Flóknara þegar fólk tekur saman á síðari hluta ævinnar

Jóhanna og Óttar fóru til Tælands og skelltu sér á matreiðslunámsskeið. Þau segjast ekki hafa lært mikið en skemmt sér mjög vel.

Jóhanna V. Þórhallsdóttir söngkona og Óttar Guðmundsson læknir hafa þekkst í áratugi eða allt frá því Óttar settist í læknadeild HÍ og kynntist þar Þóri, bróður Jóhönnu. Frá þeim tíma vissi Óttar hver litla systir Þóris var, en á þeim er 9 ára aldursmunur. Þau náðu hins vegar ekki saman fyrr en löngu síðar og giftu sig fyrir 9 árum.  “Auðvitað er lífið flóknara þegar fólk tekur saman á síðari hluta ævinnar þegar báðir eiga sína fortíð,” segir Óttar. “Í okkar tilfelli hefur þetta allt blessast en það er langt því frá auðvelt að sameina ólíka hópa. Við erum mjög þakklát fyrir að okkur hefur tekist það með börnunum okkar.” Þau Óttar og Jóhanna eiga bæði börn með fyrri mökum en ekkert saman. Þau ætla með allan hópinn til Grikklands á næsta ári í tilefni af stórafmælum þeirra beggja og hlakka mikið til.

Nýtt tímabil lífsins hafið

Jóhanna og Óttar eru dæmi um fólk sem hikar ekki við að breyta til í lífinu. Jóhanna ákvað að stökkva út í djúpu laugina fyrir fimm árum, hætti að stjórna kórum sem hún hafði haft atvinnu af í 25 ár og fór í myndlistarnám. Þá tók við nýtt og spennandi líf hjá henni og annars konar listsköpun. Jóhanna hafði nýlega byrjað að mála en fór þarna í undirbúningsdeildina í listmálun og teikningu í Myndlistaskólanum í Reykjavík og málaralistin greip hana heljartökum. “Málaralistin er svolítið eins og að syngja,” segir Jóhanna. “Ég féll kylliflöt og í mínu tilfelli var eins og allar gáttir opnuðust við þessa kúvendingu. Ég tók t.d. til við að semja tónlist að nýju, gaf út disk með eigin lögum og fór inn í leikhópinn 50+ og samdi lög við ljóðadagskrár sem voru gerðar þar. Óttar var líka óþreytandi við að hvetja mig og ýta mér áfram,”segir Jóhanna brosandi. “Það þýðir ekkert að vera endalaust í einhverjum kúrsum,” sagði hann. “Nú þarft þú að gera alvöru úr þessu fyrst þig langar svona mikið til þess.”  Óttar bætir við að hann viti af reynslu að það skipti mjög miklu máli að fólk fái að gera það sem hugur þess stendur til ef þess er nokkur kostur. Það eigi auðvitað við um fólk á öllum aldri en ekki síst þegar fólk er komið á miðjan aldur. “Lífið er ekki eins og þegar við vorum tvítug og fannst við geta gert allt af því tíminn  framundan væri endalaus. Eftir vissan aldur finnum við að tíminn er dýrmætur og eins gott að nýta hann vel. Það eru eiginlega síðustu forvöð að láta drauma sína rætast.” Jóhanna fór síðan til Þýskalands í tveggja ára listnám hjá Markúsi Lüpertz, einum þekktasta málara Þýskalands.

Óttar skrifar í frístundum

Óttar er geðlæknir við Landspítala háskólasjúkrahús en hefur haft skriftir að áhugamáli alla tíð og gefið út nokkrar bækur allt frá því fyrsta bókin kom út 1990. Þau hjónin hafa sett upp nokkrar

Jóhanna og Óttar tylltu sér upp við ástarvegginn í París. En ekki hvað!

sýningar saman þar sem þau hafa sameinað texta og sögur af áhugasviði Óttars og Jóhanna hefur sungið undir með hljómsveit. Þessar sýningar hafa þau farið með út um landið. “Öll slík vinna er barn síns tíma og svona sýningar hafa verið flugeldar sem við höfum skotið upp öðru hverju og það hefur verið geysilega skemmtilegt,” segja þau. Síðast settu þau saman upp sýningu í tilefni af því að Óttar skrifaði bók um Megas. “Þar áður settum við upp sýningu um geðsjúkdóma í Íslendingasögum og svo dægurlög og geðveiki sem við settum upp á læknadögum sem haldnir voru í Hörpu,” segir Óttar. “Þetta var mjög skemmtilegt  og kom ráðstefnugestum rækilega á óvart. Læknar eru fekar íhaldssöm strétt og verða hissa þegar formið er brotið upp. Nálgun þeirra er yfirleitt vísindaleg og frekar alvarleg og þessi uppákoma þar sem Njála var klædd í búning dægurtónlistar var algerlega á skjön við það en mæltist vel fyrir.”

Hvernig upplifa þau svo að eldast?

“Ég hef verið svo heppinn að vera í góðu líkamlegu formi ennþá og finnst í raun mjög undarlegt að vera orðinn jafn gamall og ártalið segir til um,” segir Óttar. “Ég verð því lítið var við aldurinn og finnst skrýtið að verða að hætta að vinna á spítalanum á næst ári af því þá verð ég sjötugur. Þegar ég var yngri var sjötugur maður ævagamall í mínum huga. Ég fer ennþá allra minna ferða á hjóli og fer í fjallgöngu ef mér dettur í hug. Það kemur mér þess vegna á óvart hversu hár aldurinn er orðinn,” segir Óttar og hlær.

Spegillinn lýgur ekki

Óttar segir að það sé helst þegar hann líti í spegil sem hann undrist hver þessi maður sé sem hann sér þar. “En af því mér líður ekki eins og ártalið segir til um fyllist ég ekki skelfingu við að horfa á þennan karl í speglinum. Það er auðvitað til marks um að aldur er hugarástand að einhverju leyti. Annars er fólk alveg hætt að leggjast í kör eftir starfslok. Heilbrigði fólks er almennt svo miklu betra en það var og mjög margir hafa það sem betur fer mun betra fjárhagslega en almennt var áður. Stórir hópar geta veitt sér ýmislegt á efri árum þótt það eigi auðvitað ekki við um alla. En lögin í landinu eru þannig að mér er gert að hætta að vinna á spítalanum á næsta ári þótt ég geti haldið áfram með einkastofu. Ég mun líka halda áfram að skrifa og leiðsegja eins og ég hef gert í gegnum tíðina,” segir Óttar og Jóhanna bætir við að Óttar sé að sumu leiti ofvirkur og myndi eiga mjög erfitt með aðgerðarleysi.

Jóhanna og Óttar á myndlistarsýningu Jóhönnu.

Fékk eitthvert hjartavesen í fyrra

Jóhanna hefur haft krafta á við marga alla ævi og dregið vagninn á mörgum stöðum í einu en í fyrra fékk hún viðvörun sem gerði það að verkum að hún var nauðbeygð til að staldra við. “Ég hélt bara að ég væri eitthvað slöpp, kannski að fá flensu. Óttar var í Svíþjóð svo ég hringdi þangað og hann sagði mér að fara upp á hjartagátt til vonar og vara. Ég var að setja saman bók fyrir galleríið og hafði ekki tíma fyrr en að þremur dögum seinna að láta athuga þetta. Þaðan fékk ég svo ekki að fara því á gáttinni komust þeir fljótt að því að nauðsynlegt væri að blása út æðar af því ég var komin með kransæðastíflu. Þetta reyndist ekki vera alvarleg stífla en nóg samt til að gera þurfti á mér aðgerð.”

Talar hvorki um sig sem sjúkling né gamla konu

Jóhanna er enn að ná upp orku en segist vera komin með löngunina aftur til að vinna og vera með í öllum sköpuðum hlutum. Eftir þetta áfall þurfti hún í fyrsta sinn að hvíla sig á daginn og segist kankvís hafa horfst í augu við það að hugsanlega yrði hún ekki hundrað ára eins og hún hafði alltaf haldið. “Ég tala hvorki um mig sem sjúkling né  gamla konu því mér líður ekki þannig. En auðvitað er ég eldri en ég var en þá er bara að horfast í augu við það og gera sitt besta til að halda í heilsuna.”

Bera virðingu fyrir áhugamálum hvors annars

Óttar segir hlæjandi frá því að Jóhanna hafi til dæmis ekki vitað að hún var að giftast brjáluðum fótboltaáhugamanni þegar þau tóku saman en hún beri virðingu fyrir því. “Hún fer með mér á völlinn en ég með henni á tónleika og sef gjarnan í gegnum fyrsta þáttinn af Wagner. En við förum saman. Eftir að hafa meðhöndlað fólk í hjónabandsvandræðum hef ég dregið þann lærdóm að það skiptir gífurlega miklu máli að vera þátttakendur í lífi hvors annars. Við höfum til dæmis ekki samþykkt hugtakið “makalaust starfsmannapartí”. Maður lærir af reynslunni og eftir misheppnuð hjónabönd hef ég þroskast.”

Fararstjóri í frístundum

Óttar hefur farið sem fararstjóri til landa þar sem hann hefur stundað nám í eins og Þýskalands, Póllands og jafnvel til Frakklands. Þau hafa því ferðast mikið og Jóhanna hefur farið með honum í flestar ferðirnar. “Ef vantar fararstjóra í aðra rútuna þá tekur Jóhanna hana,” segir Óttar. “Þetta er krydd í tilveruna sem við höfum gaman af og er sameiginlegt áhugamál okkar beggja.” Jóhanna hefur auk þess tekið þátt í útgáfu bóka Óttars með því að myndskreyta þær. “Það er kannski af því við náðum svona seint saman að við erum að vinna upp tímann sem sem við vorum ekki saman,” segir Óttar þegar þau tala um samvinnu þeirra hjóna á mörgum sviðum.

Edrú stjarna þangað til hann féll aftur

Óttar er alkóhólisti og  hætti fyrst að drekka 1985 og var edrú í 12 ár. Á þeim tíma varð hann yfirlæknir hjá SÁÁ og í forsvari fyrir áfengismeðferðinni á Landspítalanum. “Ég var alltaf í viðtölum, hélt

Þau fóru með söngskóla Sigurðar Demetz til Pétursborgar.

fyrirlestra hérlendis og á Norðurlöndunum, gaf út bók um áfengismál og var mjög áberandi í allri þessari umræðu. En svo kylliféll ég aftur mitt í frægðinni. Ég var bara hress með það að vera farinn að drekka aftur og var búinn að selja mér þá hugmynd að þetta hefði bara allt verið misskilningur. Ég hefði aldrei verið raunverulegur alkóhólisti. Þetta hefði verið aðstæðubundið og ég gæti alveg stjórnað drykkjunni.” Þá hófst níu ára tímabil  og Óttar segist hafa gert allar vitleysurnar í bókinni. “Fljótlega fóru vandamálin að gera vart við sig en ég faldi þau vandlega og flutti til Þýskalands í tæp tvö ár.

Guði sé lof að þessi maður er hættur að drekka

“Svo hætti ég loksins að drekka 2006 þegar við Jóhanna tókum saman,” segir Óttar. “Ég sá að ég yrði að hætta líka fyrst hann var hættur,” segir Jóhanna. “Ekki að ég teldi að drykkjan væri eitthvert vandamál hjá mér. En ég sá mjög vel þegar ég var hætt að drekka að ég var búin með kvótann. Mér fannst ég ekki vera alkóhólisti miðað við Óttar en ég var sannarlega búin að drekka of mikið,” segir Jóhanna. “Það voru allir sammála um það að ég ætti að hætta að drekka en um leið voru margir á því að Jóhanna ætti ekki að hætta,” segir Óttar. “En það er alveg morgunljóst að það gengur ekki að bara annað hjóna hætti að drekka ef fólk hefur verið drykkjufélagar svo að þarna tókum við upp nýjan lífsstíl.” Þau Jóhanna og Óttar eru því saman í því að lifa áfengislausu lífi og Jóhanna segir það hafa verið eina bestu ákvörðun sem hún hefur tekið um ævina . “En hvorugt erum við heilög eða lúsarlaus eins og amma sagði alltaf og viljum ekki vera það,” bætir Jóhanna við.

Fundu bæði guð sinn

Óttar fann sinn Guð í gegnum AA samtökin og biður á hverjum morgni. “Ég hef fyrir reglu að fara að leiði foreldra minna á hjólinu á morgnana  og biðjast fyrir og þakka fyrir lífið. Óttar segir brosandi frá því að þessi hegðun sé að sumu leyti orðin áráttu-þráhyggjukennd. Hann segist ekki hafa verið sérlega trúaður í í lífinu. “En ég lít á það sem kraftaverk að ég skyldi lifa af drykkjuna og þunglyndið sem fylgdi með tilheyrandi sjálfsvígshugsunum og –tilraunum. Það er guðleg forsjá að ég skyldi hafa sloppið lifandi frá þeirri vitleysu allri.” Jóhanna hefur líka verið trúuð um ævina og starfað mikið við tónlistarflutning í kirkjum. Þessi jákvæðu hjón eru staðráðin í að lifa lífinu lifandi það sem eftir er og halda áfram að gera skemmtilega hluti saman.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn september 29, 2017 16:54