Tengdar greinar

Fórnaði ástinni fyrir börnin sín

Georgína hertogaynja af Devonshire.

Margt er líkt með skyldum segir máltækið og það virðist sannast á þeim Díönu prinsessu og formóður hennar Georgínu hertogaynju af Devonshire. Georgína var uppi á átjándu öld og hún var eins og Díana ákaflega óhamingjusöm í hjónabandi sínu. Georgína var umtöluð eins og Díana og oft mátti hún verja einkalíf sitt fyrir árásum. Hún hlaut viðurnefnið alþýðudúkkan vegna þess að hún þótti ekki hegða sér eins og aðalskonu sæmdi og margir hafa bent á að sama viðurnefni hefði mátt gefa Díönu af sömu ástæðum.

Georgína var af Spencer ættinni og faðir hennar réði giftingu hennar. Hagkvæmnishjónaband hennar og hertogans af Devonshire var hins vegar aldrei hamingjusamt og svo virðist sem þar hafi mæst tveir viljasterkir einstaklingar. Hún skrifaði ótal bréf, sem hafa varðveist, m.a. til trúnaðarvinkonu sinnar lafði Melbourne. Í einu þeirra segir hún vinkonu sinni frá þeirri ákvörðun sinni að gefa upp á bátinn stóru ástina í lífi sínu, Charles Grey, til að fá að umgangast börnin sín.

Georgína segir af því tilefni: „Hann getur huggað sig við það að ég fórnaði honum eingöngu fyrir börnin mín.“ Sennilega geta flestar konur skilið þá hugsun sem felst í þessum orðum og þá andlegu baráttu sem hefur legið að baki. Hún fórnaði lífshamingju sinni fyrir börnin en lengi áður hafði hún barist gegn þeirri freistingu að flýja með elskhuga sínum. Hún var hins vegar svo skynsöm að hún vissi að ef hún gerði það myndi sektarkennd hennar og skömm elta hana alla ævi og kasta svörtum skugga á líf hennar og elskhugans. Margar konur, enn þann dag í dag, standa frammi fyrir því að taka þessa sömu ákvörðun og því er auðvelt að finna til samkenndar og samúðar með þessari konu sem þarna talar. Í bók Leos Tolstjoj tók Anna Karenína alveg öfuga ákvörðun og eftir langt sálarstríð og samviskukvalir vegna sonar síns, sem hún fékk ekki að sjá, kastaði hún sér fyrir lest.

Alþýðudúkkan

Árið 1791 var Georgínu send í útlegð til Frakklands. Hún var ófrísk af barni þeirra Charles Greys en það var ekki eina ástæðan fyrir því að eiginmaðurinn rak hana burtu. Hún var spilafíkill og hafði tapað stórfé á kauphallarbraski. Þrátt fyrir að hún sárbændi hann um að fá að hitta börnin þeirra þrjú og loforð hennar um að hitta Charles aldrei framar, leyfði hann henni ekki að koma til Englands í tvö ár. Einhver samtíðarmaður sem varð vitni að deilum þeirra sagði: „Hertoginn af Devonshire hlýtur að vera eini maðurinn sem ekki er ástfanginn af hertogaynjunni.“ Sennilega hafa margir verið tilbúnir til að taka undir þetta sjónarmið þegar deilur Díönu og Karls stóðu sem hæst og enn eru þeir til sem undrast það að Karl hafi valið Camillu Parker Bowles fram yfir Díönu.

Georgína hafði mikil áhrif á stjórnmál síns tíma þótt auðvitað væru áhrif hennar mest að tjaldabaki af því hún var kona.

Öldin átjánda hefur oft verið kölluð upplýsingaöldin eftir upplýsingastefnunni sem var vinsæl heimspekistefna þess tíma. Upplýsingamenn trúðu að menntun og þekking myndi útrýma flestum mannanna meinum. Georgína tók fullan þátt í umræðum síns tíma og trúði á frelsi, vísindi, rökhugsun, byltinguna og fríhyggju í trúmálum. Hún var alla ævi fylgjandi „whigga“ flokknum (the Whigs) en þeir voru stjórnarskrárflokkur Englands og studdu Bandaríkjamenn í
sjálfstæðisviðleitni sinni. Hún var andvíg þrælahaldi og þótt frelsi hennar væri takmarkað af viðhorfum samtíma hennar til kvenna tókst henni samt að nýta sér til fullnustu þau tækifæri sem hún þó hafði.

Georgína kunni að nota sér fjölmiðla til að koma stjórnmálaskoðunum sínum á framfæri og hún hannaði búninga fyrir „whiggana“ og skipulagði pólitískar skrúðgöngur og skrautsýningar fyrir þá. Hún tók einnig á móti flestum leiðtogum flokksins á heimili sínu og hélt þeim dýrðlegar veislur þar sem helstu deilumál og það sem efst var á baugi í
pólitíkinni á hverjum tíma var rætt. Hún gekk meira að segja um götur Lundúna árið 1784 til að hvetja fólk til að kjósa „whiggana“. Þetta þótti jafningjum hennar ókvenleg hegðun og margar lafðirnar hneyksluðust á gerðum hennar og hún hlaut viðurnefnið „Doll Common“ eða alþýðudúkkan eftir þennan atburð.

Spilafíkill með stöðugar fjárhagsáhyggjur

Samtíðarkonur Georgínu litu þó mjög upp til hennar þegar tískan var annars vegar og hún var það sem kallað er „trend setter“. Ef Georgína breytti sniðinu á kjólum sínum eða bætti þá slaufu mátti bóka að flestar aðrar konur í samkvæmislífi Lundúnaborgar gerðu slíkt hið sama. Líferni hennar má hins vegar líkja við áhættufíkn því hún bjó stöðugt við þá hættu að hátterni hennar í ástamálum og spilafíkn yrði gert opinbert. Enski aðallinn hefur þó jafnan lokað augunum fyrir því sem aðalsfólkið gerir svo lengi sem það er ekki á almanna vitorði. Þótt allir vissu um ástarævintýri Georgínu og spilasamkvæmin sem hún sótti um nætur var ekki talað um það. Hún varð að ljúga að manni sínum til að fá peninga til að borga spilaskuldir og oft grátbað hún vini sína um lán. En líkt og aðrir fíklar gat hún aldrei stillt sig um að spila með peningana sem hún fékk lánaða. Georgína var alltaf stórskuldug og áhyggjur vegna þess hvíldu oft þungt á henni.

Margt er líkt með skyldum. Díana og Georgína voru báðar af Spencer ættinni og ævi þeirra var lík um margt.

Ævisöguritari hennar Amanda Foreman leiðir getum að því að spilafíknin hafi í raun verið uppreisn Georgínu gegn samfélaginu. Hún hafði litla stjórn gerðum manns síns og móðir hennar var ákaflega gagnrýnin á dóttur sína og kröfuhörð svo næturævintýrin voru hennar aðferð til að mótmæla. Líkt og Díana var Georgína alltaf undir smásjá fjölmiðla og Gróur þær sem voru henni samtíða vissu fátt skemmtilegra en að tala um hana og uppátæki hennar. Ævi Georgínu er í raun þroskasaga hugrakkrar konu sem vill læra að þekkja sjálfa sig og hafa áhrif á samtíma sinn á eigin forsendum. Hún hafði það sannarlega en hún getur ekki síður haft áhrif á konur nú tveimur öldum seinna.

Ritstjórn apríl 13, 2023 10:30