Ellin skemmtileg og gefur mikið frelsi

„Ég varð 75 ára í vor og fannst það mjög há tala,“ segir Kristín Aðalsteinsdóttir fyrrum háskólaprófessor. Kristín hætti störfum hjá Háskólanum á Akureyri 68 ára gömul og hefur síðan haft nóg að gera, til dæmis sent frá sér þrjár bækur. „Já, mér fannst býsna ógnvænlegt að verða 75 ára, því mér hefur aldrei fundist ég gömul. Nú hlyti að vera komið að því.“

Háskólaprófessorinn Kristín

Dásamlegt tækifæri að hætta að vinna

Kristín kveið því ekki að hætta að vinna. „Ég sá fjölda tækifæra fyrir mér. Fannst lúxus að fara á eftirlaun og þurfa ekki að mæta í vinnu á morgnana. Mér leið vel, var frísk og sá fram á að geta gert ýmislegt. Þá var mikilvægt að gera eitthvað sem mig langaði að gera og taka ákvarðanir. Nú finnst mér ég hafa gert það,“ segir hún.

Fór að skrifa bækur

„Ég byrjaði á að vinna bók sem heitir Innbær. Húsin og fólkið. Ég sendi bréf í um 100 hús hér í Innbænum á Akureyri og bað fólkið sem þar bjó að hitta mig og segja mér frá húsinu sínu og frá lífi sínu í húsinu. Ég hef lengi haft gaman af að taka ljósmyndir og þarna gafst mér tækifæri til að taka myndir, bæði af fólki og húsum. Þessi vinna tók eitt ár,“ heldur Kristín áfram, en hún hefur einnig tekið viðtöl við fólk fyrir tímaritið Súlur, sem Sögufélag Eyfirðinga gefur út og fyrir Árbók Þingeyinga. „Það hefur verið skemmtilegt, því ég hef ánægju af að hlusta á og skrá lífssögur fólks, og finnst mjög mikilvægt að skrá þær. Það þarf ekki endilega að vera heil bók, frásögn sem nær til dæmis yfir 25 blaðsíður getur sagt mikið,“ segir hún.

Það er fallegt í innbænum þar sem Kristín býr í húsinu til vinstri á myndinni

Efri árin og minningarnar

Kristín réðist síðan í það ásamt Jóni Hjartarsyni að skrifa bókina Raddir. Annir og efri ár. „ Tildrög þess voru að Jón, sem er æskuvinur mannsins míns, hafði samband við mig og spurði hvort ég vildi vinna að bók með honum. Mér fannst það strax áhugavert og í samræmi við það sem ég hafði verið að velta fyrir mér. Hvernig geta þessi efri ár verið, hvernig getum við best notið þeirra? Þess vegna fór ég út í þessa bókagerð með Jóni. Bókin byggist á eigin skrifum þátttakenda eða viðtölum sem við Jón tókum við fólkið sem ekki vildi skrifa sjálft,“ segir Kristín en það tók um eitt ár að vinna bókina. Og Kristín hélt ótrauð áfram bókarskrifum, nú var komið að annarri bók um minningar fólks, bókin Myndir og minningar, kom svo út haustið 2020. „Þá gat ég haldið áfram að taka myndir og skrifa niður ólíkar minningar.“

Rekur 6000 manna klúbb á Facebook

Það er óhætt að segja að efri ár Kristínar séu annasöm. „Ég hef verið svo gæfusöm að vera fullfrísk. Mér finnst dýrmætt að hafa ákveðin verkefni, sama hver þau eru ef þau bara veita ánægju. Ég er til dæmis með hóp á Facebook sem heitir Að baka brauð með Kristínu. Þar hef ég sett inn uppskriftir og gefið ráð varðandi brauðbakstur. Þar heyri ég oft frá fólki sem er að baka gerbrauð í fyrsta sinn. Þetta er einföld hugmynd sem virkaði,“ segir Kristín. Tæplega 6000 manns eru nú í hópnum. „Ég deili uppskriftum sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina og sinni þessu áhugamáli um fimmtán mínútur á dag. Ég hef haft mikla ánægju af að heyra í fólki sem er að baka brauð í fyrsta sinn og hefur haldið því áfram. Sjálf hef ég bakað öll matarbrauð fyrir fjölskylduna í yfir fjörutíu ár.“

Kristín í eldhúsinu

Verður ekki leið á að elda

Kristín hefur mikinn áhuga á matargerð og hollustu. „Ég hef alltaf ánægju af því að taka til mat. Ég stend hér á kvöldin og nýt þess að taka til góðan og hollan mat fyrir mig og manninn minn og býsna oft fyrir fleira fólk. Síðustu tvö ár hef ég eldað eftir ákveðinni hugmyndafræði um hollustu. Ég skipulegg innkaupin, fer í búð einu sinni í viku og reyni að eiga það sem ég ætla að nota þá vikuna“, segir Kristín og sýnir blaðamanni Lifðu núna enska matreiðslubók, The Fast 800 Recipe Book. Þar eru allar uppskriftir fljótlegar en fyrst og fremst heilnæmar og góðar. Hún var beðin um að þýða bókina, en ætlar ekki að gera það. „En þessa bók þyrfti að þýða“, segir Kristín sem hefur pantað bókina fyrir ýmsa og býðst til að panta eina fyrir blaðamann, sem er þegið með þökkum.

Held að það sé gott að eldast á Íslandi í dag

Kristín og Jón Hjartarson fyrrum fræðslustjóri, völdu stóran hóp fólks fyrir bókina Raddir. Annir og efri ár og gerðu sér far um að velja fólk sem ekki hefur verið í sviðsljósinu, en þau höfðu grun um að hefði sögu að segja. Kaflarnir eru óskaplega ólíkir, fólk hafði frjálsar hendur en fékk leiðbeiningar og við létum það duga, þótt fólkið héldi sig ekki endilega við þær. Í bókinni segja þrjátíu einstaklingar frá. „Ég held að það sé frekar gott að eldast á Íslandi í dag. Fólkið sem segir sína sögu í bókinni lýsir flest góðum efri árum, þótt líf þess hafi verið mjög ólíkt. Ætli megi ekki segja að lífið snúist meira um viðhorf til lífsins en efnahag. Mér fannst margir lýsa lífi sínu vel. Einn viðmælandi sem er kominn yfir nírætt hefur til dæmis skemmtilega og skýra lífssýn. Hann tók þá staðföstu ákvörðun að fylgjast með, vera með í samfélaginu en draga sig ekki inn í skel sína þegar aldurinn færðist yfir. Hann ákvað að tileinka sér tölvutæknina, gengur með tölvustýrt úr og hugsar vel og mikið um heilsuna.“

Hallgrímur og Kristín hafa mikla ánægju af að ferðast

Hélt að ellin væri erfið

Kristín segist hafa velt fyrir sér hugmyndunum sem hún hafi haft um ellina. „Ég hélt að ellin væri erfið en mér finnst hún ekki erfið, mér finnst hún gefa mér mikið frelsi og vera óskaplega góður tími af því ég ræð mér sjálf, get valið mér verkefni til að vinna, lesið bók, hitt fólk eða ferðast. Ég fer í klukkutíma göngu á dag, en það er hluti af því að halda heilsu. Ég læt það ekki eftir mér að hætta að rækta heilsuna,“ segir Kristín og bætir við að það sé spurning um að taka ákvörðun um hvað maður ætlar að gera á efri árum. „Það þýðir ekki að sitja og bíða, hver og einn þarf að taka ákvarðanir. Það liggur svolítið í loftinu að við eigum að taka lífinu með ró en það er nauðsynlegt að láta reyna á bæði líkama og sál. Ég er ekki að segja að allir þurfi að ritstýra bókum, en held að það sé mikilvægt að reyna á hugann. Til dæmis með lestri.“

Framhaldið

Þeir sem tóku þátt í umfjölluninni í bókinni Raddir. Annir og efri ár, tjáðu sig ekki endilega mikið um dauðann og Kristín segist ekkert hafa hugsað um hann og ekki trúa á framhaldslíf. „Ég vona að ég verði ekki örvita gamalmenni, en ég ræð því víst ekki. Það hljóta allir að óska þess að lenda ekki í því,“ segir hún. Um tveggja ára skeið fór hún upp á Hlíð, dvalarheimili aldraðra á Akureyri, og las fyrir fólk. „Ég fór einu sinni í viku og sá hvað menn gátu haft það ágætt á elliheimilinu, það getur áreiðanlega verið til einhvers að hlakka. Nokkrir voru með Alzheimer og vissu ekki að þeir væru til, en flestum virtist líða vel. Lesturinn féll niður vegna Covid-ástandsins og hefur ekki byrjað aftur. Mér þótti bæði gefandi og lærdómsríkt að lesa og hitta fólkið á Hlíð,“ segir Kristín.

Ritstjórn júlí 16, 2021 07:30