Ef til vill er dauðinn skyndipróf

Jón Sigurðsson fyrrum skólastjóri, formaður Framsóknarflokksins og ráðherra er einn þeirra 28 einstaklinga sem segja frá afstöðu sinni til efri áranna í bókinni Raddi. Annir og efri ár eftir þau Jón Hjartarson og Kristínu Aðalsteindóttur. Þar segir hann meðal annars:

Mér þykir aldurinn færast yfir mig með eðlilegum hætti. Hann kemur ekki á óvart. Ég er sáttur við ellina, líklega mest út af því að ég er þakklátur fyrir lífið og tel það hafa verið tækifæri, fjölþætt og ánægjulegt, og veitt gleði og hamingju. Átök og mótvindur eru til þroska, og það sem miður fór var engum um að kenna nema sjálfum mér. Margir tengja ellina við visku og yfirvegun, en mér þykir hún aðallega þreyta og gleymska, slen og syfja. Mér verður oft hugsað til orðanna: Meðan þú getur lifað kanntu það ekki, en þegar þú hefur loks lært að lifa geturðu það ekki lengur. Jarðlífið gæti verið einhvers konar ófyrirsjáanleg námsbraut. En svona held ég að þetta eigi að vera.

Oft er sagt að menn séu ekki eldri en þeir telja sig sjálfir vera, og hugur minn er alls ekki uppfullur af ellinni. Að minnsta kosti geri ég mér þá ekki grein fyrir því, en það gæti reyndar verið ellimerki. Í lífinu hef ég fengið óskir uppfylltar og nýt margra bjartra endurminninga. Yfirleitt finnst mér ég hafa það betra en ég ætti skilið.

Ritstjórarnir spyrja hvað mér finnist gefa lífinu mest gildi á efri árum. Mestu varða sátt við lífið og þakklæti sem fylgja lotningu og bænalífi. Ómetanlegt er að njóta samfylgdar lífsförunautar, og líka að eiga afkomendur og aðra nákomna sem farnast vel, hverjum á eigin forsendum. Þetta verður ekki fullþakkað. Og margt veitir ánægju. Ég hef ævinlega verið bókaormur og bækur veita lífsfyllingu. Með öðru hef ég á síðustu árum varið auknum tíma í skáldskap fornra Grikkja og Rómverja, og í tungutak þeirra sjálfra, og það er mikið ánægjuefni. En ég held líka þeim sið að lesa íslenskan og erlendan skáldskap gamlan og nýjan og fylgjast með t.d. ljóðum lifandi skálda. En ég hef fráleitt þann hæfileika lengur sem forðum var, að læra utan að og geta endursagt reiprennandi. Það er allt horfið að baki.

Þeir spyrja hvort ég hafi áhyggjur af framtíðinni. Trúin er fyrirheit og áhyggjur beinast að afleiðingum eigin athafna og hugarfars. Ég hef ævinlega verið svolítið hneigður til kvíða, sem er arfur úr móðurættinni, og ellinni fylgja ýmis úrlausnarefni, til dæmis tengd tekjum, heilsufari eða hinstu kveðju vina og ástvina. En ég hef aldrei haft slíkar veraldlegar væntingar að eigin framtíð hafi orðið verulegt áhyggjuefni. Fyrir kemur að ég hafi miklu meiri áhyggjur af athöfnum eða mistökum á liðnum tíma heldur en því sem framundan kann að vera. En allar aðstæður eru mér sjálfskapaðar og eðlilegt að ég takist á við þær. Ég hef ekki breytt hegðun eða neyslu til þess að jarðvistin lengist eitthvað. Aldrei er á vísan að róa um það. Hvorugur afi minn varð einu sinni sextugur, svo að ekki veit ég hvað ég á að fara að væla.

Jón greinir frá því í bókinni að kristnin sé undirstaða lífsskoðunar hans. Hann setji traust sitt á Lausnarann Krist og sæki leiðsögn í Biblíuna. Trúin sé akkeri hans og áttaviti í lífinu.

Við finnum smátt og smátt að við skiljum fátt og vitum lítið. Hér verður ein kveikja trúar. Ekkert skiljum við í eigin meðvitund, hvötum eða tilfinningum, og skiptir þetta okkur þó meira máli en flest annað. Margt annað og fleira í lífi og dauða er óskiljanlegt. Merkisatburðir gerast án fyrirvara eða útskýringa, og þá ekki aðeins upprisa Frelsarans. Það er sameiginleg reynsla að sterkasti áhrifamátturinn sem við mennirnir mætum er sköpunar-, jafnvægis- og kærleiksafl. Og þessi máttur hlustar, veitir bendingar og hughreystingu. En við verðum auðvitað að opna hlustunarskilyrði sjálf. Án lifandi Guðs riðlast líf og heimur en ótti, tilgangsleysi og upplausn blasa við. Þetta er lífsreynsla, skynjun, en ekki skilningur. Trúin er ekki vitræn skynsemisafstaða eða þekking, heldur trúnaðartraust, staðfest við reynslu.

Jón segist hylla lífið, lífsnautn og gleðina.

Ef það er eitthvað sem ég óttast við dauðann er það að liggja í kör síðasta skeiðið en of vel á mig kominn til að skiljast við strax. Dauðinn er spennandi áfangi á lífsferlinum, höfn á ókunnri strönd. Ef til vill er dauðinn skyndipróf. Farnist mér illa í dauðanum verður það mín sök, en farnist mér vel er það náð Guðs. Ég hef ekki mótaðar hugmyndir um persónulegt framhaldslíf líkt jarðlífinu. Ég held að eilíft líf sé nánd við Drottin óháð jarðlífi, dauða, tíma og rúmi. En ég trúi því að ég beri ábyrgð mína áfram með mér. Ég veit lítið sem ekkert um dauðann, og þannig held ég að þetta eigi að vera í jarðlífinu. Ég tek undir með séra Sigurbirni Einarssyni: En ég veit hver tekur á móti mér og það nægir.

 

 

Ritstjórn apríl 1, 2021 07:33