Tengdar greinar

Eru breytingarnar á tískunni á tímum Covid komnar til að vera?

Það er nýtt ár og nýjar spurningar fylgja. Eru spandex, háir hælar og fínar buxur horfnar að eilífu?  Á ég að lita hárið sjálf og snyrta hendur og fætur í stað þess að fara á stofur?  Ef ég vinn bara heiman frá mér, á ég að gefa gömlu vinnufötin mín? Hér eru 10 atriði sem gætu verið ný tískustefna hjá okkur. Við fundum greinina á netinu og fannst hún skemmtileg en þetta eru vangaveltur um það hvernig tískan muni breytast í kjölfar Covid. Henni var snarað yfir á íslensku, en þó ekki yfir á gullaldarmál.

  1. Hugsum upp á nýtt hvernig og hvar við verslum.

Það að þvælast um búðarganga, prufa skó og leita að augnskugga, er búið að vera.  Heimsfaraldurinn breytti netversluninni í algera nauðsyn með sínar lokuðu verslunarmiðstöðvar, búðir sem fara í gjaldþrot og búðir sem hafa alfarið snúið sér að verfverslun.  Og það var alls ekkert slæmt.  Þetta er hraðvirkt og öruggt.  Það er opið allan sólarhringinn, það er engin röð og þarf ekki að leita að sölumanneskju eða bílastæði.  Þú þurftir ekki að virða fjarlægðarmörk eða vera með grímu á meðan Covid geisaði.  Þú getur keypt þér brjóstahaldara klukkan 2 eftir miðnætti á náttfötunum, þú getur lesið alla umfjöllun um vöruna og leitað góðra tilboða.

  1. Stefnum á þægindin.

Hugmyndir okkar um klæðnað hafa líka breyst.  Eftir að hafa eytt mánuðum heima í þægilegum fötum hljómar það sem er of formlegt ekki vel.  Við erum farin að setja saman fínar buxur og sportlegum topp eða silki topp og þægilegar buxur.  Eitthvað sem virkar þægilegt og einfalt og virkar vel árið 2021.  Ef þú ert ekki búin að bæta við leðurlíkisleggings við fataskápinn, þægilegum íþróttabuxum og síðum og þægilegum peysum, eftir hverju ertu  að bíða?  Haltu samt í buxnadragtina og bleizerana, með þægilegum topp og strigaskóm, þá ertu búin að fullkomna lúkkið. Aðalfylgihluturinn á tímum Covid var gríman. Þeim var safnað í alls konar litum og mynstri. Hvort þær eru komnar til að vera sem hluti af tískunni á eftir að koma í ljós, en hér á Íslandi hefur verið losað verulega um grímuskylduna.

  1. Sættum okkur við okkur eins og við erum.

Góðu fréttirnar eru þær að með því að lifa með teygjanleg mitti þurfum við ekki lengur að sjúga inn magann.  Við höfum minnkað væntingarnar og öðlast töluvert jákvæðari líkamsímynd upp á síðkastið.  Þetta hefur gert okkur kleift að leyfa okkur aðeins meira í mataræðinu, en taka svo gott jóga fyrir framan sjónvarpstækið.  Við einblínum ekki jafn mikið á þyngdina og áður.  Við höfum sætt okkur við að vera í lausari fötum, vera frjálsari svo hver lítil felling eða kúla skiptir ekki jafn miklu máli og áður.  Þó að gott mataræði og hreyfing skipti enn jafn miklu máli erum við ekki jafn hörð við okkur sjálf.

  1. Þægileg nærföt og heimaföt.

Hvernig létum við plata okkur í alls konar þvengi, push up brjóstahaldara og aðhaldsflíkur.  Það er allt í góðu að hafa smá aðhald í leggingsbuxunum en að troða sér í aðhaldsnærbuxur eða níðþröngar hjólabuxur hljómar gamaldags.  Íþróttabrjóstahaldarar, toppar, boxerar og stuttbuxur eru meira móðins í dag.  Sokkabuxur eru gömul saga þökk sé þægilegum síðum buxum og stígvélum.  Sokkarnir eru hins vegar komnir aftur til að þægilegt sé að vera í strigaskóm.  Hver er ekki með fullu skúffu af alls konar litum og mynstruðum ökklasokkum sem hverfa ofan í strigaskóna?  Og núna eigum við þægileg heimaföt, alls konar síddir af kjólum, samfestinga og víðar buxur.  Það hefur aldrei verið jafn töff að vera heima og hugsanlega heldur það áfram að vera töff eftir Covid.

  1. Þarft ekki alltaf að vera fullkomin

Manstu þegar allt varð að vera fullkomið, hárið nýlitað og blásið?  Ekki lengur, núna er bara fínt að græja sig heima og prufa sig áfram.  Alls konar teygjur, hárbönd og spennur sem við notum til að fela rótina, svefnsveipinn og úr sér vaxna klippinguna.  Mörg okkar eru að fara til baka í sína náttúrulegu liti eða klippingar sem lítið þarf að hafa fyrir.  Jafnvel vaxið, akrýlneglurnar og spreybrúnkan eru á undanhaldi.

  1. Velja grænar og hreinar vörur.

Við virðumst öll vera að stefna í áttina að umhverfisvænum vörum.  Allt sem er talið náttúrulegt, lífrænt, grænt, vegan, hreint eða sjálfbært.  Við viljum vita hvað er verið að setja í vörurnar sem við notum og hverju er verið að sleppa.  Við viljum að vörurnar komi í endurvinnanlegum pakkninum, sjá að eitruð eða slæm efni séu ekki á innihaldslistanum, einnig veljum við gervileður og rússkinn í staðinn fyrir ekta.  Við erum einnig farin að velja merki sem framleiða föt úr endurnýtanlegu efni, sérstaklega gallabuxur.  Og kaupum notað.  Þetta er hin nýja feel good tískuvitund eins og að velja lítinn sykur og litla fitu.

  1. Jákvæðni gagnvart hækkandi aldri.

Við erum fara úr ,,glamúr lúkkinu“ í meira náttúrulegt. Við kaupum snyrtivörur með sólarvörn, spritt með handáburði, andlitsnuddtæki og krem, sölt í baðið og allt sem þykkir upp þunnt hár.  Að líta vel út á fimmtugs-, sextugs- eða sjötugsaldri verður alltaf markmið en við virðumst vera að hallast meira að eðlilegu eða náttúrulegu útliti.  Mín skoðun er sú, og ég er ekki sú eina, að lýtaaðgerðir, bótoxfyllingar og lyftingar hjálpa okkur ekki að tengjast öðru fólki.  Til þess þurfum við andlit sem hreyfast, hláturlínur, augnhrukkur og möguleika á að hreyfa augabrúnirnar.  Það er meiri jákvæðni gagnvart eðlilegu útliti og hægt að búast við meiri áherslu á að eldast fallega og hugsa vel um sig.  Vellíðun og heilsa, en ekki unglegt útlit og fullkomnun.

  1. Lifa með minna dóti.

Neytendakapphlaupið hefur hægt á sér í hægt valhopp.  Hvað vorum við að gera með allar þessar fegrunarvörur, tískuföt, eftirlíkngu af  merkjavörum og skó?  Flest okkar nýttu Covid lokanirnar í að taka til í skápunum.  Þetta hefur verið kjörið tækfæri til að taka til, máta, endurhugsa og endurmeta hvað við eigum og hvað við þurfum.  Allt sem var of lítið, of gamalt, of hallærislegt, of ljótt eða of stórt og aldrei notað,  var látið fara.  Snyrtivörum, kremum og útrunnum sápum  var hent.  Þvílíkur léttir sem það var að losa sig við dót og drasl sem aldrei var notað.  Það er vel hægt að lifa með minna dóti.

  1. Engin þörf fyrir að eyða peningum.

Við elskuðum merkin okkar.  Gucci!  Luis Vuitton! Prada!  Þeim mun fleiri þeim mun betra.  Merkjavara var algjörlega nauðsynleg til að sýna að við værum á framabraut og þvílíkt flottar.  En ekki lengur.  Í dag er það öfugt snobb sem gildir.   Helst að finna eitthvað töff sem tilheyrir merki sem enginn þekkir.  Áherslunar hafa breyst frá því að smella á ,,setja í körfu“ í að borga húsaleigu eða af fasteignaláninu, kaupa góðan mat og njóta og safna í sjóði.  Flestar konur eru sammála um að það er ekki málið að eyða mörg hundruð þúsundum í skó eða flík.

  1. Þægilegir skór, alltaf.

Verum bara hreinskilnar, hælaskórnir, sem við notuðum í vinnuna, í partýin og á kvöldin, hafa ekki verið hreyfðir út úr skápnum síðasta árið.  Meira að segja lágu hælarnir og stígvélin með óþægilega harða leðrinu hafa fengið að liggja ónotaðir.  Saknar þeirra einhver?  Fæturnir á okkur gera það alla vega ekki.  2020 var algjörlega ár strigaskónna, klossanna, inniskónna og þægilegu skónna.  Núna þegar allt er að opnast aftur getur þú alveg haldið áfram að láta háu hælana liggja í skápnum.

Ritstjórn júní 10, 2021 07:13