Vont þegar hætt var að gefa út símaskrá

Visir.is fjallar um kostnað fólks við að hringja í númerin 1818 og 1819 til að fá upplýsingar um símanúmer. Þar er rætt við Þórunni Sveinbjörnsdóttir, formann Landssambands eldri borgara, sem kannast ekki við að hafa fengið erindi á sitt borð vegna svimandi hárra símreikninga. En  segir að það sé reyndar erfitt fyrir marga eldri borgara að fylgjast með því vegna þess að reikningar eru sendir út í rafrænu formi. Og þar stendur hnífurinn í kúnni. Síðan segir orðrétt í Vísi

„Það var mjög alvarlegt fyrir eldri borgara þegar hætt var að gefa símaskrá út sem bók. Eldri borgarar eru ekki nógu duglegir að fara á netið og já.is,“ segir Þórunn. Og bendir á að margir þeirra sem eldri séu duglegir að leita á náðir fjölskyldu: Fá þá sem yngri eru til að slá þessu upp fyrir sig. „Við erum dugleg að hjálpa hvert öðru í fjölskyldunum. Er þarna er ákveðið gat og elsta fólkið er einangrað að þessu leyti.“

Skortir á tölvulæsi meðal eldri borgara
Hún segir þetta atriði, með símaskrá, svo tengjast stærri vanda sem snýr að tölvulæsi og netnotkun almennt. Þar hafa eldri borgarar verið skildir eftir.

„Hluti eldri borgara er ekki með tölvu eða aðgengi að slíku. Það er verið að fylgjast með þessum vanda á öllum Norðurlöndunum. Danir hafa verið hvað duglegastir við að koma á fót námskeiðum fyrir eldri borgara að auka tölvulæsi þeirra. Þetta er í býgerð hjá okkur að auka þetta líka. Og er nú þegar byrjað hjá félaginu í reykjavík og nokkrum öðrum.“

Þórunn bendir á sem dæmi að það fari fyrir brjóst margra þeirra sem eldri eru þegar til að mynda er sagt í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins að meira sé um málið að finna á ruv.is. „Ekki ná allir að fara þá leið. Það hafa ekkert allir aðgang að þessu.“

Ritstjórn desember 6, 2017 19:39