Tengdar greinar

Ferðatöskur sem passa í handfarangur í fluginu

Ertu að leita þér að ferðatösku sem má fara með um borð í flugvél? Ertu að fara í stutta ferð og vilt koma öllu fyrir í lítilli ferðatösku?. Litlar ferðatöskur sem má hafa í handfarangri um borð njóta mikilla vinsælda og sumir ferðast eingöngu með þær.  Þannig er upphaf greinar sem birtist nýlega á vefnum Sixtyandme.com. Hún birtist hér í lauslegri þýðingu. Gefum greinarhöfundinum orðið.

Ég fór í tveggja vikna ferðalag um heiminn á síðasta ári og í fyrsta sinn fór ég einungis með eina litla ferðatösku  með mér sem hægt var að vera með í handfarangri í fluginu. Þetta var taska sem ég hafði fengið lánaða hjá vinkonu minni til að prófa. Ég var vön að tékka töskurnar mínar inn þegar ég ferðaðist og var iðulega með alltof mikinn farangur. Með því að taka einungis eina litla ferðatösku með mér, þurfti ég að hugsa það alveg uppá nýtt hvernig ég pakka. Það breytti lífi mínu. En svo allrar sanngirni sé gætt, þá var ég að fara í ferð að sumarlagi og þurfti ekki að taka nein vetrarföt með.

Ég varð virkilega ánægð með að hafa tekið þessa ákvörðun þegar ég fór í gegnum flugvöllinn í Montreal í Kanada. Ég trúði varla mínum eigin augum þegar ég sá óskila töskur sem var búið að stafla upp í móttökunni fyrir farangurinn. Þarna voru óteljandi ferðatöskur, sem eigendur biðu eftir á öðrum flugvöllum, jafnvel í öðrum löndum eða heimsálfum.

Sem betur fer hefur staðan lagast og farþegaflug og farangur eru að færast í eðlilegra horf. En eitt er víst að héðan í frá mun ég eingöngu ferðast með handfarangur. Biðraðir eftir að tékka inn töskur, eða eftir að þær komi „siglandi“ á farangursbandinu þegar lent er á flugvellinum, eru úr sögunni.

Þegar ég kom tilbaka úr ferðalaginu með ferðatöskuna sem ég hafði fengið lánaða hjá vinkonu minni lagði ég af stað í innkaupaleiðangur til að leita að bestu „carry on“ ferðatöskunni sem ég hefði ráð á, til að nota á ferðalögum mínum framvegis.

Það sem fólk þarf að hafa í huga þegar lítil ferðataska er keypt:

Greinarhöfundur lýsir síðan í greininni ýmsum ferðatöskum sem hann skoðaði og velti fyrir sér. Hvaða skilyrði þarf taskan að uppfylla svo hægt sé að taka hana með í handfarangri? „Hér eru nokkur atriði sem hafa þarf í huga ætli fólk kaupa á slíka tösku“, segir höfundurinn.

Stærð töskunnar

Hvert flugfélag setur sínar eigin reglur um það hversu stórar töskurnar mega vera í handfarangri. Athugið á vefsíðu flugfélagsins sem þið fljúgið með hvaða stærð það er nákvæmlega sem það notar. Lifðu núna tékkaði á því hvaða stærð íslensku flugfélögin, Icelandair og Play gera kröfu um.

Handfarangurstaska sem menn mega hafa mér sér frítt hjá Icelandair, þarf að vera 55x40x20 cm. á stærð og 10 kg. þung. Auk hennar er leyfirlegt að hafa með sér litla handtösku eða fartölvu í handfarangrinum.

Handfarangurstaskan sem Play leyfir fólki að taka með sér frítt, þarf að vera  42x32x25 cm. að stærð og má vega 10 kg.  Það er leyfilegt að hafa aukalega með sér inn í vélina poka úr fríhöfninni og lyf sem fólk kann að þurfa.

Play leyfir líka stærri ferðatöskur í handfarangri sem tekinn er um borð í vélina en þá þarf að borga fyrir það gjald á bilinu 5-6000 krónur. Þessar töskur mega vera 56x45x25 cm stórar og vega 12 kg.

Þyngd töskunnar

Taskan þarf að vera lauflétt þegar hún er tóm. Munið að þið þurfið að lyfta henni fullri af dóti uppí farangursgeymslurnar fyrir ofan ykkur í vélinni.

Mismunandi hólf.

Hólf í ferðatöskunni geta verið gagnleg þegar koma á farangrinum fyrir í svona lítilli tösku. Skórnir ættu til dæmis ekki að vera innan um fötin. Athugið líka að sumar töskur er hægt að stækka til að mæta þörfum ykkar og einnig er hægt að nota sérstaka pökkunar poka til að skipuleggja betur farangurinn í töskunni.

Á að vera mjúkt eða hart efni í töskunni?

Það er persónubundið hvað hentar fólki best. Hart efni í töskunni veitir eigunum sem í henni eru betri vörn, en taskan verður aftur á móti þyngri og það er meiri hætta á að hún hreinlega brotni í sundur með tímanum. Mjúkt efni í ferðatösku eykur hættuna á að eitthvað í farangrium skemmist, en taskan verður hins vegar léttari.

Ending

Gæðin hafa áhrif á verðið, en eru mikilvæg vegna þess að töskurnar verða fyrir alls kyns hnjaski á ferðalögum.  Þeim er fleygt inn í skottið á leigubílum, troðið í farangursgeymslurnar yfir sætunum og rúllað eftir endalausum göngum og gólfum í flugvallarbyggingunum.

Hjólin eitt af því mikilvægasta

Það er sérlega mikilvægt að skoða hjólin á töskunni vel. Ef þau bila þurfið þið nefnilega að bera töskuna langar leiðir og það er nokkuð sem fólk hefur ekki áhuga á að þurfa að gera.  Það er algengast í dag að töskurnar séu á fjórum hjólum og það er mun þægilegra að rúlla þeim fram og tilbaka, en töskum á tveimur hjólum.

Handfangið

Það er mikilvægt að handfangið sé sterklegt og að það sé hægt að hækka það og lækka. Það skiptir líka máli að það sé gert úr góðu, léttu efni.

Útlit töskunnar

Liturinn  á töskunni skiptir líka máli og persónulega er ég hrifnust af svörtum eða gráum töskum. Ef þið eruð hins vegar hrifnari af litum, er að öllum líkindum hægt að velja tösku í uppáhalds litnum sínum.

Aukabúnaður töskunnar

Ferðatöskur fylgja tímanum og nú er orðið hægt að finna töskur með hleðslustöð fyrir lítil raftæki og hólfi fyrir fartölvuna, segir greinarhöfundurinn sem er þá líklega að tala um markaðinn í Bandaríkjunum.

Nokkrar töskur

Eftir að hafa skoðað margar töskur og borið saman, valdi höfundur greinarinnar að kaupa tösku sem heitir Samsonite Freeform og sést hér til vinstri.

Ástæðan fyrir valinu  að sögn hans var að þessi taska kemur ævinlega vel út í könnunum þar sem samanburður er gerður á ferðatöskum. „Þetta er gæðataska frá Samsonite, hún er lauflétt, handfangið sterkt og hjólin snúast auðveldlega á hvaða undirlagi sem er. Hún er í skemmtilegum litum, piparmintu grænum, misturbláum og dökkum  teal. Inni í henni eru einnig vasar og skilrúm“, segir hann.

 

Blaðamaður Lifðu núna, kynnti sér ferðatöskur í tveimur verslunum í Reykjavík. Hjá A4 og Pennanum Eymyndsson. Eftir mjög svo óvísindalega könnun leist honum nokkuð vel á töskurnar þrjár sem sjást hér fyrir neðan, en tekið skal fram að það er ekki verið að mæla sérstaklega með þeim. Þær eru bara dæmi um töskur af þessari stærð sem er hægt að kaupa í Reykjavík.

Á vinstri myndinn hér fyrir neðan má sjá tösku frá Delsey en hún er 55x35x25 cm. Hún kostar 69.999 krónur. Við hlið hennar er gul taska frá Samsonite sem er 55x40x20 cm.  Hún er á sama verði og Delsay taskan. Bláa taskan á myndinni fyrir neðan lengst til hægri er 55x35x20 cm. Hún er ódýrari en hinar tvær og kostar 44.990 krónur Allar þessar töskur eru mjög léttar, á góðum hjólum og með góðu handfangi.

Delsay taskan er með hólfum

Samsonite taska úr hörðu efni

Létt og mjúk taska

Ritstjórn júní 8, 2023 07:41