Tengdar greinar

Fæturnir stækka með aldrinum

Ósk Óskarsdóttir

„Fyrst þarftu að fara í fótabað“, segir Ósk Óskarsdóttir fótaaðgerðafræðingur hjá Fótaaðgerðastofu Reykjavíkur, þegar blaðamaður Lifðu núna sest í stólinn hjá henni. „Ertu nokkuð með sykursýki, eða á blóðþynningu?“ bætir hún við.  Blaðamaður fer úr sokkunum og setur fæturna í heitt vatnið.  Langþráður draumur um að prófa að fara í fótaaðgerð er að rætast. Fæturnir eru farnir að eldast og einhvern veginn orðnir þrútnari en áður og sigg farið að myndast á hælunum eftir áratuga notkun. Það er sannarlega kominn tími til að prófa þetta.

Fóturinn stækkar með aldrinum

Ósk segir að það þurfi að fara varlega með fæturna, þegar menn séu á blóðþynningu. Stundum þurfi að fjarlægja til dæmis líkþorn með beittum hníf og þá sé meiri hætta á að fari að blæða. Ef menn séu aftur á móti með sykursýki, sé blóðflæðið lélegra en hjá öðrum svo og tilfinningin í fótunum.  Blaðamaður er sem betur fer hvorki með sykursýki, né á blóðþynningu.  Ósk segir að húðin á fótunum þorni með aldrinum og fæturnir stækki, það slakni á liðböndum og vöðvum og fóturinn verði breiðari, þá myndist oft núningur á húðina og afleiðing af því geti verið líkþorn.  „Ég bendi viðkomandi þá gjarnan á að skórnir séu of litlir.  Það segir þá kannski nei, ég er alltaf í sama númerinu, t.d. 39.  En með aldrinum þrútna fæturnir og breikka þannig að fólk þarf allt að  einu númeri stærra af skóm en áður“, segir Ósk.

Bjúgur safnast á fæturna

Blaðamaður situr áfram með fæturna í heitu vatninu, það er mjög þægilegt, sólin skín innum gluggann og Ósk segir honum frá fleiri breytingum sem verða á fótunum með aldrinum. „Blóðflæðið verður lélegra þannig að fólki er hættara við fótasárum. Bjúgur vill safnast á fæturna og þá er gott að nota stoðsokka. Ég er til dæmis í stoðsokkum allan daginn í vinnunni. Þeir mynda þrýsting á vöðva og æðakerfi og örva blóðrásina. Mestur er stuðningurinn við ökklann, en minnkar eftir því sem ofar dregur“.  Hún segir að neglurnar geti þykknað. Stundum komi í þær sveppur, en alls ekki alltaf. Þegar það gerist sé fólki vísað til heimilislæknis.

Algengt vandamál hjá fólki er að neglunar vaxa inn í holdið, það gerist oft að vaxtarlagið á nöglinni breytist  með  tilheyrandi óþægindum og þá geti auðveldlega myndast sýking. Það sem fótaaðgerðafræðingar geri í slíkum tilvikum sé að búa til sérsmíðaðar spangir úr stálvír, sem rétti nöglina upp og leiðrétti vaxtastefnuna.  Helsta orsök þessara vandamála eru of litlir og of þröngir skór.

Vaskur sem bíður þreyttra fóta

Léttir að losna við líkþorn

Eldra fólk er stór hluti viðskiptavina Fótaaðgerðastofunnar og sumir koma reglulega á  6-8 vikna fresti. „Um 80% þeirra sem koma til mín eru fastakúnnar“, segir hún.  Tími í fótaaðgerð gengur þannig fyrir sig að menn byrja á því að fara í fótabað og fá spurningar um heilsufarið, síðan eru neglurnar klipptar og þynntar eftir þörfum, og þar á eftir eru hörð húð og líkþorn fjarlægð.  Þegar Ósk er spurð hvort  það sé vont að láta taka af sér líkþorn, segir hún að  það sé  mikill léttir fyrir fólk að losna við það, en það sé reynt að fara varlega og særa fólk ekki þegar líkþornið er tekið.

Sveppir á fótum

Á meðan Ósk talar við blaðamann, klippir hún á honum neglurnar og hreinsar naglböndin. Síðan fer hún að skera hörðu húðina af hælunum. Það er verulega þægilegt að finna siggið hverfa og Ósk segir blaðamanni til mikils léttis að hann sé bara með ágæta fætur og húðin sé nokkuð góð.  Að vísu fremur þurr.  Hún segir þær mæla með því á stofunni að fólk noti rakakrem á fætur og fótleggi, en þó ekki milli tánna.  Þar sé nægur raki og ef aukið sé á hann, geti þetta svæði orðið gróðrarstía fyrir sveppi.  „Fólk getur fengið  sveppi á fætur og tær og eitt sinn var það útbreiddur misskilningur að það væri vegna sóðaskapar“, segir Ósk. Hún bætir við að stundum geti fólk smitast af sveppum á íþróttastöðvum eða í  sundlaugum en menn fái þá líka af öðrum ástæðum, svo sem vegna þess að ónæmiskerfi þeirra sé lélegt.

Vatnsbor og ryksugubor á fæturna

Ósk mundar borinn

Það komi líka sveppir í neglur og það lýsi sér þannig að þær dökkni. Þá sé fólki ráðlagt að fara til læknis, því það sem dugi best gegn naglasveppi séu töflur sem þurfi að taka inn.  Það þoli þær ekki allir og einungis læknar ávísi þessu lyfi.   Nú er Ósk komin með vatnsbor , blaðamanni líður eins og hann sé kominn til tannlæknis. Borinn er  notaður til að þynna neglurnar og laga þær.  Næst vopnast hún ryksugubor og slípar létt yfir húðina.  Hún segir að fólk leiti líka til hennar með  margskonar skekkjur í fótum, tábergssig og ilsig.  Oft þurfi menn innlegg vegna þessa. Hún segir að tábergssig tengist oft skóm og hjá konum tengist það háum hælum. Þegar fólk glími við þessi vandamál, sé bæði hægt að fá stöðluð innlegg í búðum og sérsmíðuð innlegg hjá sumum fótaðaðgerðafræðingum og stoðtækjafræðingum.  Auk þessa eru fótaaðgerðarfræðingar farnir að útbúa alls kyns silikon hlífar, til að fyrirbyggja að sár eða líkþorn myndist.

Fótanuddið punktur yfir i-ið

Fimm fótaaðgerðafræðingar starfa hjá Fótaaðgerðastofu Reykjavíkur, allir menntaðir í Danmörku nema einn, sem lauk náminu í Noregi.  Fátt er þeim óviðkomandi sem varðar fæturna, enda leitar til þeirra fólk á öllum aldri. Stærsti hlutinn er samt fólk sem er komið um og yfir sextugt. En íþróttafólk, skokkarar og göngufólk þurfa líka á þjónustu þeirra að halda.  Blaðamann hafði ekki órað fyrir að það væru svona margar hliðar á umhirðu fótanna, hafði fram að þessu látið duga að klippa táneglurnar og bera rakakrem á fæturna stöku sinnum. Það var hins vegar afar notalegt að fá svona góða yfirferð um fæturna og toppurinn yfir i-ið var fótanuddið í lokin.

Ósk Óskarsdóttir, Ólöf Högnadóttir, Magnea Gylfadóttir og Helga Stefánsdóttir eru allar fótaaðgerðafræðingar hjá Fótaaðgerðastofu Reykjavíkur

Ritstjórn mars 1, 2017 11:03