fíkill á íslenskt lambakjöt, það er eina kjötið sem ég legg mér til munns, og ég sakna þess að geta ekki farið út í búð hér í Frans og keypt hálfan hrygg sem ég er svo í nokkra daga að borða – ein um hituna því Þorsteinn minn er grænmetisæta. Eina úrvalsafurð tek ég með mér til Frakklands, það er lífræna byggið frá Vallanesi. Og bráðum fer ég að gera það sama við haframjölið frá Sandhóli í Meðallandi, heimsins besta haframjöl. Mér er það hulin ráðgáta hvers vegna ekki hefur verið gert stærra átak í því að hvetja til innlendrar ræktunar, á grænmeti og korni. Það er lífsgæðamál, lýðheilsumál, loftslagmál, sjálfbærnimál. Að það eigi að þrýsta öllu bændaliðinu út í að fara að búa um ferðamannarúm, þvílík firra, og ferðamennskan er nokkuð sem getur hrunið á einum degi. Eldgos, til dæmis.“

Ungt fólk heldur stundum að sköpunargáfan dofni með aldrinum og ekki við miklum afrekum að búast af eftir fertugt. Hvað finnst þér? Er hugmyndauðgin og starfsgleðin söm við sig eða á einhvern hátt breytt?

„Ég er skíthrædd um að ekki bara yngra fólk glími við aldursfordóma hvar sem á er litið, heldur líka fólk á öllum aldri. Ég er að gera nákvæmlega sömu hluti núna og ég hef alltaf gert. Afköstin hafa aukist á síðustu árum, ef eitthvað er, og ef marka má viðtökur eru gæðin og hugmyndauðgin ekki að minnka.  Ég hef núna heyrt úr fleiri en einni átt að BÓL sé hugsanlega besta skáldsagan mín. Það er ekki bara ósiðlegt að afskrifa fólk almennt, og listamenn eða kannski listakonur sérstaklega, eftir fæðingarári, það gerir líka mjög mikið ógagn því þeir sem eldri eru búa yfir endurnýjuðum hæfileikum og ómetanlegri reynslu sem yngra fólk hefur einfaldlega ekki.“

Þegar viðtalið er tekið er Steinunn í Senlis en í gegnum þann bæ leiddi Jóhanna af Örk franskar hersveitir árið 1429 Montépilloy þar sem háð var söguleg orrusta. Hún sækir sér auðheyranlega innblástur í umhverfið hvar sem hún og nærir sköpunargáfuna.

Ritstjórn október 27, 2023 07:00