Tengdar greinar

Eldra fólki með fjárhagsáhyggjur fer fjölgandi

Eldra fólki sem hefur fjárhagsáhyggjur fer fjölgandi. Í glænýrri könnun á högum aldraðra sagðist þriðjungur 67 ára og eldri hafa stundum eða oft hafa áhyggjur af fjárhag sínum. Í sambærilegri könnun sem gerð var 2012 sagðist fjórðungur þátttakenda hafa áhyggjur af fjárhag sínum og í könnun frá 2006 var hlutfallið enn lægra eða 22 prósent. Fjárhagsáhyggjur voru í beinu sambandi við aldur, því eldri því færri höfðu áhyggjur. Einnig höfðu þeir heilsuminni mun oftar áhyggjur en þeir sem voru við góða heilsu, en 44% þeirra sem mátu heilsufar sitt mjög eða frekar slæmt höfðu stundum eða oft fjárhagsáhyggjur samanborið við 21% þeirra sem töldu heilsufar sitt mjög gott.

Ráðstöfunartekjur einstaklinga voru að jafnaði 258 þúsund krónur á mánuði og tekjur kvenna 24% lægri en ráðstöfunartekjur karla. Meðalráðstöfunartekjur heimila aldraðra voru 404 þúsund krónur á mánuði og voru ráðstöfunartekjur heimila kvenna töluvert lægri. Ráðstöfunartekjur heimila voru að jafnaði lægri eftir því sem fólk var eldra, sem skýrist væntanlega meðal annars af því að þeir búa í meira mæli einir. Nokkuð misræmi var á milli þeirra ráðstöfunartekna sem fólk hafði og hve háar tekjur það taldi sig þurfa. Til að mynda töldu 84% þeirra sem höfðu 200 þúsund eða minna í ráðstöfunartekjur á mánuði að þau þyrftu hærri tekjur en þau hafa úr að spila, en sama gilti um 40% þeirra sem voru með ráðstöfunartekjur á bilinu 201-300 þúsund á mánuði. Athygli vekur að tekjuþörf er minni með hærri aldri.

Einungis lítill hópur aldraðra hefur einhvern tíma á síðustu 5 árum frestað því að fara til læknis eða kaupa lyf af fjárhagsástæðum. Stærsti hópurinn sem hefur frestað því að kaupa lyf eða fara til læknis er ógiftur og sá sem vill stunda launaða vinnu. Þetta er í samræmi við niðurstöður um fjárhagsáhyggjur, en þessir hópar hafa í meira mæli áhyggjur af fjárhag en aðrir hópar aldraðra.

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann könnunina fyrir Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytið og Landssamband eldri borgara. Tekið var 1800 manna tilviljunarúrtak 67 ára og eldri úr Þjóðskrá. Gagnaöflun hófst 4. nóvember og lauk 20. desember 2016. Alls svöruðu 1028 könnuninni og er brúttó svarhlutfall því 57%. Ef tekið er tillit til brottfalls, eða þeirra sem ekki barst könnunin í tölvupósti, þá er nettó svarhlutfall 59%. Í könnuninni voru hagir og líðan aldraðra á Íslandi kannaðir. Þátttakendur voru meðal annars spurðir um almennt heilbrigði, viðhorf til heilbrigðisþjónustu, aðstoð sem þeir nýta sér, félagslega virkni og fleira.

Hér er hægt að nálgast könnunina í heild.

 

 

 

Ritstjórn febrúar 14, 2017 11:21