Blaðamaður Lifðu núna sest niður í eldhúsinu hjá Guðrúnu Guðlaugsdóttur rithöfundi til að forvitnast um nýju bókina hennar, Blaðamaður deyr. Það er stöðugur straumur fólks í eldhúsið. „Þetta er Kristinn sonur minn“, segir Guðrún þegar snögghærður ungur maður snarast inn í eldhúsið. Eiginmaður Guðrúnar birtist einnig þar og fær sér kaffi og tvö barnabörn koma og kíkja í ísskápinn. En Guðrún á 6 börn og 15 barnabörn og segir oft gestkvæmt í eldhúsinu á Víghólastíg þar sem hún býr í rúmgóðu húsi.
Hefur stundum frið til að skrifa
Blaðamaður deyr er níunda bókin sem kemur út eftir Guðrúnu, en áður starfaði hún sem blaðamaður á Morgunblaðinu og þar áður sem fréttamaður og þáttagerðarmaður á Ríkisútvarpinu. „Ég skrifa þegar ég fæ frið til þess“, segir Guðrún. „Það er oft gott næði hér á morgnana, svona milli klukkan 8 og 11“. Hún segist stundum hafa frið í annan tíma þó ýmsu þurfi að sinna. „Það er ágætt að ég er frekar félagslynd, ég hefði ekki eignast öll þessi börn nema af því“, segir hún og bendir á að fjölskyldulíf sé oft tilefni þátta, eins og til dæmis Dallas og Downton Abbey. „Maður fréttir ýmislegt og sér margt bara í gegnum fjölskylduna“.
Bygging tilgátuklausturs á Reynistað
Það er forkunnarfögur kona sem er helsta aðalpersónan í Blaðamaður deyr. Hún á kost á tveimur mönnum þegar hún er ung kona og velur annan þeirra. „Þetta var óheyrilega falleg kona“, segir Guðrún „og hún skynjar líka ýmislegt sem öðrum er hulið“. Hún giftist ung presti sem nú vill byggja tilgátuklaustur á Reynisstað í Skagafirði. Rannsóknarblaðaður sem er að skoða málið hefur efasemdir um þessi áform og þegar hann veikist fær hann blaðamanninn Ölmu Jónsdóttur til að skoða málið frekar. Alma var líka sögupersóna í Beinahúsinu, síðustu bók Guðrúnar.
Fegurð kvenna ekki endilega af hinu góða
„Fegurð kvenna er mikið áhrifaafl í ýmsum sögum“, segir Guðrún. Hún segist hafa velt þessu töluvert fyrir sér. Þannig hafi fegurð Hallgerðar til dæmis haft mikil áhrif á framvindu Njálu. Fegurð kvenna sé ekki endilega af hinu góða. Hún geti hjálpað, en geti líka gert líf þessara kvenna erfitt. Þær ráði engu um það og geti ekkert að því gert hvað þær séu fallegar. „En þetta flækir líf þeirra og hvað á fólk að gera sem hefur þessi áhrif?“, spyr hún.
Oft er flagð undir fögru skinni
„Hugmyndin virðist oft sú, að ófríðar konur séu göfugar og góðar, en fagrar konur hljóti að vera flögð, samanber máltækið „Oft er flagð undir fögru skinni“, segir Guðrún. „Það er gjarnan ein svona persóna í skáldsögum, þær mega ekki vera of margar. Karlarnir verða síðan handbendi þessara kvenna“, segir hún og bætir við að þeir virðist oft miklu einfaldari sálir en konurnar, bæði í bókum og í lífinu sjálfu. „Karlar komast ekki með tærnar þar sem konurnar hafa hælana í ástríðunni, segir Guðrún og telur það stafa af því að konur sjái mest um afkvæmin og þurfi að verja þau með kjafti og klóm. Þar af leiðandi séu í þeim meiri tilfinningasveiflur.
Blaðamennska góður undirbúningur fyrir rithöfunda
Guðrún Guðlaugsdóttir hefur verið skrifandi öll sín fullorðinsár og það er kannski ekki tilviljun að aðalsögupersónan Alma Jónsdóttir er blaðamaður. „Mér finnst ég hafa verið óskaplega heppin að hafa fengið tækifæri til að starfa svona lengi í fjölmiðlum“ segir hún, en faðir hennar var einnig blaðamaður sem ungur maður og fleiri í fjölskyldunni. Guðrún segist ævinlega hafa lesið mikið og að sig hafi alltaf langað til að skrifa bækur. Hún segir að athygli sín hafi nýlega verið vakin á því að það sé hugsanlega erfiðara fyrir blaðamenn en aðra að hasla sér völl sem rithöfundar. Það eigi hins vegar ekki alltaf við og ýmsir höfundar hafi sýnt og sannað að blaðamennska sé góður undirbúningur fyrir skáldsagnaritun.