Tengdar greinar

Eru börnin þín orðin miðaldra eða kannski komin á eftirlaun?  

„Eru börnin þín orðin fimmtug? Dóttir mín er það. Hvernig gerðist þetta eiginlega?  Mér finnst að ég hafi sjálf orðið fimmtug fyrir nokkrum mánuðum. Þannig upplifi ég það“, segir í grein um aldur uppkominna barna á vefnum Sixtyandme. Greinin fylgir hér með, í styttri, íslenskri útgáfu.

Börnin og tíminn

Þegar kemur að börnunum, virðist tíminn líða öðruvísi en hjá okkur. Við sinum okkar, gerum það sem gera þarf  og tökum varla eftir því að við erum að eldast – stundum gerum við að minnsta kosti okkar besta til að taka ekki eftir því!!

En hvernig stendur á því að börnin eldast svona hratt?  Það eru aðeins nokkur ár síðan við vorum að elta þau á róluvellinum og leiðbeina þeim í gegnumn unglingsárin. Við fylgdumst með þeim stækka og fullorðnast. Þau prófuðu að ráða sig í vinnu,  hættu og prófuðu aftur. Það var svipað með kærastana og kærusturnar. Auðvitað höfðum við stundum áhyggjur en þetta var allt eðlilegt. Þetta var það sem reiknað er með að börnin gerðu á þessum aldri.

En svo tökum við eftir að þau eldast enn meira. Festa ráð sitt, stofna heimili með maka  – og já, eignast eigin börn. Barbabörnin sem eru svo dýrmæt.

Svona er að eiga miðaldra börn

Faðir minn var vanur að segja að hann hefði ekkert á móti því að eldast, en hann þyldi ekki tilhugsunina um að börnin hans yrðu miðaldra. Ég skil núna hvað hann meinti. Börnin eru nefilega lifandi áminning um þinn eigin aldur. Hann sagði alltaf að ég væri 31 árs.

Og það vantar orð yfir þessi miðaldra „börn“.  Þegar rætt er um börn er átt við mjög ungar manneskjur. En börnin okkar verða alltaf börnin okkar, sama hvaða aldri þau ná. Við tölum um þau sem syni okkar og dætur og stundum er rætt um uppkomin börn en frekar þá í formlegu samhengi.  En það er ekkert eitt hugtak til yfir börn sem eru virkilega farin að eldast, komin með hrukkur og skalla. Eldri börn, gömul börn? Erum við kannski öll börn þegar upp er staðið, bara misjafnlega gömul?

Það sem þau velja

Þegar við erum búin að sætta okkur við þá staðreynd að börnin okkar eldast, fylgir því líka ákveðin gleði. Sérstaklega ef þau hafa öðlast sjálfsöryggi og vegnað vel í lífinu. Það er allt eins líklegt að þau séu ekki að gera það sem þú hélst að þau myndu leggja fyrir sig þegar þú sast með þeim í sandkassanum forðum. En eru þau ánægð með sig og líður þeim vel?

Þau giftust kannski ekki þeim sem þú reiknaðir með hér áður, að yrðu makar þeirra, En eru þau í góðum hjónaböndum og gengur þeim vel í foreldrahlutverkinu?. Það er mikilvægast en ekki hitt hversu gömul þau eru allt í einu orðin, í árum talið.

Þegar börnin eru komin á eftirlaunaaldur

Þú ert kannski 65 ára, yngsti sonur þinn 25 ára og elsta dóttirin orðin 40 ára. Þér finnst tíminn hafa flogið áfram og skilur ekkert í því hvað þau eru orðin gömul.

Og þetta heldur bara áfram. Frænka er orðin 95 ára og öll börnin hennar eru komin á eftirlaun! Okkur finnst það flestum furðuleg tilhugsun að börnin okkar fari á eftirlaun á meðan við erum á lífi. En þetta á eftir að verða stöðugt algengara eftir því sem langlífi eykst.

Það er best að njóta hvers dags. Börnin okkar eru að eldast og einnig við. Ef við eigum barnabörn eldast þau líka.

Ritstjórn apríl 6, 2023 07:00