„Eldra fólk úr Reykjavík og Kópavogi flytur á Selfoss, selur eignirnar sínar á höfuðborgarsvæðinu, kaupir íbúðir á Selfossi og fær peninga í milli“, segir Sigríður J. Guðmundsdóttir formaður Félags eldri borgara á Selfossi í samtali við Lifðu núna. Hún segir heilu hverfin í byggingu á Selfossi, blokkir og raðhús, Margir hafi flutt þangað frá höfuðborgarsvæðinu en líka úr sveitunum á Suðurlandi. „Menn hafa sest hér að og sumir sækja um í Félaginu hérna hjá okkur. Ein kona seldi tveggja herbergja íbúð í Kópavogi, keypti nýtt raðhús hér og fékk peninga á milli“.
35% fjölgun sextugra og eldri
Árið 2011 fyrir sjö árum, voru íbúar á Selfossi sextugir og eldri 1130, en eru núna 1533. Þetta er 35,6% fjölgun fólks á þessum aldri. Sigríður Guðmundsdóttir segir að margir eldri borgarar sem flytji á Selfoss séu sestir í helgan stein og farnir að sinna áhugamálum sínum. Selfoss sé þjónustubær fyrir Suðurland og þar bíði eldri borgara nokkuð góð þjónusta. „Það er í raun allt hér sem fólk þarfnast, en menn þurfa að bera sig eftir þjónustunni, það er ekki farið heim til fólks. Við höfum auglýst í Dagskránni undir fyrirsögninni „Kæri þú, sem ert 60 ára á árinu“ og bjóðum það fólk velkomið til að starfa með eldri borgurum. Það mætir svo á kynningarfund haustsins til að fræðast um það sem er í gangi“, segir hún.
Selfyssingar fagna nýbúum
Sigríður segir að sundlaugin í bænum sé ofsalega góð og þar sé boðið uppá vatnsleikfimi, einnig sé World Class á efri hæð hússins sem bjóði upp á prógram fyrir eldri borgara. Sumir séu að æfa sig fyrir að taka þátt í stórum keppnum og hafi þá prógramm með sér í laugina. Það sé leikfélag í bænum, kór eldri borgara -Hörpukórinn, gönguferðir út fyrir bæinn þar sem ekið er á staðinn með rútu frá og í boði Guðmundar Tyrfingssonar sem fylgir fólkinu. Á Selfossi sé margskonar annar félagsskapur sem hægt sé að vera í. „Fólk hefur haft á orði að Selfyssingar taki vel á móti fólki, nýbúum sé fagnað, en eins og ég sagði fólk þarf líka að sýna sig“, ítrekar hún. Aðstaðan fyrir eldri borgara á Selfossi er til fyrirmyndar og nú er þar í byggingu ný aðstaða fyrir Félag eldri borgara, stór leikfimisalur og rúmgóð félagsaðstaða, en þar er hægt að opna á milli og fá stærra rými ef á þarf að halda.
Ætlaði einungis að vera í ár
Sigríður sem er uppalin í vesturbænum í Reykjavík og vesturbænum í Kópavogi, flutti á Selfoss árið 1965 ásamt eiginmanni og tveimur börnum, en þá voru foreldrar hennar fluttir þangað ásamt yngri systkinum. Pabbi hennar var þá forstjóri fyrir fangelsinu á Litla Hrauni og fékk hana til að flytja á Selfoss. Þá bjuggu um 1300 manns í bænum, sem þá var þorp. Síðan hefur Sigríður búið á Selfossi þó hún hafi í upphafi einungis ætlað að vera þar í eitt ár. Hún hefur verið formaður Félags eldri borgara undanfarin 5 ár og á einnig sæti í stjórn Landssambands eldri borgara. Hún segir réttlætismál eins og lífeyrissjóðsmálin, og skerðingarnar og allar tekjutengingar helst brenna á fólki í félaginu á Selfossi.