Fimmtugsafmælisgjöfin átti að verða sólarlandaferð til Spánar

Skaftafellsferð.

 

 

Harpa Víðisdóttir segir að hún og maki hennar, Oddur Ingason, séu þetta dæmigerða „fólk á fimmtugsaldri“. Hún skilgreinir það sem fólkið sem er mikið fyrir útivist, búið að koma börnum á legg og tengir þvæling sinn um Ísland við hreyfingu. Þau fá útrás fyrir hreyfiþörfina í sumar- og vetrarferðum sínum og tengja það alltaf skemmtun því þau eru í nokkrum ótrúlega skemmtilegum hópum vina sem öll hafa sambærileg áhugamál. „Þegar hreyfiþörfinni hefur verið svalað er tekið til við að hlæja og hafa gaman,” segir Harpa. „Það er svo auðvelt og skemmtilegt að hlæja úti í náttúrunni,” bætir hún við. Þau hjónin nýta sér nágrenni Reykjavíkur til að hlaupa, hjóla, skíða og synda og njóta þess að búa í nálægð við náttúruna á höfuðborgarsvæðinu. Þau hafa sannarlega einnig nýtt sér aðra staði á landinu eins og sjá má í þessu viðtali.

Afmælisgjöfin utanlandsferð

Fjölbreytileilkinn í íslenskri náttúru heillar Hörpu og Odd.

Harpa er að verða fimmtug í ár og af því tilefni voru þau fjölskyldan  búin að gera ráð fyrir að gera undantekningu og skipuleggja þetta sumar öðruvísi en vanalega og voru búin að setja stefnuna á útlönd. Þau ætluðu að fara fjölskylduferð í sólina en af því verður ekki af augljósum ástæðum. „Okkur leiðist það hreint ekki neitt,“ segir Harpa og er alsæl með ferðatakmarkanirnar. „Við finnum okkur alveg örugglega ýmislegt skemmtilegt að gera á Íslandi í staðinn því nú getum við notið allrar uppbyggingarinnar sem hefur átt sér stað hér undanfarin ár. Hér vantar því sannarlega ekki möguleika til að búa til hið fullkomna sumarfrí. Við þurfum ekki að fara til útlanda til þess. Fyrsta ferð okkar þetta sumar verður veiðiferð og sú næsta verður Snæfellsjökulhlaup með hlaupafélögum okkar. Svo verður farið í Þórsmörk um mitt sumar og þar verða allir krakkarnir okkar með. Þórsmörk er dásamlegur staður og einfalt að kveikja ferðabakteríuna á þessum himneska stað.“

Við ætlum síðan að planta okkur í Hólaskjóli um miðjan júlí og gista í tjöldum. Þaðan ætlum við að hjóla um Skælingja, Grátind, Eldgjá og meðfram Langasjó. Síðan tökum við stefnuna í Skaftafell og stefnum á

að ganga og hjóla um svæðið, m.a. inn í Bæjarstaðaskóg. Með svona þvælingi svölum við ferða- og hreyfifíkninni og tilhlökkun er alltaf mikil.”

Valkvíði þegar kemur að ferðavali á Íslandi

Harpa og Oddur hjóla í Hallormsstaðaskógi.

Harpa segir að hér á landi sé um svo margt að velja þegar kemur að afþreyingu í sumar, fólk lendi frekar í valkvíða en finna ekki eitthvað við sitt hæfi. Þau hjónin hafa ferðast töluvert um landið og eiga nokkra uppáhaldsstaði, t.d. Þórsmörk, Ásbyrgi og Siglufjörð þaðan sem Harpa er ættuð. Fyrir skömmu fóru þau sem dæmi í Heli skiing-ferð um Tröllaskagann, „Nú er eimitt tækifæri fyrir okkur Íslendinga að njóta þess sem útlendingarnir hafa mögulega notið í meira mæli ,“ segir Harpa. “Slíkar magnaðar upplifanir eru nú í boði og ekki eins dýrar og men halda. Nú er auk þess verið að bjóða tilboð á hótelgistingum  um land allt svo ævintýrið og samvera með vinum og fjölskyldu er sannarlega að gerast á Íslandi þetta sumar.

Harpa starfar hjá Verði tryggingum og segir að þar sé starfsfólk hvatt til að taka fjögurra vikna samfellt sumarleyfi og geyma fríið ekki þar til síðar. „Það er von okkar að starfsfólk félagsins ferðist á Íslandi í sumar“, segir hún. Hún segist hafa frétt af fleiri fyrirtækjum sem hvetja starfsfólk sitt til að nýta fríið á íslandi. Harpa segir að hún viti um marga sem hafi aldrei farið í sumarfrí á Íslandi og hafi ekki hugmynd um þau ævintýri sem leynast við bæjardyrnar hjá okkur. Allt of margir hafi leitað langt yfir skammt og farið til útlanda á hverju sumri. Nú sé tækifærið til að breyta því.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn júní 26, 2020 08:46