Eldra fólk trúir frekar falsfréttum en þeir sem yngri eru

Það  er mikið af fréttum og sögum á Fésbók og öðrum samfélagsmiðlum.  Flestar sögurnar og fréttirnar eru sem betur fer sannar en aðrar eru falsfréttir og oft getur verið erfitt að greina á milli.  Samkvæmt nýlegri bandarískri rannsókn sem greint var frá í dönskum fjölmiðlum eru þeir sem orðnir eru 60 ára og eldri mun líklegri til að trúa falsfréttum og deila þeim en þeir sem yngri eru. Það getur hins vegar hent alla að trúa röngum fréttum og sögum og dreifa þeim á netinu. Ástæðan er einfaldlega sú að falsfréttirnar eru oft svo vel fram settar að það getur reynst erfitt við fyrstu sýn að sjá að þær séu rangar. Á danska vefnum Ældre Sagen segir að fólk ætti að vera gagnrýnið á allt sem það les á vefnum. Ef fréttin hljómi undarlega eða ólíklega þá sé hún líklega röng. Fólki er líka bent á að skoða hver sé að birta fréttina. Hvaðan kemur hún, er hún á vef fjölmiðils sem viðkomandi þekkir eins og t.d Mbl.is, Visir.is eða Rúv.is. Eða birtist hún á vef sem þú hefur aldrei heyrt um áður til dæmis einkavefsetri einhvers eða bloggi. Þá ætti fólk að skoða hvort að aðrir fjölmiðlar hafi skrifað um sama mál, ef þú finnur fréttina eða söguna einungis á einum stað á netinu séu allar líkur á að hún sé fölsuð.  Ef fólk er í vafa ætti það að sleppa því að deila sögunni eða fréttinni.

Margir eiga erfitt með trúa því að verið sé að deila röngum fréttum á netinu.  En það eru einkum tvær ástæður fyrir því. Annars vegar peningalegir hagsmunir til að mynda að reyna að tæla viðkomandi inn á vefsíður og til að klikka á auglýsingar. Eða til að breiða út rangar upplýsingar um mál eða atburði til að hafa áhrif á afstöðu viðkomandi  til málefna líðandi stundar, stjórnmálaflokka eða hagsmunasamtaka.

Ritstjórn júlí 16, 2019 07:36