Engin spurning að ráðast í afnám allra skerðinga strax

Björgvin Guðmundsson

Björgvin Guðmundsson skrifar grein í Morgunblaðið í dag undir fyrirsögninni Aldraðir og öryrkjar fengu 3,9 milljarða bakreikning frá TR. Hann gerir tekjutengingar í almannatryggingakerfinu að umræðuefni og segir að afnema eigi þær allar og um leið falli árlegir bakreikningar stofnunarinnar niður. Hann bendir líka á að greiðslur hins opinbera til eftirlauna aldraðra hér á landi, séu mun minni en tíðkast í öðrum löndum OECD.  Með því að hækka þær hér til jafns við það sem gerist annars staðar sé hægt afnema allar skerðingar strax. Það finnst Björgvin einboðið að verði gert.

Það er ekki aðeins eðlilegt, heldur ber íslenska ríkinu skylda til þess að ráðast í afnám þessara skerðinga. Íslenskir eldri borgarar hafa verið hlunnfarnir af ríkinu hér. Ríkið hefur ekki gert eins vel við sína eldri borgara og hið opinbera í OECD hefur gert. En með því að hagvöxtur er meiri hér höfum við ekki aðeins efni á því að gera eins vel við okkar eldri borgara og önnur ríki OECD gera, heldur ber okkur skylda til þess að gera það. Það verður að lyfta eldri borgurum Íslands uppá sama grundvöll og gildir hjá öðrum OECD ríkjum.

Björgvin gerir það einnig að umtalsefni að með nýju lögunum um almannatryggingar hafi grunnlífeyrir verið felldur niður hér á landi.

Við það voru 4.200 eldri borgarar strikaðir út úr kerfi almannatrygginga þó þeir hefðu greitt skatta alla sína starfsævi og margir þeirra hefðu greitt tryggingargjald frá unga aldri, sumir frá 16 ára aldri. Grunnlífeyrir var heilagur áður. Það mátti ekki snerta hann. Á hinum Norðurlöndunum fá allir grunnlífeyri. Í dag er Ísland eina land Norðurlandanna þar sem stór hópur eldri borgara fær engar greiðslur frá Tryggingastofnun, almannatryggingum. Við erum miklir eftirbátar hinna Norðurlandanna á þessu sviði. Áður, þegar almannatryggingar voru stofnaðar 1946 vorum við í fararbroddi almannatrygginga á Norðurlöndum og í víðar í Evrópu.

Ritstjórn júlí 10, 2018 11:46