Tengdar greinar

Eldum rétt, fjölskyldufyrirtæki sem tók flugið

Saga Eldum rétt fyrirtækisins er farsæl og er nokkuð dæmigerð í sögu íslenskra fyrirtækja þar sem kemur saman dugnaður og þekking og öll skref varlega tekin. Sú blanda er vænleg til árangurs enda hefur fyrirtækið vaxið á 9 árum í að verða öflugast á sínu sviði og sér ekki fyrir endann á þeim vexti.

,,Þetta byrjaði allt með því að maðurinn minn sat kúrs uppi í Háskóla þar sem hann var að læra verkfræði og þar var áfangi sem hét Nýsköpun og vöruþróun,“ segir Hrafnhildur Hermannsdóttir en eiginmaður hennar er Kristófer Leifsson. ,,Hann var í hópavinnu í þessum áfanga og þar kviknaði hugmyndin að svona matarpakkafyrirtæki. Hugmyndin er reyndar fengin frá Svíþjóð þar sem slíkt fyrirtæki hafði verið rekið í nokkurn tíma svo viðskiptamódelið var til. Kristófer heillaðist strax af hugmyndinni og svo vorum við í matarboði hjá foreldrum mínum 2013 þar sem fjölskyldan var öll saman komin. Krifstófer fór þá að segja frá þessu verkefni. Þar sat Valur bróðir minn við borðið en hann er dæmigerður frumkvöðull og framtakssamur ,,bissnesskall“,“ segir Hrafnhildur og brosir. Þarna var því komið saman hugvit og framtakssemi sem þurfti til að svona dæmi gæti gengið upp.

,,Úr varð að þeir kýldu á þessa hugmynd og ég er búin að vera á hliðarlínunni frá upphafi,“ segir Hrafnhildur en hún er hjúkrunarfræðingur að mennt og kom í fulla vinnu hjá Eldum rétt 2017. ,,Það var því sumarið 2013 að við tókum húsnæði á leigu við Nýbýlaveginn og hófumst handa við að standsetja það og Kristófer hannaði heimasíðuna frá grunni,. Fyrsti matarpakkinn fór frá okkur í janúar 2014. Til að byrja með snerist vinnan fyrst og fremst um að aðlaga viðskiptamódelið að íslenskum aðstæðum og samfélagi,“ segir Hrafnhildur.

Samfélagið tilbúið fyrir þessa viðbót

Hrafnhildur viðurkennir að auðvitað sé þessi vinna búin að vera rosalega mikil eins og stofnun fyrirtækis sé alltaf en líka skemmtileg því fyrirtækinu hafi verið mjög vel tekið frá upphafi. Samfélagið hafi augljóslega verið tilbúið fyrir slíka viðbót á markaðinn. ,,Viðlíka hugmynd kviknaði augljóslega á sama tíma víða annars staðar og það var mjög gaman að fylgjast með því hvernig hún var framkvæmd t.d. í Bandaríkjunum því sá markaður er svo stór og mikill. Það var mjög lærdómsríkt að fylgjast með því hvernig þeir fóru að í verðstríði sem þeir lentu í og af því gátum við lært mikið,“ segir Hrafnhildur en fyrirtæki þeirra er nú leiðandi á íslenskum markaði en tvö önnur fyrirtæki hafa mátað sig við hugmyndina.

Starfsmenn Eldum rétt eru nú rétt undir 50 manns og unnið er á vöktum. Nú afgreiðir fyrirtækið um 3000 pakka á viku og hefur nú  sprengt húsnæðið og hefur tekið á leigu húsnæðið við hliðina. Svo draumar þeirra um að geta gert enn betri og fjölbreyttari matarpakka eru að rætast.

Snorri og Helga áður en hún sneri sér alfarið að list sinni.

Maðurinn á bak við uppskriftirnar

Maðurinn á bak við uppskriftirnar heitir Snorri Guðmundsson en hann er yfirmaður vöruþróunar Eldum rétt. Snorri er ástríðumaður um matargerð þótt hann sé ekki menntaður sem slíkur. Hann hefur verið með Eldum rétt í 6 ár og hefur eldað og myndað ótrúlega marga rétti

Dæmi um heilsusamlegan rétt sem Snorri sá um að hanna og mynda.

í aðstöðunni í húsnæði fyrirtækisins sem er staðsett í Kópavoginum. Með Snorra hefur Helga Sif Guðmundsdóttir myndlistakona verið undanfarin 5 ár við uppskriftagerð og viðskiptavinir hafa notið góðs af. Helga skipti nýverið um starfsvettvang og ákvað að einbeita sér að list sinni.

Nýverið bættist ungur maður Helgi Hrafn Emilsson  við  en hann er menntaður matreiðslumaður. Nú eru þeir tveir í fullu starfi við að elda og þróa nýjar uppskriftir og útbúa leiðbeiningar, stílísera og mynda svo allt saman.

Senda pantanir um allt land

Um þessar mundir er Eldum rétt að hefja prófanir á nýju áskriftakerfi þar sem viðskiptavinurinn fyllir út beiðni þrjár vikur fram í tímann og getur séð nákvæmlega það sem von er á. Hægt er velja rétti miðað við þarfir hvers og eins, t.d. ef óskir um viðbætur eru o.s.frv. Þannig eru allar pantanir aðlagaðir þörfum viðskiptavinanna.

Eldum rétt er í samstarfi við Flytjanda sem fer á kælibíl með matarbakka um allt land. Þau afhenda heim að dyrum á Akureyri en annars staðar koma bakkarnir á stöðvar Flytjanda allt í kringum landið.

Plastið og matarsóun

Hrafnhildur segir að miklar prófanir hafi verið í gangi varðandi umbúðirnar í matarbökkunum. ,,Við höfum hingað til ekki fundið kost sem hentar nógu vel fyrir okkur. En það sem gleymist oft er að plast varðveitir matvæli vel og ef við flokkum og komum plastinu í endurvinnslu þá er það vel nýtanlegt. Svo var gerð tilraun í háskóla í Bandaríkjunum nýlega þar sem kom í ljós að kolefnisfótsporið við búðarferðir fyrir þrjár máltíðir er 30% meira en þegar notaðir eru svona matarpakkar, þrátt fyrir allt plastið. Umhverfisfótsporið við matarsóunina er svo gífurlegt á heimilum á meðan fótsporið hjá okkur varðandi matarsóun er ekkert. Samvinnan við birgja er mjög góð því pöntunarfresturinn er svo langur. Við pöntum nákvæmlega það sem við þurfum og sendum til viðskiptavina nákvæmlega það sem þeir þurfa. Og ef einhver afgangur verður hjá okkur gefum við það í fjölskylduhjálpina.

Draumar geta ræst

Eldum rétt hefur verið fjölskyldufyrirtæki fram að þessu og Hrafnhildur segir að þau hafi verið með ýmislegt á teikniborðinu sem þau hefur langað til að framkvæma en ekki haft burði til. Eitt er að að bæta við nánari næringarupplýsingum í matarbakkana og nú geti slík vinna farið í gang fyrir alvöru með tilkomu nýs eiganda en Hagar keypti fyrirtækið nýlega. ,,Aðkoma þeirra er draumi líkastur fyrir okkur því fjársterkur aðili með sömu sýn og við er hagur fyrir bæði viðskiptavini okkar og þeirra,“ segir Hrafnhildur. Fjölskyldan mun fylgja fyrirtækinu eftir í að minnsta kosti eitt ár eða á meðan nýr eigandi tekur við. ,,Í mínum huga er framtíðin björt og þetta nýjasta skref jákvætt fyrir alla, ekki síst fyrir viðskptavininn,“ segir Hrafnhildur.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júlí 1, 2022 07:00