Vilja ögra sér á nýja vegu eftir starfslok

Gunnar Gunnarsson og Ágústína Guðmundsdóttir voru kennarar í Stykkishólmi í 34 ár. Gunnar kenndi myndlist, Ágústína íþróttir o.fl. Þau nýttu sér 95 ára regluna svonefndu og hófu töku lífeyris strax og færi gafst. Þau eru nýflutt til Akureyrar, þar sem synir þeirra tveir og barnabörnin fjögur bjuggu fyrir.

„Þeir fóru báðir í M.A., fundu sér maka á Akureyri og ílentust þar,“ segir Gunnar í samtali við Lifðu núna. „Þegar vinnuskyldum okkar í Stykkishólmi lauk var því nærtækast fyrir okkur Gústu að flytja líka til Akureyrar, þar sem börnin og barnabörnin búa.“ Þau keyptu sér útsýnisíbúð í nýbyggingu ofarlega í bænum. Þaðan er stutt í brekkurnar í Hlíðarfjalli, sem kemur sér vel á veturna enda eru þau bæði mikið útivistarfólk. Nú seinustu árin hefur golfíþróttin reyndar orðið að mun meiri ástríðu hjá þeim hjónum. Þegar blaðamaður hitti Gunnar á heimili þeirra á Akureyri var eiginkonan stödd í golfferð vinkvennahóps á Spáni. Og stutt í að Gunnar færi sjálfur út, þar sem honum bauðst að stökkva í skarðið fyrir kunningja sem komst ekki í löngu bókaða golfferð.

„Flugvizkubit“ hamlar ferðagleði

Gunnar við sýnishorn verka sinna á nýja heimilinu á Akureyri.

Meðal þess sem þau hjónin nýta semsagt frelsið sem fylgir eftirlaunaaldrinum í, er að láta eftir sér að fara til dæmis í svona golfferðir til útlanda. Þau vilji gjarnan ferðast meira – en óneitanlega finnist þeim loftslagsváin kalla á að þau leggi sitt af mörkum með því að fljúga minna; „flugvizkubit“ er með öðrum orðum að hamla því að einhverju leyti að þau láti ferðadrauma sína rætast.

En ferðadraumarnir takmarkast ekki við útlönd. Þau ætli t.d. að halda sig mikið á Austurlandi í sumar, sem þau þekki einfaldlega lítið og vilji kynnast betur. Þau séu búin að kaupa sér rafmagnsreiðhjól og hyggi á að nota þau mikið í sumar. Myndlistin er heldur aldrei langt undan þar sem Gunnar er; með auknum frítíma vonast hann til að geta gert meira af því að mála. Hann hefur mest unnið með vatnsliti í sinni eigin listsköpun og hefur reyndar haldið sýningar á verkum sínum nýlega og verið með myndir á samsýningum víða.

Sjáum lífið í þremur skeiðum

„Við sjáum lífið í þremur skeiðum. Á því fyrsta er maður alltaf að læra eitthvað nýtt, takast á víð nýjar áskoranir. Allir möguleikar opnir. Annar kaflinn er rútínuskeiðið: „Vinna, borða, sofa, ala upp börnin“. Á þessu skeiði flýgur tíminn og heilinn einhvern veginn að mestu á sjálfstýringu. Ef maður heldur þannig áfram á þriðja æviskeiðinu veit maður ekki af fyrr en maður er dauður,“ segir Gunnar. Þau Gústa hafi því einsett sér að láta þriðja æviskeiðið líkjast því fyrsta meira; sækja í stöðugt nýjar áskoranir, læra eitthvað nýtt, helzt á hverjum degi, og halda þannig heilabúinu virku og kviku. „Með því að prófa meðvitað stöðugt nýja hluti þá verður lífið líka áhugaverðara, innihaldsríkara,“ segir hann.

Vinnumaður í sveit frá sjö ára aldri

Gunnar er fæddur árið 1956 og er þar með 66 ára á þessu ári. Hann er uppalinn í Vesturbæ Reykjavíkur, en í föðurættina er hann ættaður úr Ingólfsfirði á Ströndum og Hafnarfirði, og í móðurættina til Húsavíkur. Frá sjö til fjórtán ára aldurs var hann í sveit á sumrin, frá sauðburði til sláturtíðar, á Heiðarbæ I í Þingvallasveit. Tengingin við Þingvallasveitina kom til í gegnum föður hans sem fæddist í Reykjavík árið 1917, en móðir hans, föðuramma Gunnars, lét skíra soninn í höfuðið á tveimur konum sem hún stóð í þakkarskuld við – Guðrúnu Jónasson og Gunnþórunni Halldórsdóttur sem ráku verzlun í Reykjavík á þessum tíma en áttu líka jörðina Nesjar við suðvestanvert Þingvallavatn og dvöldu þar á sumrin. Drengurinn fékk nafnið Gunnar Rúnar, og kvað vera fyrsti Rúnarinn í nafnasögu Íslendinga.

Vatnslitamynd eftir Gunnar af Heiðarbæ, máluð 1993.

Hann ólst að hluta upp á Nesjum, og þegar Gunnar sonur hans, viðmælandi vor, var sex ára kom hann fyrst á nágrannabæinn Heiðarbæ, þá með eldri bróður sínum Ólafi sem var orðinn vinnumaður þar. Gunnar yngri tók svo við sem vinnumaður hjá Jóhannesi bónda á Heiðarbæ I árið 1963 og gegndi því starfi til ársins 1970. „Við vorum tveir strákar vinnumenn þarna saman og lutum verkstjórn Sveinbjörns Jóhannessonar, sem tók síðar alveg við búrekstrinum af föður sínum. Þetta voru langir vinnudagar. Við vorum í alls konar verkum; í fjárhúsunum, í girðingarvinnu, strax frá því ég var átta eða níu ára vann ég flest verk sem þurfti dráttarvél í,“ segir Gunnar frá eins og ekkert væri sjálfsagðara en að barn á þessum aldri ynni svo krefjandi vinnu. „Svona var þetta nú bara á þessum tíma.“

Gunnar hugsar til þessara æskusumra sinna á Heiðarbæ með hlýju, þótt vinnan hafi stundum verið krefjandi fyrir svo ungan dreng. Hann hafi lært heil ósköp á þessu, enda Sveinbjörn einstaklega laginn að kenna góð vinnubrögð. Hann minnist líka skemmtilegra útreiðartúra, á Þingvelli, í Kárastaðasjoppuna, á kappreiðar á Laugarvatnsvöllum – og bátsferða á vatninu að vitja um net, stangveiði af klettunum á vatnsbakkanum og fleiru og fleiru. Og hlýs faðms Margrétar, konu Jóhannesar bónda.

Hitti Stykkishólmsmær í Stokkhólmi

Gunni og Gústa á góðri stund.

Þau Gunnar og Ágústína kynntust í Stokkhólmi í Svíþjóð, þangað sem Gunnar hafði farið til að vinna við smíðar en líka halda áfram námi í húsasmíði. Þegar kom að því að taka sveinspróf í húsasmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík vildi svo til að á nákvæmlega sama tíma fór fram inntökupróf í Myndlistar- og handíðaskólann, sem hann var hvattur til að fara í. Einn leiðbeinenda hans í Iðnskólanum sagði: „Þú átt að gera það sem ástríða þín segir þér!“

Úr varð að hann tók á endanum myndmenntakennarapróf, og Ágústína íþróttakennarapróf nokkru áður. Eftir útskrift úr Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni kenndi hún einn vetur á Eskifirði, en það var áður en þau Gunnar kynntust. Systir Gunnars, Lóa, og Ágústína voru hins vegar vinkonur frá því í Gagnfræðaskólanum við Lindargötu,sem síðar rann inn í Fjölbrautaskólann við Ármúla. Ágústína fór síðan í framhaldsnám til Kanada, og svo til Svíþjóðar þar sem hún ætlaði að læra jazzballett hjá rússneskum kennara. „En það varð lítið úr því,við Gunni kynntumst og urðum strax ástfangin,“ segir hún.

Heim komin kenndi Ágústína um tíma í Ísaksskóla í Reykjavík. Eftir útskrift Gunnars úr myndmenntakennaranáminu kenndu þau einn vetur í Þorlákshöfn. Þá var eldri sonur þeirra fæddur. Svo höguðu örlögin því þannig að á sama tíma var verið að leita að myndmennta- og íþróttakennurum í Stykkishólmi, heimabæ Ágústínu. Þau réðust því þangað og skutu þar rótum – í 34 ár eins og fyrr segir.

Þegar Lifðu núna náði tali af Ágústínu voru þau hjón nýkomin úr tíu kílómetra göngu í Eyjafirði. „Þetta er allt annað líf, að búa steinsnar frá fjölskyldum sona okkar,“ segir hún, ánægð með flutninginn til Akureyrar.

Gunnar, Ágústína og synirnir Rúnar og Guðmundur Ólafur.

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar. 

Ritstjórn apríl 29, 2022 07:00