Er aldur bara tala?

Kristín Linda Jónsdóttir

Kristín Linda Jónsdóttir hjá Huglind er sálfræðingur, fyrirlesari og aðstoðarfararstjóri hjá Skotgöngu. Hún tekur á móti einstaklingum í sálfræðimeðferð, handleiðslu og ráðgjöf bæði í Reykjavík og Selfossi og heldur námskeið og fyrirlestra hérlendis og erlendis.

 

Svo er sagt. En er það svo? Þessi tala sem segir okkur til um hve mörg ár við höfum lifað á jörðu hér er ákveðið stöðumat. Upplýsingar um hvar við erum stödd á líflínunni okkar. Það er staðreynd að fáir verða eldri en 90 ára og en færri eldri en 100 ára.  Samkvæmt þjóðskrá voru í upphafi árs 44 íbúar landsins eldri en 100 ára, 32 konur og 12 karlar. Landsmenn 65 ára og eldri voru 1. janúar 2025, 26.5 % eða rösklega einn fjórði þjóðarinnar og hefur sá hópur aldrei verið stærri.

Ef við pælum í þessu þá finnst mér, sem er um sextugt, gaman að sjá að þeim fjölgar hlutfallslega sem fá tækifæri til að njóta lífsins fram yfir 65 ára aldurinn. Það er jú líka aldeilis heilmikill tími eftir sé einstaklingur 65, lifi hann til níræðs, heil 25 ár! Jafn langur tími eins og frá 25-50 ára til dæmis, ó, já, margt gerðist nú á öllu þeim árum.

Enginn veit hve löng líflínan kann að verða og fæstir hvernig heilsan muni þróast, hvort hún verði bara nokkuð góð eða reynist heftandi varðandi líðan okkar, gjörðir og lífsgæði. Þó vitum við að afar litlar líkur eru á að sá sem er 60 ára lifi í önnur 60 ár. Að um það bil þrír fjórðu þjóðarinnar er yngri en 65 ára og flestir fólk í heimi hér er yngra en ég!  Þessum hugsunum fylgir ákveðið stöðumat. Alveg eins og hugsuninni að dagar lífsins séu ekki endalausir og að þeim fækki dag hvern. Líklega pæla fæstir í því um þrítugt allavega færri en um sextugt.

From baby boy to grown up man to senior walking with a cane

Stöðumatið, aldursárið okkar, getum við nýtt sem bendi til að vekja okkur, ýta við okkur, hugsa okkar gang um leið og við þökkum fyrir lífið.

Hvernig komum við fram við okkur sjálf? Stöndum við okkur vel í sjálfssinnun eða vanrækjum við okkur? Grunnstoðir heilsuhegðunar eru þættir eins og að standa vörð um svefntímann sinn, sinna félagslegum tengslum og vinna gegn eigin einsemd. Hreyfa líkamann á fjölbreyttan hátt og sömuleiðis hreyfa við og nýta heilann á fjölbreyttan hátt. Næra sig nægilega og forðast að stinga upp í sig, og þar með inn í sig, allskonar óþverra.

Að hugleiða aldursárið okkar og staðsetningu á líflínunni gefur okkur líka tækifæri til að móta stefnu varðandi nýtingu á eigin tíma á jörðu hér. Hvað vilt þú upplifa, gera, njóta, koma í verk, núna sumarið 2025? Hvað viltu setja í forgang næsta ár eða þau ár sem eru eftir að næsta áratugsafmæli þínu? Hverju viltu hætta, gera minna af, svo það éti ekki upp dýrmæta tímann þinn og hvað viltu setja í forgang?

Svo er það spurningin stóra. Er hægt að hægja á tímanum?

Nei, en við getum valið okkur lífsstíl sem veldur því að okkur finnst tíminn líða ógnar hratt eða hæfilega hægt. Rannsóknir í sálfræði sína að það er sterkur þráður á milli þess að lifa afar vanabundnu lífi og þeirrar tilfinningar að tíminn líði of hratt. Það er jú þannig að það sem við gjörþekkjum og kunnum krefst lítillar athygli af okkar hálfu. Við getum dólað gegnum að sjóða kartöflur eða keyra sömu leið og venjulega á sjálfsstýringunni, sem sagt hálf dofin. Þó það krefjist lítillar orku er það grátt og flatt. Yfirtekur sannarlega tímann en skapaði ekki nýjar upplifanir eða lifandi ferskar minningar. Tíminn eyðist á meðan við erum á sjálfsstýringunni, hálf dofin við vanabundnar athafnir, horfa á enn einn fréttatímann, prjóna en eina peysuna úr sama garni, hlusta á enn eina bókina eftir sama höfund, og dagurinn bara búinn og gott ef ekki vikan líka. Óskaplega líður þetta hratt!

Nýjar upplýsingar, upplifanir og viðfangsefni, að gera eitthvað í fyrsta sinn, hægir aftur á móti á tilfinningu okkar fyrir líðanda tímans.  Þegar þú upplifir, móttekur, gnægð nýrra upplýsinga gegnum skilningarvitin þín verður tilfinningin sú að gríðar margt hafi gerst. Jú, sjáðu til það gerðist svo margt í maí, allskonar og mér fannst vorið ekkert rjúka frá mér, fannst þér það? Hvað varstu að brasa, manstu það ekki? Nú bara það sama og vanalega, jæja.

Það er galdur að temja sér fjölbreytt líf, halda áfram alla ævi að upplifa nýtt, prófa, skoða, gera eins og barn sem smakkar, sér, heyrir í fyrsta sinn.

Þá finnst þér að þú hafir sannarlega haft mikinn tíma og að hann hafi ekki liðið ógnar fljótt. Til dæmis ef þú velur að fara í sumar á nýjar og nýjar slóðir, jafnvel bara í nærumhverfinu þínu en samt ganga nýjar götur, elda nýjar uppskriftir, hitta nýtt fólk, sjá ný listaverk, hús eða undur, mun þeir finnst margt hafa gerst í sumar. Ef þú hins vegar dvelur á sömu slóðum og venjulega, situr í sama sófanum flest kvöld í félagsskap símans eða sjónvarpsins, heyrir í sama fólkinu og ferð í sömu sporin eru líkur á að sumarið líð frekar fyrirhafnarlaust en verið í minningunni eins og örskot. Bara strax komið haust, ársins og ævinnar.

Ertu til í að teygja á tímanum?

Hvar sem þú ert á líflínunni þinni, tala nú ekki um ef þú ert komin yfir miðju, er skemmtilegt og snjallt að horfast í augu við sjálfan sig og sínar lífsins siðvenjur. Sleppa gamla vananum, sem étur tímann þinn ósjálfrátt, og velja meiri fjölbreytileika og nýjar upplifanir sem kalla á vakandi athygli þín, skapa fleiri lifandi stundir?