Tengdar greinar

Flýr bróður sinn til Berlínar

Skáldsagan Bróðir er fjórða bók rithöfundarins Halldórs Armands. Þetta er fjölskyldudrama sem fjallar um systkinin Hrafntinnu Helenu og Skarphéðinn Skorra.  Skorri sem ekki er orðinn þrítugur er farinn að kenna í Háskólanum. Honum er lýst þannig í upphafi bókarinnar að hann sé mjög snjall, hafi alltaf átt heitar kærustur en sé samt bara „fullkomlega beisikk gæi“. Við grípum niður í örlagaríkan kafla í bókinni:

Hendur hans nötruðu. Hann var klæddur í rauðköflótta vintage-skyrtu, Levis 501-gallabuxur, órakaður og hárið var úfið. Ég var ekki viss um hvernig ég ætti að bregðast við, því ég hafði vitaskuld ekki minnstu hugmynd um hvað hann var að röfla. Ég kveikti dauft ljós í eldhúsinu., dró fram hálfkláraða kókflösku úr ísskápnum. „Hver er lögga?“spurði ég meðan ég hellti í glös fyrir okkur. „Viktor. Rakkinn hann Viktor. Ef hann heitir þá Viktor.“ „Og hver er Viktor eða ekki Viktor'“ „Fyrrverandi kærasti systur minnar“.

Systir hans bjó í Berlín. Pabbi þeirra hafði hringt í Skorra um kvöldið og tjáð honum að Hrafntinna Helena væri horfin. Hún hafði lengi verið í sambandi með dönskum manni, Viktori, en það hafði endað fyrir nokkrum vikum þegar í ljós kom að hann lék tveimur skjöldum. Hann hafði verð virkur í aktífistahópnum í borginni, skipulagt allt frá upplestrarkvöldum til mótmæla gegn innflytjendastefnu, stefnu Evrópusambandsins í Grikklandi eftir efnahagshrun, alþjóðlegri bankastarfsemi og svo framvegis. Hann hafði kynnt Hrafntinnu fyrir þessu öllu saman og reynt eftir fremsta megni að draga hana inní starfið. Þetta hafði hann árum saman komist upp með. Smám saman molnuðu þó undirstöður blekkingarinnar. Skorri vissi ekki nákvæmlega hvernig hafði verið flett ofan af honum en í ljós kom að Viktor var í raun og veru lögreglumaður sem skrifaði skýrslur til lögregluyfirvalda um starfsemi pólitískra jaðarhópa. Slíkir menn eiga oftar en ekki kærustur sem ljá gervi þeirra trúverðugleika. Hann hafði síðan verið neyddur til þess að játa upp á sig sökina og horfið á braut skömmu síðar. Núna var Hrafntinna sjálf líka horfin.

Viktor þessi var jafnframt ástæða þess að þau systkinin, Skarphéðinn Skorri og Hrafntinna Helena, höfðu ekki talað saman í nokkur ár. Samband þeirra hafði sprungið í loft upp í sextugsafmæli pabba þeirra.

Einhvern veginn svona gerðist þetta: Hrafntinna og Viktor koma til landsins rúmlega viku fyrir afmælið og Skorri er að hitta mág sinn í annað skipti þarna í veislunni. Viktor lætur lítið yfir sér þegar hann gengur inn fyrir og heilsar kurteislega fólki sem Hrafntinna kynnir hann fyrir. Systkinin talast ekki við. Þeir Skorri takast í hendur við bókaskápinn sem ég mundi eftir úr áramótapartíinu. Rifrildi hefst. Viktor segir eitthvað sem veldur því að Skorri þeytir honum yfir veisluborðið, stekkur á hann og lætur hnefana tala. Stór og mikill frændi þeirra systkina, tamingamaður, skerst í leikinn. Hrafntinna hleypur öskureið að bróður sínum, lemur á brjóstkassa hans og æpir: „Hvað er eiginlega að þér? Af hvrjur ertu alltaf svona ógeðslega mikill fáviti?“ en hann starir bara eins og vofa fram fyrir sig, skyrtan er rifin, síðan lítur hann á systur sína. Augnaráðið segir allt sem segja þarf.

Hún starir á hann, stjörf, varirnar ljúkast í sundur, hún veit um hvað málið snýst, skömmu síðar liggja fórspor hennar í snjónum burt frá húsinu og úr lífi Skorra.

Ritstjórn desember 16, 2020 10:34