Tengdar greinar

Fóður fyrir kveðskap

Frá tilnefningu Maístjörnunnar, ljóðabókaverðlauna Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, sem voru veitt í fimmta sinn í maí.

Þegar Ragnheiður Lárusdóttir byrjaði að skrifa ljóð sem barn sagði hún engum frá. Hún var meira að segja svo hrædd um að einhver rækist á ljóðin hennar að hún fór með þau út í náttúruna og gróf þau í jörðina. Stelpur skrifuðu nefnilega ekki ljóð.

Fyrir tveimur árum ákvað hún svo að koma út úr skápnum og viðurkenna áráttu sína að tjá sig á þennan hátt. Hún gerði það með stæl og hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2020 fyrir ljóðabókina ,,1900 og eitthvað“ sem var svo einnig tilnefnd til Maístjörnunnar 2021.

Ragnheiður er nú búin með þriðja handritið að ljóðabók sem er komið til útgefanda og er væntanlegt úr prentsmiðju í október.

Stúdentsmynd af Ragnheiði.

Tveggja ára aðkomubarn

Ragnheiður er alin upp í Holti í Önundarfirði en þangað fluttist hún með foreldrum sínum og fjögurra ára bróður þegar hún var tveggja ára gömul. Faðir hennar var presturinn í sveitinni og móðir hjúkrunarfræðingurinn.

Hún segir að eftir á að hyggja hafi hlutverk þeirra systkina verið sérkennilegt þar sem miklar kröfur voru gerðar til prestsbarnanna. ,,Við áttum að haga okkur vel, áttum ekki að fíflast og áttum ekki að sýna skapbrigði. Það var talað sérstaklega um það í sveitinni ef við Georg vorum óþekk og til þess tekið að ég væri mikil frekja og vanstillt.“ Þar er Ragnheiður að tala um Georg Lárusson bróður sinn sem nú er forstjóri Landhelgisgæslunnar. ,,Annað gilti um yngsta bróður okkar, Özur Lárusson, en hann fæddist eftir að foreldrar okkar fluttu í Holt. Við Georg vorum því alltaf aðkomubörn á meðan Özur var innfæddur,“ segir Ragnheiður og hlær. ,,Mér leið alltaf svolítið eins og við værum til sýnis og svolítið utan við. Svo horfðum við úr fjarlægð á aðra lifa lífinu í þessu samfélagi. Ég átti vinkonur í Reykjavík og á Akureyri og ein vinkona mín bjó í Afríku. Ég átti bara ekki margar vinkonur þar sem ég átti heima. Svo fór ég að heiman 13 ára í heimavistarskóla að Núpi í Dýrafirði en mamma og pabbi voru í 25 ár alls í Holti. Þá gerðist pabbi sendiráðsprestur í Kaupmannahöfn og þau fluttu þangað.“

Þrjú börn á fimm árum

Ragnheiður á þrjú börn sem fæddust öll á fimm árum og þá lagði hún skrifin á hilluna í bili. Börnin eru öll söngelsk eins og Ragnheiður en hún lauk söngkennaraprófi þegar hún hafði

Ragnhieður og börn að syngja í brúðkaupi frænku þeirra.

lokið BA prófi í íslensku og bókmenntum frá HÍ. Hún fór síðan í listkennslufræði í Listaháskólanum 2016 þegar sem hún var að vinna sig út úr erfiðleikum varðandi skilnað. Elstur barna Ragnheiðar er Þorvaldur Sigurbjörn Helgason en hann er ljóðskáld og blaðamaður á Fréttablaðinu. Svo kemur Rögnvaldur Konráð Helgason en hann er 27 ára gamall og  er úti Kaupmannahöfn að læra eðlisfræði og er líka tónskáld. Svo er yngst 25 ára dóttir, Sigurveig Steinunn Helgadóttir, sem Ragnheiður segir að sé gífurlega hæfileikarík stelpa sem vinnur á hóteli.

Ekkert er fegurra en vorkvöld í Reykjavík

Önundafjöruður á sinn stað í hjarta Ragnheiðar.

,,Ég man alltaf eftir því þegar ég heyrði fallegt ljóð Sigurðar Þórarinssonar ,,Svífur yfir Esjunni“ sem barn en þar er setningin ,,Ekkert er fegurra en vorkvöld í Reykjavík.“ Þá hugsaði ég alltaf að sá sem samdi þetta ljóð hefði örugglega ekki komið í Önundarfjörðinn,“ segir Ragnheiður og brosir við góðum minningum. Hún segir að þeim hafi liðið vel í Holti en óneitanlega hafi hún upplifað sem þau væru öðruvísi fólk. „Við féllum ekki inn í hópinn sem gat verið erfitt en við Georg áttum hvort annað að í skólanum. Foreldrar okkar ráku svo sumarbúðir þjóðkirkjunnar á sumrin og þá var gaman af því að þá kynntumst við svo mörgum krökkum. Það voru dýrðartímar. „Þegar Georg átti að byrja í skóla 7 ára og ég var 5 ára líkaði honum mjög illa í skólanum og sagði: „Ég nenni sko ekki aftur í þennan skóla nema Ragnheiður komi með mér.“ Og það varð úr að

Með Hljómeyki, kórsystrum í Ölpunum fyrir nokkrum árum.

ég var látin byrja með honum sem þýddi að ég var tveimur árum á undan jafnöldrum. Það var ekkert sérlega þægilegt félagslega þótt ég hafi bjargað mér námslega, „segir Ragnheiður. „Svo sá ég þátt um Hamrahlíðarkórinn í sjónvarpinu og þá var alveg ljóst í mínum huga í hvaða menntaskóla ég vildi fara,“ segir Ragnheiður sem settist í MH þegar hún hafði seinkað sér um ár með því að fara í lýðháskólann í Skálholti einn vetur.

Heimurinn hrundi en alltaf var ljós

Móðir Ragnheiðar, Sigurveig Georgsdóttir.

Móðir Ragnheiðar var mjög listræn og skrifaði texta um ýmis málefni, þó ekki ljóð. Hún greindist með alzheimer sjúkdóminn 2007, þá 77 ára gömul. Ragnheiður segir að móður hennar hafi farið hægt hrakandi en hún hafi framan af haft mjög gaman af að fara niður á bryggju og á kaffihús og það gerðu þær mikið af. ,,Svo vorum við einu sinni á kaffihúsi þegar hún segir við mig: ,,Mamma þín var mjög falleg kona,“ og ég segi þá ,,Já, það er alveg rétt, þú ert mamma mín.“ Og þá segir hún: ,,Ha, er ég mamma þín. En skemmtilegt, mér finnst þú rosalega sæt,“ segir Ragnheiður og hlær dátt að minningunni.  ,,Maður verður að geta hlegið að þess konar uppákomum því annars er maður bara í öngum sínum alltaf því það er meira en að segja það þegar ættingi fer í gegnum þennan sjúkdóm. Það þýðir ekki að segja við þann veika að hann sé gleyminn heldur þarf að tala góðlátlega í kringum hlutina. Mamma vildi til dæmis endilega fara  að hitta pabba sinn sem var sjómaður og lést 1977. Georg bróðir sagði þá við hana: ,,Veistu mamma, ég held að afi sé bara farinn að sækja á önnur mið núna.“ Og hún sætti sig alveg við það á meðan hún hefði ekki skilið ef Georg hefði sagt sem var: ,,Já en mamma, hann afi er dáinn fyrir löngu.“

Fóður fyrir ljóðin

Á þessum sama tíma lenti elsti sonur Ragnheiðar í óútskýrðu hjartastoppi. ,,Það veit enginn af hverju þetta gerðist en hann var nýbyrjaður í Kvennaskólanum og datt niður þar. Hann var í rauninni dáinn en var gangsettur og náði sér að fullu sem betur fer.“  Þetta var eðlilega rosalegt sjokk en á þessum tíma var Ragnheiður búin að berjast við krabbamein frá 2004. Það var flöguþekjukrabbamein í tungurót og hún fór í mikla geislameðferð. Hún fékk geislaskemmdir sem hún er enn að fást við. Henni voru gefnar 20% lífslíkur en hér er hún enn í dag og tekur fullan þátt í lífinu.

Ljóð sem Þorvaldur, sonur Ragnheiðar, samdi eftir að hún fór í stóru kjálkaaðgerðina, sem tók fimm mánuði að gróa.

Og eins og Ragnheiður hafi ekki fengið alveg nóg af áföllum í gegnum tíðina þá kom enn eitt áfallið áramótin 2013/14 þegar eiginmaður hennar tilkynnti henni að hann væri búinn að vera í sambandi við aðra

konu. Þau reyndu að búa saman í nokkra mánuði eftir það í þeim tilgangi að laga sambandið sem Ragnheiður segir að hafi verið hörmungartími. Það endaði því með því að þau skildu og Ragnheiður fór í gegnum rosalegan sorgartíma. Móðir hennar dó svo 2018.

Tómasarverðlaunin voru veitt niðri við tjörn þar sem kóvid var í gangi og engin hátíð. Ragnheiði voru bara afhent verðlaunin við styttu Tómasar niðri við tjörn.

Ragnheiður segir að það sé svo undarlegt að stundum hellist hvert áfallið á fætur öðru yfir og þegar hún upplifði, ofan á aðra erfiðleika, að dóttir hennar hefði ánetjast fíkn þá hafi ljósið slokknað tímabundið í lífi hennar. ,,En niðurstaðan var sú að Sigurveig náði sér út úr þeim erfiðleikum og hún er sem betur fer á góðum stað í dag. Þegar ég náði henni, eftir að hafa leitað að henni um allan bæ, tók ég hana alltaf í fangið og sagði henni að ég elskaði hana út af lífinu og að hún væri einstök,“ segir Ragnheiður. „Svo sagði hún við mig eftir á að hún hafi aldrei náð að fara alla leið í fíknilífið af því ég hafi haldið svo fast i hana og við gerðum það öll, líka pabbi hennar.“

Ragnheiður segir að þegar þessum tíma var að linna þá hafi hún bognað og yfir hana hellst kulnun. Með góðra manna og kvenna hjálp hafi hún náð sér og sé á góðum stað í dag.

Þessi hörmungartími má segja að hafi verið á sinn hátt fóður fyrir skrif Ragnheiðar enda bera ljóðabækur hennar þess skýr merki því að baki liggur mikil lífsreynsla. „Ég mæli alveg með því að fólk noti erfiða reynslu í listsköpun. Það hefur reynst mér mjög vel.“

Ragnheiður er nú að skrifa barnabók og segist vera að máta sig við það form. Í ljós eigi eftir að koma hvar það endi.

Ragnheiður á veitingastað á Krít þar sem hún var fyrir nokkrum árum að njóta lífsins.

Þessi sterka kona hefur leyft okkur að skyggnast inn í líf sitt á ómetanlegan hátt í gegnum ljóð sín. Það er líf sem hefur á tímum verið mjög erfitt. Hún hefur bara bognað en aldrei brotnað og stendur nú keik og tekur á móti því sem verða vill. Svo fáum við að sjá enn eina ljóðabók eftir hana fyrir næstu jól og víst er að aðdáendur Ragnheiðar Lárusdóttur bíða óþreyjufullir eftir þeirri bók.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júní 10, 2022 07:00