Flugsokkarnir fljúga út

Sumarið er mikill ferðatími og margir leggja leið sína til útlanda á þessum árstíma, yfirleitt í flugi.  Stoðtækjafyrirtækið Stoð í Hafnarfirði hefur á undanförnum árum selt sérstaka þrýstingssokka fyrir sogæðabjúg, fitubjúg og bláæðavandamál. Fyrirtækið hóf svo að selja flugsokka í vor og það má segja að þeir hafi bókstaflega flogið út að sögn þeirra hjá Stoð. Sokkarnir eru ofnir þannig  að mesti þrýstingurinn er niður við ökkla og minnkar svo þegar ofar dregur.  Vilborg Jónsdóttir sjúkraliði  hjá Stoð segir að þannig sé hægt að draga úr bjúgmyndun á fótum og sokkarnir séu góð vörn gegn blóðtappa.

Góðir í flug og langar bílferðir

„Það er allskonar fólk sem kaupir sokkana“, segir Vilborg, „fólk sem er að fara í flug eða ferðalag, fólk sem ætlar að ganga mikið í borgarferðum, fólk sem er bara að fá smá bjúg yfir daginn, fólk sem fær mikinn bjúg yfir daginn, fólk sem stendur mikið í vinnunni, fólk sem situr mikið í vinnunni, fólk sem fær fótapirring, fólk sem er með æðahnúta og ekki má gleyma óléttum konum. Flugsokkarnir henta nánast öllum“, segir hún. „ Fólk fer í sokkana á morgnana þegar enginn bjúgur er á fótunum eftir góða hvíld yfir nóttina. Flestir eru svo í sokkunum fram eftir degi og margir alveg fram á kvöld. Eins eru margir sem nota sokkana eingöngu í flugi, á löngum bílferðum eða þess háttar“.

Sokkarnir seldir eftir máli en ekki skóstærð

Vilborg segir  góða ástæðu fyrir því að sokkarnir frá Stoð séu þannig ofnir að mesti þrýstingurinn sé niðri við öklann en svo minnki hann jafnt og þétt uppað hnjám  „ Ef sokkarnir væru ofnir þannig að sami þrýstingur væri niður við ökkla og upp á kálfa þá næði sogæða- og bláæðakerfið ekki að pumpa upp í hnésbót og sokkurinn myndi þrengja að þar og ýta vökvanum beina leið aftur niður í ökkla sem gefur aukna áhættu á blóðtappamyndun. Sokkarnir okkar eru eingöngu seldir eftir máli ekki skóstærð þar sem að skóstærðin segir ekkert til um sverleika kálfanna“.   Sokkarnir frá Stoð  eru eingöngu seldir í Lyfju Lágmúla, en þar eru sjúkraliði og hjúkrunarfræðingur sem taka mál fyrir sokkunum.

 

 

Ritstjórn júní 20, 2014 15:38