Kristín Linda Jónsdóttir hjá Huglind er sálfræðingur, fyrirlesari og aðstoðarfararstjóri hjá Skotgöngu. Hún tekur á móti einstaklingum í sálfræðimeðferð, handleiðslu og ráðgjöf bæði í Reykjavík og Selfossi og heldur námskeið og fyrirlestra hérlendis og erlendis.
Já, það er spurningin, hvernig ætlar þú að vera þessa sumardaga, ekki hvað ætlar þú að gera. Hin heimsþekkti sálfræðingur Carol Dweck hefur rannsakað og sett fram kenningar um hvernig við aðhyllumst ýmist vaxtarhugarfar eða festusjálf. Festusjálfið er ansi hindrandi, að hafa enga trú á að maður sjálfur geti breyst, festast því auðveldlega í gamla vananum og hefta sjálfan sig á meðan lífið líður. Þá er nú meira spennandi að leitast við að rækta með sér hugarfar vaxtar, trúa að við getum þróast, þroskast og breytt okkur, þar með talið valið á meðvitaðan hátt hvernig við viljum vera í sumar. Núna gæti verið snjallt að ná sér í dásamlegan kaffibolla, lakkrísrótarte eða ískaldan drykk í fallegu glasi, minnisbók og penna og pæla aðeins í þessu.
- Hvernig viltu klæða þig þessa sumardaga? Er tími fyrir gallabuxur, bol og lopapeysu eða sumarkjóla, sæta klúta og bandaskó?
- Hverskonar mat viltu nýta til að næra þig? Viltu breyta um morgunverð, sleppa brauðinu, morgunkorninu eða grautnum og velja eitthvað annað? Viltu bæta markvisst meiru íslensku grænmeti á diskinn meðan það er best? Langar þig að grilla oftar eða bara alls ekki? Viltu borða oftar úti, grípa með þér nesti í gönguferðina og borða á steini í staðin fyrir við borðið heima?
- Hverskonar neytandi ætlar þú að vera? Hvaða frétta, fjölmiðla og upplýsinga ætlar þú að neyta og leyfa að seitla í sál þína inn?
- Viltu vera hreyfanleg, mikið á ferðinni, fara víða, ganga nýjar slóðir, aka ókunna vegu, fljúga út i heim?
- Viltu vera heimakær, nýta daganna heima, hlúa að blómunum þínum, grænmetinu, kettinum og hundinum?
- Ætlar þú að vera athafnasöm heima við og nýta stundirnar í að endurbæta heimilið, mála og laga?
- Viltu vera fróðleiksfús menningarferðalangur? Sækja heim sögustaði, listhús, byggingar, mannvirki og stofnanir? Þórbergsetur á Hala, Listasafnið á Akureyri, Norræna húsið, Hrafnseyri, Grenjaðarstað eða Glaumbæ, allskonar byggðasöfn, setur og sögustaði?
- Viltu hreyfa þig víða, safna upplifunum á mismunandi golfvöllum, sundlaugum, eða gönguleiðum?
- Ætlar þú að velja að vera róleg og njóta menningar heima? Verja mestum tíma á svölunum, pallinum, í sófanum eða besta stólnum þínum við lestur og tónlist undir teppi?
- Kallar landið þitt á þig, viltu róta þig í því, vera með því? Fara í heiðina, að vatninu, hafinu, læknum eða hverfa inn í birkikjarrið og bara vera?
- Með hverjum viltu vera? Hvaða samvera er í forgangi? Hvernig vilt þú vera á þessum samverustundum?
Við höfum flest meira val en við höldum. Alveg frá því þegar við veljum hvort við förum í gallabuxurnar eða rósótta kjólinn að morgni, þar til við veljum hvort við förum snemma í rúmið með bók eða ströndum í sófanum og flettum símanum. Við erum ekki fastur steyptur hlutur heldur síbreytilegar verur sem hafa alla möguleika til að vaxa, þróast og breytast ævina á enda. Velja hverju sinni, hvernig við viljum vera, svona eins og okkur er unnt miðað við okkar aðstæður og örlög. Endilega skrifaðu niður nokkrar punkta núna, bara fyrir þig.