Fordómar að konur megi ekki hafa sítt hár þegar þær eldast

„Hár bæði karla og kvenna þynnist með aldrinum og einnig koma stundum í það liðir og sveipir“, segir Lilja Sveinbjörnsdóttir hárgreiðslumeistari á hárgreiðslustofunni Hárgalleríi. Lilja segir það algenga skoðun að eldra fólk eigi ekki að láta klippa sig eins og unga fólkið. Uppúr fimmtugu fari að aukast þrýstingur á konur sem hafa sítt hár að láta klippa það stutt. Þær eru þá taldar komnar með „of sítt hár fyrir aldurinn“. Lilja nefnir dæmi um sjötuga konu með axlarsítt ljóst hár, en hún hafi mátt hlusta á það í 30 ár að hún ætti að klippa sig stutt. Hún segir að hárgreiðslur kvenna sem eru farnar að eldast, eigi að vera jafn fjölbreyttar og hjá yngri konunum. Sagan um konuna með síða hárið sem sneri sér við og var þá „eins og sveskja í framan“ sé lífsseig. „Af hverju má hrukkótt kona ekki vera með sítt hár?“ spyr Lilja. Hún segir að þetta séu fordómar. Það hvort manneskja á að vera með sítt eða stutt hár fari eftir hárgerðinni, manneskja með mjög þunnt hár geti til dæmis ekki haft það sítt. Það fari líka eftir andlitsfalli og týpunni sjálfri. „ Það er sama hvort það er klæðaburður, klipping eða annað, það er ástæða til þess fyrir fólk að að hafa þetta eins og það vill“ segir Lilja að lokum.

Ritstjórn ágúst 21, 2014 15:26