Ert þú að fara að kaupa íbúð?

Það er að ýmsu að hyggja þegar farið er af stað í fasteignakaup. Á kaupanda fasteignar hvílir rík skoðunarskylda en jafnrík upplýsingaskylda hvílir á seljanda. Þess vegna er mikilvægt að skoða íbúðina eins vel og kostur er og þá að sjálfsögðu með hliðsjón af hvort hún er ný, nýleg eða komin nokkuð til ára sinna. Það á að spyrja seljanda spjörunum úr um þau atriði sem máli skipta um ástand eignar­innar, búnaðar og inn­réttinga. Að sjálfsögðu ber seljanda að veita grein­argóðar upplýsingar um ástand íbúðarinnar og rétt svör við spurn­ingum þínum um alla hugsanlega anmarka sem hann veit um. Á vef TM trygginga er að finna greinagóðar upplýsingar um allt er lítur að kaupum á húsnæði. Þar er meðal annars að finna þennan lista yfir það sem fólk þarf að skoða sérstaklega þegar það er í kauphugleiðingum.

 • Skoðaðu gluggana vel. Er tvöfalt gler í öllum gluggum.
 • Skoðaðu vel ástandið á timburumbúnaði um glugga, innan- og utanhúss.
 • Eru allar hurðir í góðu ásigkomulagi?
 • Athugaðu gólf og hvort sé ástæða til að skipta um gólfefni, slípa parkett o.s.frv.
 • Eru ofnar í góðu ástandi? Eru hitastillar á ofnum nýlegir? Hefur lekið frá ofnum?
 • Hefur orðið vart við utanaðkomandi leka í íbúðinni? Skoðaðu vel kverk­ar meðfram þaki, hvort þar sjáist merki um að hafi lekið nýlega.
 • Opnaðu fasta skápa og skúffur í svefnherbergjum og í eldhúsinnréttingu.
 • Skoðaðu hreinlætistæki og inntu eftir ástandi þeirra.
 • Skoðaðu vel tæki, sem fylgja með í eldhúsi, og spurðu um aldur þeirra og ástand.
 • Hvernig er ástandið á vatnslögnum fyrir heitt og kalt vatn? Athugaðu vel að þess er ekki krafist af seljanda að hann geti eða megi vita og þar með upplýst um leynda galla á vatnslögnum.
 • Hvernig er ástandið á fráveitu, skólplögnum. Athugaðu vel að þess er ekki krafist af seljanda að hann geti eða megi vita og þar með upplýst um leynda galla á fráveitulögnum.
 • Er dren við húsið? Er dren í lagi? Dren er lögn sem hindrar að vatn í jarðvegi leggist utan á neðstu hluta byggingar og valdi þar rakaskemmdum.
 • Gættu vel að hvernig íbúðin snýr að sól. Snúa svalir í sólarátt? Er íbúðin björt?
 • Mikilvægt er að spyrja hvort fyrir­hugaðar séu framkvæmdir á húsinu eða í sameign og hvort kostnaður af þeim lendi á kaupanda eða seljanda. Framkvæmdir á skólpi, dreni og þess háttar eru dýrar og ef slíkar fram­kvæmdir eru á döfinni er sjálfsagt að slá það af verði íbúðarinnar þegar þú gerir tilboð – nema ef ásett verð taki mið af fyrirhuguðum framkæmdum.
 • Ef íbúð er í fjölbýli skaltu spyrja um framkvæmdasjóð og hversu mikið fé er í þessum sjóði. Framkvæmdasjóður fylgir ævinlega með til kaup­anda.

Ef þú telur þig ekki búa yfir nægilegri þekkingu til að skoða ástand íbúðar getur verið skynsamlegt að biðja kunnáttumann, t.d. iðnaðarmann, að skoða með sér íbúðina, ekki síst ef hún er í húsi sem er komið nokkuð til ára sinna. Sjá nánar hér.

Ritstjórn ágúst 22, 2017 10:07