Þær spurningar sem velt er upp í titlinum eru meðal þess sem rætt verður í heimspekisamtölum í Borgarbókasafninu í Grófinni í nóvember. Boðið er upp á fleiri spennandi og áhugverð umræðuefni og hér gefst mönnum einstakt tækifæri til að láta rödd sína heyrast. Eftirfarandi fréttatilkynning skýrir betur hvar og hvenær samtölin munu eiga sér stað:
„Ræðum saman á heimspekinótum um samfélagið okkar. Er réttlátt að taka þátt í slaufun? Hvað telst til borgaralegrar óhlýðni og er hún nauðsynleg undir einhverjum kringumstæðum? Hvert er gildi þess sem er ekki mælanlegt í kapítalísku samfélagi, eins og náttúran og tengsl fólks í tæknivæddum heimi?
Alls er um fjögur samtöl að ræða sem snúa að réttlæti, formlegu valdi og tengslum í okkar samfélagi. Heimspekinemar við Háskóla Íslands verða á staðnum með undirbúnar vangaveltur og spurningar til að hefja umræður.
Öll samtölin fara fram á 1. hæð Borgarbókasafnsins Grófinni, miðvikudagana 6. og 13. nóvember og föstudagana 8. og 15. nóvember, kl.17:00 – 18:00.
Fyrsta heimspekisamtalið er um slaufun og réttlæti og verður haldið 6. nóvember kl. 17 á Borgarbókasafninu Grófinni.
Öll velkomin, þátttaka ókeypis.
Heimspekisamtöl – Yfirlit á heimasíðu Borgarbókasafnsins
Viðburðir á Facebook:
Miðvikudag 06.11.2024 – Slaufun og réttlæti
Föstudag 08.11.2024 – Borgaraleg óhlýðni
Miðvikudag 13.11.2024 – Náttúran og samfélag
Föstudag 15.11.2024 – Tækni og samfélag