Tengdar greinar

Fór snemma á eftirlaun og fluttist til Íslands

William pantaði sér Daðabol á netinu og klæddist honum þegar hann horfði á Eurovision til að fylgjast með Íslandi.

William Stewart er iðulega spurður að því hvort hann sé eitthvað ruglaður að ákveða að flytja úr heitri paradísinni á Flórída til Íslands þar sem veður eru válynd stóran hluta ársins. „Ég er búinn að vera í stuttbuxum í sólinni alla ævi og þarf ekki meiri sól,“ segir William og brosir og segist eiga nokkra jakka sem koma nú loksins að notum. „Fólk segir mér reyndar að þessir jakkar muni duga skammt þegar alvöru veður skelli á. Merkilegt nokk, þá get ég bara keypt mér þykka úlpu hér á landi og upplifað ævintýrið sem Ísland býður mér upp á núna,“ segir hann fullur eftirvæntingar en hann er 64 ára gamall og settist í Háskóla Íslands til að læra tungumálið strax og hann kom. Svo nú er William orðinn námsmaður í nýju landi, ekki bara ferðamaður.

Líf eftirlaunaþegans í Bandaríkjunum freistaði ekki

William menntaði sig fyrst í viðskiptafræði og bætti svo tölvunámi við sig og hefur starfað við það alla tíð og tók auk þess að sér kennslu í tölvufræði í háskólanum þar sem hann bjó.

William hugsaði um hvað hann langaði að upplifa þegar atvinnuþátttöku lyki og komst að því að það sem hann langaði mest að gera útheimti þokkalega heilsu. Það sem lá beint við að fara að gera í heimalandinu freistaði hans ekki. Hann er fráskilinn þriggja barna faðir en hann á 24 ára tvíburasyni og eina dóttur 21 árs.

„Mig langaði ekki að lifa lífinu sem ég sá að jafnaldrar mínir í Bandaríkjunum gerðu,“ segir hann. „Golfið átti hug þeirra allan og það þýddi að þau voru úti í sólinni allan daginn og svo á ströndinni þess á milli. Þetta var líf sem freistaði mín ekki svo ég fór að hugsa hvað ég gæti gert í staðinn. Ég vissi líka að ef ég biði of lengi myndi tækifærið ganga mér úr greipum. Ég gerði mér grein fyrir því að ég hefði það í hendi mér hvernig efri árin yrðu,“ segir William og brosir. „Þá var auðvitað ekki eftir neinu að bíða og aðstæður mínar voru þannig að ég gat farið.“

Fluttist oft með foreldrunum sem barn

Faðir Williams var yfirmaður í hernum í Bandaríkjunum alla tíð og þurfti þess vegna að flytjast reglulega á milli landa og á milli ríkja innan Bandaríkjanna. Hann fæddist á Ítalíu og vandist því snemma að taka sig upp með foreldrum sínum og setjast að á nýjum stað. Það skýrir eflaust hugrekki hans nú að taka sig upp og flytjast frá Bandaríkjunum. Forfeður Williams komu upprunalega frá Írlandi og Skotlandi og þar á hann enn ættingja sem hann heldur sambandi við.

William spilaði á sekkjapípu heima á nýárskvöld 2019.

Nýtt tungumál spennandi

William bjó með foreldrum sínum um tíma í Þýskalandi og þar komst hann að því að bara við það að hlusta á nýtt tungumál síast það inn. Þannig læri börn að tala og nú notar hann barnaefni í sjónvarpinu til að hjálpa sér við að ná tökum á íslenskunni. Hann settist í Háskóla Íslands í íslenskunám í haust og segist hafa geysilega gaman af því námi.

Hjálpar börnunum með því að flytja í burtu

William á þrjú börn sem öll völdu að búa hjá honum þegar foreldrarnir skildu fyrir nokkrum árum. Hann segir að dóttirin sé sjálfstæði og hafi fljótlega farið að vinna fyrir sér og flutt að heiman en tvíburarnir hafi aftur á móti notið þess að búa á „hótel pabba“ og pabbi sá um allt sem aflaga fór. William segir að það hafi gengið mjög vel þegar þeir voru yngri en hann fór að fá á tilfinninguna að hann væri ekki að gera þeim greiða með því að halda áfram að sjá um allt þegar þeir eltust.

William á leið í fallhlífastökk í Ocala í Flórída.

„Ég fékk þessa ónotalegu tilfinningu að ég væri í raun að skaða þá með því að grípa alltaf boltann ef eitthvað bjátaði á. Ég var þá kominn yfir sextugt og eftirlaunaaldurinn nálgaðist. Þeir voru í vinnu þangað til Covid skall á en lentu þá báðir í uppsögn. Þar með fóru þeir á atvinnuleysisbætur og fundu ekki lengur hvatningu til að sækja um störf því þeir höfðu jafn mikið upp úr atvinnuleysisbótunum. Og síðan var svo gott að vera hjá pabba gamla.“

Gafst upp á að benda á leiðir
William segir að synir hans verði sjálfir að koma auga á hversu mikilvægt er að byggja upp framtíðina því hann verði ekki alltaf til staðar. „Ég gæti haldið áfram á sömu braut um ókomna framtíð en það gefur auga leið að það er ekki best fyrir þá. Þeir vita auðvitað hvar ég er ef eitthvað slæmt hendir þá en nú er ég ekki lengur á staðnum svo þeir neyðast til að hjálpa sér meira sjálfir. Auðvitað var harkalegt að segja þeim að ég ætlaði nú að elta minn draum sem þýddi breytingu á högum þeirra en ég trúi því að það hafi verið betra fyrir þá fyrir utan hvað það er skemmtilegt fyrir mig,“ segir William og brosir.

Ísland er eitt stórt ævintýri
William segist núna vera að upplifa mikið ævintýri á Íslandi. „Það hefur svo margt undarlegt verið að gerast í Bandaríkjunum undanfarin ár. Alls ekki allt slæmt en sumt afleitt. Að mega kynnast algerlega framandi landi er ómetanlegt fyrir mig,“ segir hann og bætir við: „Þegar maður ferðast um Bandaríkin eru margir geysilega fallegir staðir og ég hef sótt þá flesta heim en nú langar mig að sjá annars konar land og Ísland uppfyllir sannarlega þá drauma mína.

Þegar maður ekur á milli borga í Bandaríkjunum eru þær allar hverri líkar. Þú finnur samskonar verslanir, það eru Target-verslanir, Starbucks, Wallmart o.s.frv., allt eins. Hér eru bæirnir aftur á móti sannarlega ólíkir hver öðrum og hafa sérstöðu.“

William lét sig dreyma um að kaupa mótorhjól.

Langar að fá langtímadvalarleyfi á Íslandi
„Sagan ykkar nær svo langt aftur og er algerlega heillandi,“ segir William. „Ég fór með skólanum í gamla kirkjugarðinn við Suðurgötu og bara þar er ótrúleg saga. Mig grunar að margir Íslendingar átti sig ekki á auðlindinni sem felst í heita vatninu ykkar. Sundlaugarnar eru þvílíkur lúxus sem ég nýti mér hvern einasta dag.“

William fann risíbúð við Kvisthaga þaðan sem hann sér meira að segja gosið þegar það er í gangi. Þar fyrir utan er Vesturbæjarlaugin nánast í bakgarðinum hjá honum. Hann fór út á svalir kvöldið áður og yfir honum sveimuðu Norðurljósin. William átti ekki orð til að lýsa þessu undri sem fólk ferðast um langan veg til að berja augum en við höfum þetta oft fyrir augunum alveg frítt, bara ef við lítum til himins. Ekkert af þessu þykir honum vera sjálfsagður hlutur heldur öðruvísi og einstakt og er mjög spenntur að fá að verða hluti af.

Sólveig Baldursdóttir blaðamaður skrifar.

Ritstjórn október 15, 2021 07:00