Fannst eftirsókn eftir dauðum hlutum vera hjóm

Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Faðir minn var prestssonur, sem átti að verða prestur, en gerði uppreisn og  nam læknisfræði þess í stað. Hann hafði fengið alveg nóg af því að sitja undir prédikunum föður síns á hverjum sunnudegi í æsku í lítilli sveitakirkju norður í landi.

Hann varð trúleysingi, en boðskapur kristninnar hafði þó haft sín áhrif og þá einna helst boðskapur kristninnar um að ekkert væri eftirsóknavert, sem ryð og mölur geta grandað.  Í  huga hans var eftirsókn eftir dauðum hlutum hjóm. Og hann lifði samkvæmt því.

Faðir minn gekk alltaf í jakkafötum, sama hvort hann var að fara í veislu eða á fjöll í leit að arnarhreiðrum. Hann átti þó yfirleitt aðeins ein jakkaföt. Hann gekk í þeim árum saman, eða þar til að þau voru svo snjáð og slitin, að meira segja honum fannst vera að verða skömm af. Þá fór hann í herrafatabúðina, sem hann verslaði alltaf við, Herrafataverslunina P.Ó. við Austurvöll og keyptu sér ný föt.  Hann hafði fyrir reglu að skilja gömlu fötin eftir í búðinni og ganga út úr búðinni í nýju jakkafötum.

Hann gekk alltaf á blankskóm og sama regla gilti um þá.  Hann burstaði þá á hverjum degi, lét skósmiðinn gera við sóla og hæla, þegar með þurfti og loks þegar skórnir voru orðnir of gamlir og slitnir, þá fór hann og keypti sér nýtt par og gekk út úr búðinni á nýju skónum og skildi þá gömlu eftir.

Faðir minn fór allra sinna ferða á bíl.  Þegar hann kom heim frá námi og störfum í Bandaríkjunum árið 1954, flutti hann með sér glænýjan Oldsmobile.  Það tók hann ekki langan tíma að átta sig á því að amerískur kaggi átti lítið erindi til Íslands. Það var erfitt að keyra hann um holótta malarvegina í Reykjavík og ekki var betra að fara á honum um íslenska þjóðvegi.  Svo hann skipti kagganum fljótt út fyrir Volkswagen bjöllu og upp frá því keyrði hann ekki aðra gerð bíla. Það var eins með bílana og fötin, hann keyrði á þeim eins lengi og þeir entust, og þá keypti hann sér nýjan bíl af sömu gerð, eini munurinn var sá að þeir voru aldrei eins á litinn, en tilbreytnin gleður, eins og hann sagði alltaf.

Allt frá blautu barnsbeini var faðir minn mikill aðdáandi fugla himinsins og stundaði fuglaskoðun af ástríðu fram á gamals aldur. Það var ekki mjög kostnaðarsöm iðja. Hún krafðist góðs ökutækis til að komast á slóðir fuglanna (Álftanesið var vinsæll áfangastaður), góðs kíkis, fuglabókar og svo minnisbókar, en faðir minn hafði það fyrir sið að skrá niður allar fuglategundir sem hann sá. Hann var einn af stofnendum Fuglaverndunarfélags Íslands og var eitt aðal baráttumál félagsins í upphafi að vernda íslenska arnarstofnin, haförnin, sem var í útrýmingarhættu.

Erninum stóð mest hætta af refaeitri, sem bændur notuðu til að drepa refi, en þeir óttuðust að refir legðust á sauðfé og dræpu það. Ernir lögðu sér oft á tíðum til munns hræ þessara refa og dóu fyrir vikið. Forystumenn Fuglaverndunarfélagsins beitti Alþingi Íslendinga þrýstingi og börðust fyrir því að bann yrði lagt við notkun refaeiturs á Íslandi. Það tókst og voru lög þess efnis samþykkt á Alþingi.  En þau dugðu ekki til. Sumir bændur, sem voru ábúendur jarða, þar sem örninn verpti, áttu það til að steypa undan örnum, þegar þeir sátu á eggjum sínum á vorin. Faðir minn tók það að sér að vinna þessa bændur á band fuglaverndunarmanna. Á hverju sumri í mörg ár lagði hann land undir fót, og ferðaðist, á eigin kostnað, um sveitir vesturlands, sem var varpland arnarins og heimsótti bændur á þessum jörðum.  Hann heimsótti hvern og einn þeirra og var yfirleitt nokkuð vel tekið. Honum var boðið til stofu og á borð voru bornar veitingar og kaffi. Á meðan á heimsókninni stóð, reyndi faðir minn að sannfæra bændur um mikilvægi þess að vernda haförnin.  Bændurnir tóku þessum boðskap misvel, en til að vinna hylli þeirra enn frekar, hafði hann önnur ráð. Áður en hann hélt af stað vestur kom hann alltaf við í Ríkinu og fyllti húddið á Volswagen bjöllunni sinni af viskíflöskum.  Rétt áður en hann kvaddi bændurnar skaust hann út í bíl og náði í eina flösku og rétti bændum hana með þeim orðum, að ef börnin þeirra veiktust, gæti þeir komið til hans og fengið ókeypis þjónustu.  Einhver áhrif hafði þetta allt á bændurna, alla vega tók arnarstofninn fjörkipp á þessum árum og er nú svo komið, að íslenski haförninn er ekki lengur í útrýmingarhættu.

Faðir minn var mikill aðdáandi sígildrar tónlistar. Í henni fann trúleysinginn guðdóminn.  Hann átti plötur af öllum verkum Mozarts og Beethovens og fullt af óperum. Hann kunni  flest verk meistarana utan að og vinir hans gerðu það oft að gamni sínu að hringja í hann, spila hluta úr verki eftir þessi tónskáld og láta faðir minn geta úr hvaða tónverki það væri. Hann gat alltaf rétt.  Og það var í þessu, sem faðir minn leyfði sér munað, hann keypti sér bestu fáanlegur hljómflutingstæki til að geta spilað verkin.

Faðir minn hóf snemma að læra ítölsku, svo hann gæti skilið óperuverk meistaranna.  Þegar hann hafði náð tökum á ítölskunni, hóf hann nám í rússnesku og sat þá, maður sem aldrei hafði kosið annað en Sjálfstæðisflokkinn, á skólabekk með helstu kommum landsins. Þeim varð, að vonum, vel til vina og komu þeir með börnin sín á stofuna til hans.

Annað sem faðir minn hafði unun af og leyfði sér, var að ferðast um heiminn. Að loknu stúdentsprófi frá MA árið 1936, fór hann til náms í eitt ár til Kiel í Þýskalandi, þar sem hann lagði stund á norræn fræði.  Það ár notaði hann tækifærið og ferðaðist ásamt skólabróður sínum á mótorhjóli um allt Þýskaland. Á þessu ferðalagi lenti hann á fjöldafundi hjá Hitler og fannst lítið til hans koma. Eftir að hann hafði lokið framhaldsnámi í barnalækningum í Bandaríkjunum fékk hann starf sem læknir bandaríska hernámsstjórnarinnar í Japan og dvöldu foreldrar mínir þar í nokkur ár.

Eftir að til Íslands kom, notaði hann hvert tækifæri sem gafst til að ferðast og voru þau fá löndin í Evrópu og fá ríki Bandaríkjanna, sem hann hafði ekki komið til. En það var eitt sem hann gerði aldrei þegar hann fór í siglingar, hann keypti aldrei neitt fyrir sjálfan sig, nema, eins og hann sagði sjálfur, skóreimar. Og það gerði hann aldrei nema í neyð.

Ef ein af reimunum í skónum hans varð ónothæf jafnt heima sem erlendis, þá hafði hann það fyrir reglu að klippa reimina úr hinum skónum í tvennt. Ef það gekk ekki upp, þá fyrst leitaði hann sér að skósmið og keypti sér nýjar reimar.

 

 

Ritstjórn janúar 3, 2020 09:25