Fallegt hús í innbænum á Akureyri

Guðjón Friðriksson sagnfræðingur lætur ekki þar við sitja að segja okkur sögu ýmissa húsa í Reykjavík, heldur hefur hann einnig farið um landið og myndað hús þar. Hérna segir frá húsinu Aðalstræti 16 á Akureyri.

Hús dagsins (153). Aðalstræti 16. Eitt af mörgum fallegum timburhúsum í Innbænum á Akureyri, byggt árið 1900 af Sigtryggi Jónssyni snikkara frá Espihóli. Hann fékk leyfi eftir nokkrar deilur í byggingarnefnd til að gera breiðar tröppur við austurhliðina á húsinu ásamt palli meðfram húshliðinni. Ofan á pallinn lét hann súlur ganga úr efst lofti svo að það gæti orðið breiðara en neðri hluti hússins. Tilskilið var að nota mætti pallinn sem gangstétt fyrir almenning ef á þyrfti að halda. Húsið stóð nefnilega í fjörunni og á flóði var ekki fært að ganga framan við það. Á neðri hæðinni var m.a. sölubúð, skrifstofa og trésmíðaverkstæði Sigtryggs en hann rak timburverslun á Akureyri. Sjálfur bjó hann á efri hæðinni ásamt Guðnýju Þorkelsdóttur konu sinni. Húsið komst í eigu Útvegsbankans 1934 og var þá selt í hlutum og skipt í fjórar íbúðir. Árið 1989 kviknaði í húsinu og brann efri hæð þess illa. Um tíma leit út fyrir að húsinu yrði fargað. En árið 1992 keyptu það tvenn hjón, þau Aðalbjörg Hafsteinsdóttir og Ólafur Óskarsson og Hrefna Rúnarsdóttir og Auðunn Eiríksson. Þau tóku til óspilltra mála við endurgerð hússins til upprunalegs útlits með aðstoð Teiknistofu Tómasar Böðvarssonar. Gerðar voru tvær íbúðir, sín á hvorri hæð og allt húsið endurnýjað hólf í gólf á vandaðan hátt. Nú búa í húsinu Hjördís Frímann myndlistarmaður og Kristján Helgason avatarmeistari og þar er Ding Dong heimagallerí.

Ritstjórn nóvember 28, 2020 18:10