Tengdar greinar

Færri komust á starfslokanámskeiðin en vildu

Landsspítalinn er gríðarlega stór vinnustaður með rúmlega 6.000 starfsmenn. Árlega hættir hópur starfsmanna vegna aldurs og spítalinn hefur haldið námskeið á haustin sem heita Undirbúningur starfsloka vegna aldurs. Þar sem færri komust að en vildu í ár verður eitt námskeið haldið á vorönn 2020.  Tilgangur námskeiðsins er að starfsmenn geti hugað að undirbúningi fyrir starfslok í tíma ef þeir óska þess.

Þarf að fjölga námskeiðum til að anna eftirspurn

Þórleif Drífa Jónsdóttir verkefnisstjóri á Skrifstofu mannauðsmála Landspítala  hefur umsjón með námskeiðunum. Hún sagði í samtali við Lifðu núna að í haust hafi starfsmenn 64 ára og eldri fengið bréf þar sem þeim var boðið að sækja námskeið sem kallast Undirbúnigur starfsloka vegna aldurs. „ Þetta er ekki skylda, heldur boð fyrir þá sem vilja.  Við héldum í nóvember þrjú námskeið sem um 90 manns mættu eða um 27 – 32 manns á hvert námskeið, en færri komust að en vildu“, segir Drífa  bætir við að ráðgert sé að halda eitt námskeið næsta vor til að tæma biðlistann sem enn er eftir námskeiðinu. Hún segir að svo þurfi líklega að fjölga námskeiðunum á haustönn á næsta ári í fjögur, til að anna eftirspurninni sem hefur farið vaxandi ár frá ári.

Ekki falla á tíma þegar að starfslokum kemur

Lifðu núna leit inná starfslokanámskeiðið í lok nóvember, en þar var lögð áhersla á hvað einkennir það æviskeið þegar fólk hættir störfum á vinnumarkaðinum, hvaða breytingar fylgja því og hvað tekur við. Fluttir voru ýmsir fróðlegir fyrirlestrar um almannatryggingar, heilsu og lífsstíl, svefn og næringu og möguleika á sveigjanlegum starfslokum hjá spítalanum.  Einn þeirra sem sótti námskeiðið var Halldór Kolbeinsson geðlæknir. Hann hefur starfað sem sérfræðingur í geðlækningum í 30 ár, byrjaði á Borgarspítalanum og endaði á Landspítalanum eftir sameiningu sjúkrahúsanna.  „Ég vissi ekki alveg við hverju var að  búast, ég skráði  mig meira  til að forvitnast og heyra hvað slíkt  námskeið innifelur og  hvað  vinnustaðurinn Landspítali  hefði upp á að  bjóða – og samfélagið“ sagði Halldór í samtali við Lifðu núna. Honum fannst námskeiðið upplýsandi og gott að vera minntur á að gefa sér góðan tíma til að undirbúa starfslokin og gera ekki allt í einu – og „ekki falla á tíma þegar kemur að starfslokunum“ eins og hann orðaði það.

Ekki allt búið þegar maður hættir að vinna

Bjarnveig Pálsdóttir hjúkrunarfræðingur sagði alltaf gott að hlusta á svona fyrirlestra til að minna sig á að það er ekki allt búið þegar maður hættir að vinna. Þegar hún var spurð álits á starfslokanámskeiðinu sagði hún bæði og. Þar hefði ýmislegt komið fram sem hún hefði heyrt áður, en hún hefði sem stjórnandi sent fólk á þessi námskeið í gegnum árin. Á þessu starfslokanámskeiði hefði verið rætt um að 65 ára hefði sömu orkuþörf og 7-11 ára barn, en ekki hefði komið fram hver hún væri. „Svo fannst mér þetta áhugavert með svefninn og hversu mikið er einblínt á hann. Það er skondið að sjá að það er verið að klípa ansi mikinn svefn af þeim sem eru í vaktavinnu. Einu sinni í viku vinnur fólk kannski til hálf tólf að kvöldi og mætir svo aftur klukkan 8 morguninn eftir“, sagði hún

Ætlar að vinna fram á vor

Bjarnveig er ekki hætt að vinna. Hún er 65 ára og  búin að vinna nær óslitið á Landsspítalanum frá því hún útskrifaðist úr hjúkrun fyrir 43 árum. Hún var deildarstjóri í 25 ár, en ákvað fyrir rúmu ári að hætta sem yfirmaður og minnka við sig vinnu.“Þetta hefur verið mikið hark undanfarin ár og undirmannað, þannig að þetta hafa verið mikil hlaup á vöktunum“, segir hún og segist stundum hafa verið alveg búin á því og því ákveðið að fara í hálft starf og leyfa þeim sem eru yngri að spreyta sig á deildarstjórastarfinu. Þegar hún er spurð hvenær hún hugsi sér að hætta að vinna segist hún alltaf svara því þannig að hún ætli að vinna fram á vor.

Byrja snemma að undirbúa sig

Halldór Kolbeinsson er heldur ekki hættur að vinna, en vill eins og áður sagði undirbúa sig fyrir starfslokin. Hann telur að ef menn byrji snemma að hugsa um þessi tímamót og leita upplýsinga sé líklegra að þeir verði jákvæðari  þegar starflokin verða og sáttari við lífið og tilveruna.  „Það er áríðandi að upplýsa fólk um þá möguleika sem framundan eru. Starfslokanámskeið eiga því erindi til þess stóra hóps sem er að nálgast þessi tímamót ,fólks sem vill taka skynsamlega ákvörðun og  búa sig  vel undir hin efri ár“, segi hann.

Sjá fyrir sér að hætta 67-68 ára

Bjarnveig varð ekkja fyrir 25 árum. Hún á þrjú börn og barnabörn sem ýmist búa úti á landi eða í Ameríku. „Maður ímyndar sér að þau komi heim, en þá verða þau orðin svo stór að þau þurf ekki á mér að halda lengur, þannig að ég býst við að vinna til 67 – 68 ára aldurs, ef heilsan leyfir, segir hún.  Halldór hyggst nota næsta ár í frekari undirbúning fyrir starfslokin Hann sér fyrir sér að byrja þá því að minnka við sig vinnu en vera alveg hættur þegar hann nær 67 ára aldri. Hann sér starfslokin  í jákvæði ljósi. Nýtt æviskeið sé að hefjast, þar sem áhersla er lögð á önnur mannleg gildi, möguleika á að styrkja fjölskylduengslin og sambandið við vini og samferðafólk.  „Ég sé tækifæri til að bæta við mig  þekkingu á öðrum sviðum og yrkja tómsstundir og áhugamál af krafti“, segir hann og bætir við að engin ástæða sé til að kvíða þessu æviskeiði ef undirbúningurinn er markviss og góður.

Berglind Helgadóttir starfsmannasjúkraþjálfari flutti erindi á námskeiðinu og fékk fólk til að teygja úr sér

 

 

 

Ritstjórn desember 10, 2019 07:48