Er hægt að banna kossa með lögum?

Bókasafn föður míns eftir Ragnar Helga Ólafsson var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og ekki að ástæðulausu. Þetta er látlaus og falleg saga af bókasafni föður höfundarins, sem fær það verkefni að honum gengnum, að fara yfir safnið.  Lesandinn slæst í för með honum, þar sem hann blaðar í bókunum og  grípur meðal annars niður í kostulegar frásagnir úr ritum um þjóðlegan fróðleik. En í bókinni eru líka sögur sem tengjast bókum, bókaútgáfu og bókasöfnum, veikindum og andláti föður hans og bollaleggingum um stöðu bókarinnar í nútíma samfélagi.  Höfundurinn skilur og flytur búferlum með sína bókakassa. Þetta er yfirgripsmikið efni og í fljótu bragði gæti virst flókið að halda þessu saman í heillegri bók, en það tekst Ragnari einkar vel. Frásögnin flæðir eðlilega áfram, er virkilega skemmtileg á köflum, en alltaf látlaus og hann bregður upp mjög fallegum minningum um föður sinn. Bókakápan er líka einstaklega falleg.

Það er mikið um þjóðlegan fróðleik í bókasafni föðurins, grípum niður í ræðu, sem flutt var í Ræðuklúbbi Sauðárkróks 1984-1902.

Framsögumaður Þorl. Þorláksson talaði fyrst snjalla ræðu um það, hve óhappalegur ósiður það sje að kyssast, og geti haft skaðlegar afleðiingar: og þótt að það væri mikil vorkunn, að t.d. kærustupör ættu bágt með að leggja niður kossana, þá áleit hann af sjálfum sjer að dæma, þá hann var í því ástandi, að hægt væri að fyrirbyggja líka alla slíka leynikossa, með því að fyrirbjóða þá með lögum“.

Höfundurinn vitnar í minnisnótu um Þjóðlegan fróleik #4. „ Þjóðlegur fróðleikur leggur lítið uppúr frásagnarframvindu. Stundum virðast molarnir meira að segja koma í öfugri röð. Áfangastaðurinn er aukaatriði, handahófskenndir útúrdúrar eru meira en leyfðir, þeir eru ómissandi. Bækur af þessum toga eru að forminu til andstæða hinnar vel skrifuðu bókar, þar sem hvert orð er ómissandi, allt í réttri röð og reglu“. Þessi litli kafli hér á eftir er úr Breiðfirzkum sögnum.

Honum þótti skektan reynast vel í þessari fyrstu ferð og hafði orð á því við föður sinn, sem stóð í vörinni, þegar hann lenti. Gamli maðurinn segir fátt í fyrstu, en skoðar bátinn allvandlega, og segir svo eftir stundarþögn: – Þetta er falleg skekta, Bergsveinn minn, en hún mun verða líkkistan þín.

Ragnar Helgi, reynir að losna við bækurnar úr bókasafni föður síns, til dæmis með því að koma þeim í verð, selja þær nýjum lesendum sem gætu haft gagn og gaman af þeim. Fornbókasalar hafa ekki mikinn áhuga. Bókin er sannarlega á hverfanda hveli og um það eru skemmtilega pælingar í bókinni. Ragnar Helgi segir meðal annars frá eftirfarandi símtali.

Ég hringi aftur í fornbókasalann.

  • Hvað með þessar 19.aldar bækur? Viltu ekkert af þeim?
  • Eru þetta ekki mest guðsorðabækur?
  • Jú. Ég held þú ættir bara að halda þessu sjálfur.
  • Sá ég ekki svona bækur hjá þér um daginn? Til sölu fyrir hátt verð?
  • Jú, það passar. Við setjum oft yfir tuttugu þúsund á svona bækur. Það er náttúirulega enginn að kaupa þetta hvort sem er en verðið neitum við að lækka. Gengisfelling bókanna verður einhvern endi að taka. Þarna drögum við mörkin.
  • Já ég skil. Guð blessi þig fyrir það , Don Kíkóti“.

Bókasafn föður míns, er ákaflega gott dæmi um bók sem er alger yndislestur.

Ritstjórn maí 9, 2019 07:28