Fimm leikkonur flytja Passíusálmana í Saurbæjarkirkju

Það eru einkum tvær ástæður fyrir því að Steinunn Jóhannesdóttir leikkona og rithöfundur er að undirbúa lestur fimm leikkvenna á Passíusálmunum í kirkjunni í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd á föstudaginn langa. Önnur er sú að hana langaði í tilefni af sjötugsafmælinu sínu í vor að kalla saman gamlar samstarfskonur úr Þjóðleikhúsinu, en hin að hana langaði að halda því á lofti að Hallgrímur Pétursson fékk fjórar ættstórar konur til að ,varðveita og kynna fyrir sig Passíusálmana á sautjándu öld.

„Ég hef gert þetta nokkrum sinnum áður, að stjórna lestri Passíusálmanna fyrir páska og þetta er í annað sinn sem ég geri þetta með konum í kirkjunni í Saurbæ“, segir Steinunn. Leikkonurnar sem lesa sálmana með henni á föstudaginn eru Edda Þórarinsdóttir, Halla Guðmundsdóttir, Kristbjörg Kjeld og Margrét Guðmundsdóttir. Steinunn segir verkefnið grundvallað á gamalli vináttu. „Það er mikið fyrirtæki að setja sig vel inní Passíusálmana, þetta margslungna og dramatíska skáldverk, og mér fannst ég ekki geta beðið hvern sem var um að gefa mér þetta í afmælisgjöf. Þess vegna leitaði ég í þennan hóp, sem ég komst í vinfengi við í Þjóðleikhúsinu þegar við vorum ungar. Leiðir okkar hafa legið saman í mörgum verkefnum. Kristbjörg lék til dæmis í fyrsta leikritinu mínu Dans á rósum og Margrét lék Guðríði í leikritinu mínu Heimur Guðríðar, Steinunn segir að kirkjan í Saurbæ sé óskaplega falleg og hljómburður þar mjög góður. Það hafi verið ótrúlega skemmtilegt að kalla þennan hóp saman á sögustaðnum, þar sem sálmarnir urðu til. „Þær eru að gera þetta með mér og fyrir mig í þessum tvöfalda tilgangi, að tengja okkur við konur á 17. öld, sem fengu það stóra hlutverk að koma Passíusálmunum á framfæri við samtíma sinn og sýna að við treystum okkur til þess sama á 21. öldinni “.

Flutningur Passíusálmanna í Saurbæ hefst klukkan 13.30 og stendur til 18.30. Allir eru hjartanlega velkomnir í kirkjuna til að hlýða á hluta lestursins eða allan. Tónlistarflutningur milli þátta verksins er í höndum Zsuzsönnu  Budai organista kirkjunnar.

Í tengslum við flutning Passíusálmanna í Saurbæ verður endurútgefinn bæklingurinn, Svoddan ljós mætti fleirum lýsa, með ágripi af sögu þeirra kvenna sem Hallgrímur treysti á sér til fulltingis. Þær voru Ragnhildur Árnadóttir frá Ytra-Hólmi, Helga Árnadóttir í Hítardal, Kristín Jónsdóttir í Einarsnesi og Ragnheiður Brynjólfsdóttir í Skálholti. Höfundur textans er Steinunn Jóhannesdóttir.

 

Ritstjórn mars 28, 2018 10:14