Tengdar greinar

Er of mikið að vera með makanum allan sólarhringinn alltaf?

Það hafa margar greinar verið skrifaðar um lífið eftir starfslok og hvernig fólk ákveður að haga því. Það eru oft viðbrigði að hætta að vinna og fara í eilíft frí.  Margir hlakka til að hafa loksins tíma til að sinna áhugamálum sínum en aðrir kvíða því að lífið verði tómlegt þegar vinnunni sleppir og þeir hitta vinnufélagana ekki lengur. Ýmsir hafa bent á, að það sé gott að koma sér upp ákveðinni daglegri rútínu eftir starfslokin.

Tómlegt á eftirlaunaaldrinum?

Frændur okkar Norðmenn velta þessu fyrir sér eins og við og á vefnum Við sem erum komin yfir sextugt (Vi över 60) er að finna grein um þetta. Þar segir að það geti verið ágætt að fara á eftirlaun og þurfa ekki lengur að stjórnast af klukkunni, en á sama tíma geti verið tómlegt að hafa ekki ákveðin verkefni til að sinna á daginn. Og þó frelsi fylgi eftirlaunaaldrinum geti verið býsna stressandi að  vera með makanum 24 tíma sólarhringsins.

Ekki fara að sofa út alla daga

Bent er á að sérfræðingar telja að það  sé gott fyrir heisluna að hafa rútínu til að ganga að á daginn. Þegar við erum í vinnu förum við á fætur á sama tíma, borðum á sama tíma og vitum að hverju við göngum þann daginn. Á sama hátt sé það mikilvægt fyrir fólk á  eftirlaunum að halda áfram að fara á fætur á sama tíma, í stað þess að sofa út vegna þess að það er ekkert í gangi.  Og síðan segir.

Reynið að hafa eitthvað fyrir stafni á daginn, komið ykkur upp verkefnum til að vinna að, annað hvort ein, eða með makanum. Haldið áfram að lesa, stunda rökræður og heimsækja listasöfn og aðrar menningarstofnanir. Síðast en ekki síst, lærið eitthvað nýtt.

Hamingjan ekki bara fólgin í starfinu

Þá er greint frá því í greininni að hamingjurannsóknir sýni að lífshamingjan felist í þrennu, Tilgangi, virkni og ánægju með lífið. Það séu ekki endalok að fara á eftirlaun, heldur upphaf að nýju lífsskeiði og það geti verið gagnlegt að hugsa framtíðina útfrá fyrrgreindum þremur atriðum.

Ánægja í lífinu: Hvað gerir þú þegar þú vilt hafa það virkilega gott og notalegt?

Virkni: Er eitthvað sem vekjur forvitni þína og þig langar að kynna þér betur?

Tilgangur: Geturðu fundið eitthvað til að gera sem veitir þér tilgang?

Vinnan sem áður uppfyllti þessar þarfir sem eru svona mikilvægar fyrir heilsu og hamingju fólks, er ekki lengur til staðar en það er ýmislegt sem hægt er að gera. Bent er á að það sé hægt að stunda sjálfboðaliðastörf, eða vera stuðningur við börn og barnabörn, séu þau fyrir hendi.  Þá sé einnig mikilvægt fyrir hjón eða sambúðarfólk að ákveða, hvað þau ætla að gera saman og hvað þau vilja gera í sitt hvoru lagi.

Ekki sitja aðgerðarlaus í sófanum heilu dagana

Það skiptir miklu máli fyrir hjón sem standa frammi fyrir því fara á eftirlaun,  hvernig þau hafa undirbúið sig fyrir það að hafa meiri tíma til ráðstöfunar en áður, segir í greininni og það skiptir líka máli að hafa átt sér áhugamál á meðan fólk var í vinnu. Þá endi menn síður með því að sitja aðgerðarlausir í sófanum heilu dagana. Verkefnin hlaðist upp.  Á hinn bóginn hafi fólk ekki áhugamál sem það hefur stundað, er rétt að byrja að skoða það áður en það hættir störfum á vinnumarkaðinum hvað það vill gera. Og svo er það samveran með makanum alla daga.

„Sum pör hafa verið mikið saman, þó bæði væru í vinnu á meðan aðrir vilja hafa meiri tíma fyrir sig. Það getur komið sér vel að hugsa um afleiðingar þess að vera alltaf saman þegar fólk er komið á eftirlaun og stjórna því hversu mikil samveran verður. Hún hefur ekkert endilega mikið með það að gear hvort fólk er ánægt með hvort annað. Sumum finnst gott að vera mikið saman á meðan aðrir hafa meiri þörf fyrir að vera einir, þó þeir séu ánægðir með makanum.

Gera sumt saman en annað sitt í hvoru lagi?

Kostir og gallar við að vera alltaf saman, eftir starfslok eru mismunandi eftir hverjum og einum. Það skiptir máli hvað fólk hefur vanið sig á. Það getur orðið of mikið fyrir suma sem eru hættir að vinna að vera saman alla daga vikunnar, árið um kring en það er hægt að stjórna því hversu mikil samveran er. Með því móti er hægt að halda sambandinu meira lifandi og koma hvort öðru á óvart af og til. Fólk getur alveg ákveðið hvað það till gera saman og hvað það vill gera sitt í hvoru lagi. Hvernig vilja menn haga félagslífi sínu, fundum, tónleikum, ferðalögum og sjálfboðaliðastarfi. Vilja pör stunda þetta saman, í sitt hvoru lagi, eða hvorutveggja, sumt saman en annað einir.

Það eru ýmsar leiðir til að finna út úr þessu og þannig má finna út hvernig hægt er að forðast að fara í taugarnar hvort á öðru á eftirlaunaárunum. Hér gildir það að fólk tali saman og prófi sig áfram. Öll aldursskeið hafa sína kosti og galla.

Ritstjórn október 18, 2022 07:00