Fá ekki full eftirlaun vegna búsetu erlendis

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Rúmlega 300 Íslendingar 67 ára og eldri, eiga ekki rétt á fullum eftirlaunum hér á landi, ef þeir hafa búið langdvölum erlendis.  Sama gildir um nýbúa hér, sem verða 67 ára.  Þeir eiga oft ekki rétt á fullum eftirlaunum frá Tryggingastofnun ríkisins. Til að fá full réttindi þurfa menn að hafa búið á Íslandi í 40 ár, eða frá 16-67 ára.  Réttindin skerðast  í hlutfalli við þann tíma sem menn hafa verið erlendis. „Síðan eru nýbúarnir okkar eru að eldast“, segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Félags eldri borgara í Reykajvík og nágrenni og bætir við að sumir þeirra hafi flutt hingað af fjölskylduástæðum,  oft án þess að hafa nokkra vitneskju um þessi réttinda mál.  Hún segir það líka skipta máli hvort fólk kemur af EES svæðinu eða frá hinum stóra heimi þar fyrir utan.

Rakin leið til að lenda í fátækragildru

Þórunn tekur dæmi af manni sem hefur unnið og búið  í 8 á á Íslandi og  fór að vinna hjá skipafyrirtæki.  Hann hætti að vinna 67 ára og eftirlaunin sem hann fær nema milli 70 og 80 þúsund krónum á mánuði.  „Þetta er rakin leið til að lenda í fátækragildu“, segir Þórunn.  Enda hefur hluti þessa fólks þurft að leita sér fjárhagsaðstoðar hjá sveitarfélögum. Rétt er líka að það komi  fram að margir þekkja ekki nægjanlega til hvert á að leita eftir upplýsingum.

Eldri nýbúum fjölgar

Fjöldi eldri nýbúa hér á landi tvöfaldaðist á árunum 2009 til 2015.  Fór úr 146 í 327.  Álíka margir Íslendingar bjuggu í fyrra við skertan eftirlaunarétt vegna búsetu erlendis, eða 330 manns.  Þórunn segir margar gloppur séu í eftirlaunakerfinu hér. Hún nefnir annað dæmi um fólk af landsbyggðinni, sem seldi stórt einbýlishús og flutti til Reykjavíkur, þegar börnin þeirra voru komin þangað.  Þau keyptu sér íbúð í Búmannakerfinu og þurfa að borga háa leigu.  Það er erfitt fyrir þetta fólk að ná endum saman. Þórunn segir að hjá Félagi eldri borgara fái menn að heyra þessi dæmi. „Það eru fleiri en okkur grunar sem eiga ekki peninga í lok mánaðar“, segir hún.

 

Ritstjórn apríl 20, 2016 13:01