Jólagjafir handa barnabörnunum

Það er oft erfitt að finna góðar gjafir handa barnabörnunum, enda eiga börn í dag þvílíkt magn af leikföngum að það hálfa væri nóg. Góðar bækur og spil eru gjafir sem bjóða uppá margt, samveru og samræður, auk þess að örva hugsun og ímyndunarafl.

Bækurnar

Við fengum nokkra kennara í Vesturbæjarskóla til að benda á bækur sem henta barnabörnum á ákveðnum aldri og nokkur spil. Þær hafa langa reynslu af starfi með börnum og hér fyrir neðan nefna þær nokkur dæmi um bækur fyrir hvern aldursflokk, en taka fram að hann sé langt í frá tæmandi. Það sé auk þess einstaklingsbundið hvaða efni hentar hverjum, en ekki endilega bundið við aldur.

3-5 ára.

Skrímslakisi eftir Áslaugu Jónsdóttur, Kalle Güettler og Rakel Helmsdal, Vinur minn vindurinn eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og Þegar litirnir fengu nóg eftir Drew Daywalt í þýðingu Birgittu Elínar Hassell. Síðan er Einar Áskelll alltaf vinsæll í þessum aldursflokki og Ævintýri H.C.Andersen. Skrudda hefur gefið út bók með úrvali ævintýra hans.

6-8 ára

Knúsbókin eftir Jónu Valborgu Árnadóttur,  Stór og svolítið pirrandi fíll eftir David Walliams og Krakka Atlasinn sem Örnólfur Thorlacius þýddi.

9-11 ára

Umhverfis Ísland í þrjátíu tilraunum eftir Ævar (Þór Benediktsson) vísindamann, Vísindabók Villa 2 eftir Vilhelm Anton Jónsson, Rottuborgari eftir eftir David Walliams og Demantaráðgátan eftir Martin Widmark,

12-14 ára

Maðurinn sem hataði börn eftir Þórarinn Leifsson, Gula spjaldið í Gautaborg eftir Gunnar Helgason og Hjálp eftir Þorgrím Þráinsson.

14-16 ára.

Skrifað í sandinn eftir Marjun Syderbö Kjelnæs en hún hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2011, Arfleið (þríleikur)eftir Veronicu Roth og verðlaunabókin Eleanor og Park eftir Rainbow Rowell.

Spil eða upplifun

Það er mikið úrval spila í Spilavinum

Það er mikið úrval spila í Spilavinum

Kennararnir í Vesturbæjarskóla bentu einnig á nokkur spil sem þeir töldu skemmtileg fyrir börn. Þetta eru spilin Dixit, Kaleidos og Besserwisser. Búðin Spilavinir var nefnd sem góð búð til að kaupa spil og púsl. En einnig var bent á að það væri gaman að gefa börnunum upplifun, til dæmis miða á Línu langsokk og bókina með. Margir velta eflaust fyrir sér hvort það sé rétt að gefa barnabarninu síma, eða spjaldtölvu í jóla- eða afmælisgjöf. Kennararnir telja það frekar vera í verkahring foreldra að gefa slíkt. Afar og ömmur ættu því ekki að gefa slíka hluti nema í samráði við foreldrana.

 

 

 

Ritstjórn desember 12, 2014 16:00