Fjórum sinnum Þórarinn

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Ég hef alltaf haft áhuga á íslenskum mannanöfnum og hef fylgst með umræðum í fjölmiðlum um hvaða nöfn má nota og hver ekki. Hver eru í tísku og hver ekki. Alltaf áhugaverð lesning sem vekur margar spurningar. Þessi áhugi vaknaði strax á menntaskólaárunum. Stóra verkefnið mitt í íslensku hjá frænda mínum Gísla Jónssyni í MA var að skrifa um  mannnöfn og merkingu nafnanna á öllum skólafélögum mínum. Ég fékk gott fyrir verkefnið.

Í dag fékk ég senda gamla mynd frá frænku minni. Á henni eru fimm ungir herrar. Meðfylgjandi var fyrirspurn um hvort þeir hétu ekki allir sama nafninu, Þórarinn, í höfuðið á afa Þórarni Eldjárn á Tjörn í Svarfaðardal. Það var reyndar ekki rétt. Þarna laumaðist inn á mynd einn sem var skírður í höfuðið á hinum afanum sem hét Árni. Afi og amma Sigrún áttu fjögur börn og öll skírðu þau drengi Þórarinn og þrjú smelltu nafni ömmu á dætur sínar. Ég er ein af þeim. Strákarnir voru allir saman í sveitinni á sumrin og voru aðgreindir sem Tóti, Þórarinn Ungi sem smám saman breyttist bara í Ungi, Þórarinn Krist og Þórarinn Sig. Svona var þetta þegar ég var að alast upp.

Ég kíkkaði inn á síður Hagstofunnar og fann þar yfirlit yfir algengust einnefni í dag. Þar trónir Jón enn efstur en vinsældir nafnsins hafa þó dalað eitthvað. Árið 1703 hét fjórði hver karl á landinu Jón. Á eftir Jóni koma Sigurður, Guðmundur, Gunnar, Ólafur og svo framvegis. Hjá konunum hefur Anna skotist upp fyrir Guðrúnu, en þetta sama ár 1703 hét fimmta hver kona Guðrún. Á eftir Önnu og Guðrúnu koma Kristín , Sigríður, Margrét og Helga.

Við vorum sex systkinin og vorum öll skírð í höfuðið á öfum, ömmum og öðrum nánum ættmennum af þeirra kynslóð. Þegar amma Sigrún lést gaf afi mér gullúrið hennar af því að ég var elst af nöfnunum hennar. Mér fannst það mikil upphefð. Þessi nafnahefð gaf mér þá tilfinningu að ég tilheyrði fjölskyldu.

Þegar ég eignaðist eldri son minn smelltum við foreldrarnir báðum afanöfnunum á hann. Þórleifur Stefán skyldi drengurinn heita. Vandræðin upphófust þegar yngri sonurinn fæddist. Þá var símaskrá dregin fram og margra vikna valkvíði upphófst. Að lokum varð nafnið Héðinn fyrir valinu, nafn sem átti að valda honum endalausum vandræðum á námsárum í útlöndum. Í einhver ár var hann kallaður Heiðinn, sem honum líkaði ekki vel og fór að láta kalla sig Jacob til að einfalda sér lífið.

Sú hefð að skíra í „höfuðið á“ virðist vera að fjara út. Sennilega er það bæði gott og vont. Einnefni virðast líka vera að víkja fyrir tvínöfnum, oft tveimur örstuttum nöfnum. Mín reynsla af þeim er að mér gengur illa að muna þau. Í kennslu er það bagalegt á meðan gömlu góðu nöfnin límast strax í heilabúið, nöfn eins Kolbeinn, Jóhann, Þorgerður og Vigdís. Svona er að vera gamaldags!

Sigrún Stefánsdóttir apríl 3, 2023 07:00