Fjöruferð með barnabörnunum

Það er alltaf ævintýri að fara í fjöruferð, ekki síst á vorin og sumrin. Það eru margar fjörur vítt og breitt um landið þar sem upplagt er að fara í gönguferð með barnabörnin.   Í bókinni Reykjavík barnanna er mælt með fjöruferð á Seltjarnarnesi og lýst því sem þar er hægt að gera. Það á að minnsta kosti að hluta til, einnig  við um fjöruferðir annars staðar.

Gaman að skoða fuglalífið

Það er gott að hafa með sér fötur, skóflur og önnur ílát í ferðina,  til að safna í flottum skeljum, steinum og öðru því sem finna má í gljúpum sandinum, segir í bókinni.  Á Seltjarnarnesi er hægt að ganga frá Eiðistorgi eftir fjörunni í hvora áttina sem er, alla leið út í Gróttu og fara hringinn í kringum Nesið ef vel viðrar. Á Bakkatjörn er mikið fuglalíf og mælt er með því að hafa fuglabók með í för og skrá alla fugla sem sjást og telja hversu margar tegundir maður kemur auga á. Á norðanverðu Nesinu er gamall hákarlaskúr og skammt þar frá er steinlaug þar sem hægt er að fara í fótabað. Laugin er útilistaverk eftir Ólöfu Nordal og nefnist Kvika. Það er unnið út frá náttúrufari á Seltjarnarnesi. Þarna er góður staður til að láta þreytuna líða úr fótunum, borða nestið og njóta útsýnisins.

Byggja sandkastala

Hvað er hægt að gera í fjörunni? Þannig er spurt í bókinni og svarið:  Hægt er að finna alls konar steina, kuðunga, skeljar og rekaviðardrumba og búa til hljóðfæri úr því. Gaman er að teikna í sandinn og byggja flotta sandkastala og stíflur og skreyta með skeljum og fallegum steinum. Hægt er klifra í klettunum og fara í hlutverkaleiki.

 

Ritstjórn ágúst 20, 2014 11:06