Eldri aldurshópar æ betur tengdir

Um 95% íbúa landsins teljast til reglulegra netnotenda og er það hæsta hlutfall í Evrópu, en reglulegir netnotendur í löndum Evrópusambandsins eru 72%. Þessar upplýsingar koma fram á vef Hagstofu Íslands og jafnframt að árið 2013 hafi ríflega 81% eldri borgara, 65 – 74 ára, notað netið daglega eða næstum daglega. Þótt hlutfall netnotenda í þessum hópi sé býsna hátt, reka þeir ennþá lestina því á sama tíma voru 94% netnotendur á aldrinum 16 – 64 ára.

Úrtakið var 2.100 manns, jafn margir og í könnunum, sem Hagstofa Íslands hefur gert árlega frá árinu 2003, en það ár fóru 47% á aldrinum 65 – 74 ára á netið daglega og 72% á aldrinum 25 – 34 ára, sem þá var stærsti hópur netnotenda. Miðað við árið 2013 var netnotkun karla ívið meiri en kvenna í elsta aldurshópnum. Í þeim hópi voru um 3% fleiri netnotendur á höfuðborgarsvæðinu heldur en á landsbyggðinni.

Engar upplýsingar um netnotkun 75 ára og eldri á Íslandi

Eldri borgarar í Bandaríkjunum, 65 – 74 ára, eru svolitlir eftirbátar jafnaldra sinna á Íslandi miðað við könnun, sem Pew rannsóknarmiðstöðin gerði um miðbik ársins 2013, en þar fór 71% (6% fleiri en árið áður) þeirra á netið. Hins vegar lækkaði hlutfall eldri netnotenda þar vestra þegar eldri en 74 ára voru teknir með í reikninginn, þ.e. 65 ára til 80+, eins og Pew rannsóknin gerði, en þá fór það niður í 59%.

Engar upplýsingar eru til hjá Hagstofu Íslands um netnotkun 75 ára og eldri á Íslandi. Miðað við að síðasta áratuginn hefur hópurinn 65 – 74 ára sífellt verið að sækja í sig veðrið, væri þó áhugavert að skoða þróun netnotkunar 75 ára og eldri næstu tíu árin eða svo.

Úrtakið í Pew könnuninni var 6.224 manns eldri en 16 ára. Eins og kannski við var að búast leiddi könnunin í ljós að því eldra sem fólkið var þeim mun minna var það á ferðinni í netheimum. Tveir af fimm báru við bágu heilsufari, sögðust eiga erfitt með að lesa, væru fatlaðir eða þjáðust af krónískum sjúkdómum, sem háðu þeim við daglegar athafnir. Átta af hverjum tíu eldri netnotendum voru sammála fullyrðingunni „fólk án nettengingar er miklu verr sett vegna allra upplýsinganna, sem það fer á mis við“ og langflestir samsinntu því að „með netinu væri mikill munur á aðgengi að upplýsingum miðað við áður fyrr.“

Snjallsímar og samfélagsmiðlar

Samkvæmt Hagtíðindum tengdist helmingur notenda netinu á farsímum eða snjallsímum og þar af tóku 72% myndir á síma sína til að hlaða beint á netið. Af þeim tæpu 87% í aldurshópnum 55 – 74 ára, sem voru nettengdir, tengdust um 18% netinu í farsíma eða snallsíma og rúmlega helmingur þeirra tók myndir og hlóð á netið. Í könnun Hagstofu Íslands kom ennfremur í ljós að 67% netnotenda höfðu birt skilaboð á samfélagsmiðlum, en það hlutfall var 52% í löndum Evrópusambandsins. Notendur samfélagsmiðla á Íslandi voru ekki flokkaðir eftir aldri, öfugt við í Pew könnuninni, sem leiddi í ljós að 47% bandarískra netnotenda 65 ára og eldri notuðu samfélagsmiðla á borð við Facebook – sem jafngildir 27% eldri kynslóðarinnar þar í landi.

 

 

 

 

 

Ritstjórn júlí 25, 2014 10:00